Með frjálslyndum og einkum þó gamansömum hugarreikningi má spá hvarfi verðbólgunnar á tíu árum, ef bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar hafa tilætluð áhrif. Það er eins konar niðurtalning fyrir þá, sem hugsa í áratugum, en ekki leiftursóknum.
Í þessu dæmi er miðað við, að verðbólgan hafi verið 61% í hittifyrra og 56% í fyrra, en verði 50% á þessu ári. Með sama áframhaldi ættum við að geta fetað verðbólgulausir inn í síðasta áratug þessarar aldar, í byrjun ársins 1991.
Svo er önnur saga, að ríkisstjórnir hafa í árslok yfirleitt ekki náð þeim árangri í baráttu við verðbólgu, sem þær settu sér í byrjun árs. Er ríkisstjórnin búin að gleyma, að hún ætlaði einmitt niður fyrir 50% í fyrra.
Margt getur komið fyrir á vítisvegi hins góða vilja, þótt varðaður sé góðum áformum. Olían getur hækkað og freðfiskurinn neitað að hækka. Einkum vantar þó, að ríkisstjórnir hafi einbeitni og úthald til að standa við góðu áformin.
Ætli ríkisstjórnin í raun að koma verðbólgunni niður í eða niður fyrir 50% á þessu ári, er vissara fyrir hana að fara að ráðum Framsóknarflokksins um að stefna að 40% fremur en Alþýðubandalagsins, sem þykir nú nóg gert.
Í ágreiningi Framsóknarflokks og Alþýðubandalags er auðvelt að taka afstöðu. Bráðabirgðalögin eru enginn töfrasproti. Þau eru ágætur biðleikur til að verjast 80% verðbólgu á þessu ári. Meira eru þau ekki og annað þarf til að koma.
Ef hinn góði vilji til frekari aðgerða á að koma fram í uppbótum og millifærslum, er þó rétt að segja strax pass. Og vona eins og Verzlunarráð Íslands, að áætlanir ríkisstjórnarinnar um slíkt séu ekki annað en friðþægingartexti.
Í hið verðbólgna tungutak leiðarahöfunda vantar orð til að lýsa áformum um uppbætur og niðurgreiðslur. Þó skal hætt á að segja þau vera tómt rugl. Með því orðalagi er reynt að koma því til skila, að áformin séu einkar heimskuleg.
Ísland þarf landa mest á utanríkisverzlun að halda. Frjálsir markaðir eru okkur mikilvægari en öðrum. Haftakerfi spillir samkeppnisgetu okkar og spillir þar á ofan aðgangi okkar að Fríverzlunarsamtökum og Efnahagsbandalagi.
Verið getur, að ráðherrar hafi um jólin komizt í ævintýri Grimms eða Munchausens og telji sig hafa aðgang að matarholum í góðbúi Jóhannesar Nordal í Seðlabankanum til að fjármagna frystingu gengis krónunnar, það er fölsun hennar.
Hliðstæðir dagdraumar virðast felast í svonefndri efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar, sem ætti raunar fremur að heita drög að málefnasamningi. Þar virðist gert ráð fyrir ýmsum huldum matarholum til að fjármagna hinn góða vilja.
Í senn eiga innvextir að hækka og útvextir að lækka. Gera á iðnaðinn jafn réttháan forréttindagreinum í Seðlabanka. Breyta á lausaskuldum húsbyggjenda í föst lán. Gott og fallegt, en fyrir hvaða peninga? Fyrir ríkissparnað?
Meðan við bíðum eftir skrá um opinberar framkvæmdir, sem frestað verði á þessu ári, er þó rétt að láta ríkisstjórnina njóta þess, að sekt hennar er ekki sönnuð. Það getur verið, að hún slefi verðbólgunni niður fyrir 50%.
Um leið þarf að benda á, að hvert stig verður þyngra, eftir því sem lengra dregur í niðurtalningu. Áramótatexti ríkisstjórnarinnar svarar ekki spurningunni um, hvort hún hafi “allt, sem þarf”, það er viljann.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið