Neita fé og væla samt.

Greinar

Fyrstu ár svarthvíta sjónvarpsins á Íslandi kostaði ein auglýsingamínúta nokkurn veginn hið sama og ein svarthvít auglýsingasíða í dagblaði. Þetta jafnvægi milli mínútu og síðu hefur smám saman verið að raskast á allra síðustu árum.

Nú er svo komið, að ein svarthvít auglýsingamínúta kostar tæplega helming af svarthvítri auglýsingasíðu og litmínútan kostar rúmlega fjórðung af litasíðu. Þannig hefur myndazt allt að fjórföldu misræmi á tiltölulega fáum árum.

Þetta stafar ekki af óeðlilega mikilli hækkun auglýsingaverðs dagblaða á þessum tíma. Það verð hefur bara fylgt verðbólgunni. Enda væru dagblöðin ekki svo sneisafull af auglýsingum sem raun ber vitni, ef verðið væri of hátt.

Misræmið stafar af því, að stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa statt og stöðugt neitað að færa auglýsingaverð til verðbólgustigs hvers tíma. Með því hafa þeir stundað undirboð, sem þeir vilja láta útvarps- og sjónvarpsnotendur borga.

Afleiðinguna sjáum við í auglýsingaflóði útvarps og sjónvarps. Dagskrár hafa að meira eða minna leyti farið úr skorðum. Auglýsingatími sjónvarps hefur hvað eftir annað sprungið út úr leyfilegum skorðum. Þetta rýrir sjálfa dagskrána.

Ef verðlag auglýsinga útvarps og sjónvarps væri á eðlilegu markaðsgengi, mundi flóðið minnka, en tekjur stofnunarinnar eigi að síður aukast. Og slíkt mundu stjórnvöld leyfa, af því að auglýsingaverð er utan vísitölu.

Stjórnvöld reyna hins vegar að hamla gegn hækkunum afnotagjalda, af því að þau eru innan vísitölu og magna því verðbólgureikninga þá, sem eru alfa og ómega íslenzkra stjórnmála. Þetta gremst ráðamönnum Ríkisútvarpsins.

Þeir hafa nú í nokkrar vikur rekið gengdarlausan áróður fyrir hækkun afnotagjalda. Í því skyni hafa þeir miskunnarlaust beitt fréttatímum og fréttaskýringatímum. Þar hóta þeir notendum lélegri dagskrá, ef þeir komi ekki í þrýstihópinn.

Þetta stanzlausa vol um samdrátt og stöðvun innlendrar dagskrárgerðar er óneitanlega fremur undarlegt, þegar það er skoðað í ljósi þess, að sömu menn neita sér um auglýsingatekjur, er hæfa verðbólgustigi líðandi stundar.

Hitt er svo rétt, að afnotagjaldið hefur ekki alveg fylgt verðbólgu á undanförnum árum. En sú tregða er ekki nema sanngjörn, því að Ríkisútvarpið er hætt að auka þjónustu sína. Lengd dagskrár hefur staðið nokkurn veginn óbreytt á þessum tíma.

Áskriftar- og lausasöluverð dagblaða hefur hins vegar nokkurn veginn fylgt verðbólgu. En þau hafa líka aukið þjónustu sína. “Dagskrárlengd” síðdegisblaðanna hefur t.d. tvöfaldazt á fimm árum. þau hafa aukið framleiðni sína fyrir sama raunverð.

Framleiðni Ríkisútvarpsins hefur hins vegar ekki aukizt. Það er illa rekið fyrirtæki, svo sem meðal annars má sjá af innheimtukerfi þess og gífurlegu mannhafi tónlistardeildar. Það hefur ekki farið ofan í saumana á kostnaði.

Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart. Ríkisútvarpið er opinbert fyrirtæki. Það er markað öllum þeim kerfisgöllum, sem fylgja slíkum stofnunum. Framleiðnin er minni en annars staðar og skilningur á markaðslögmálum takmarkaður.

Auglýsingaundirboðin og afnotagjaldavælið eru lóð á vogarskál þeirrar stefnu, að rekstur útvarps og sjónvarps ætti að vera frjáls hér á landi eins og í sumum öðrum löndum. Þá létu menn hendur standa fram úr ermum í eðlilegri samkeppni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið