Nú er slegizt um, hvort selja megi bækur í vöruhúsum og húsgögn í blómabúðum. Þessi þvingunarmál bætast ofan á hinar hefðbundnu deilur um, hve lengi kaupmenn megi hafa opið og hvaða vörur megi selja í sjoppum og á bensínstöðvum.
Neytendur eru ekki spurðir ráða, frekar en fyrri daginn. Það eru samtök til takmörkunar verzlunarfrelsis, sem ráða ferðinni. Þau láta meira að segja borgarstjórn Reykjavíkur sitja og standa eins og þeim þóknast.
Bóksöludeilan er undarlegust. Svo virðist sem það sé höfuðverkefni samtaka bókaútgefenda að skipuleggja og standa vörð um svæðisbundna einokun í bóksölu, svo strangan vörð, að landslög um óréttmæta verzlunarhætti verða að víkja.
Að óreyndu mundu menn ætla, að bókaútgefendum kæmi bezt að hafa bækur sem víðast í sölu. Það ætti að örva bóksölu, ef bækur yrðu víðar á vegi neytenda. Bækur væru sjálfsagðari hlutur í þjóðfélaginu, ef þær fengjust utan sérverzlana.
Í gamla daga voru bókaútgefendur og bóksalar sömu mennirnir. Þeir voru því að gæta hagsmuna hver annars, þegar þeir komu á fót hinni svæðisbundnu einokun, sem hefur orðið áhorfendum ærið undrunarefni þessa síðustu daga ársins 1980.
Flestar algengar vörur eru bæði seldar í sérverzlunum og víðtækari verzlunum. Þannig er selt kjöt, mjólkurvörur, brauð og fiskur. Þannig eru seld húsgögn, heimilistæki, hreinlætisvörur og föt. Af hverju ekki líka bækur?
Auðveldara er að átta sig á þeim hagsmunum, sem liggja að baki takmarkaðs opnunartíma verzlana og takmarkaðs vöruframboðs utan þess tíma. Þar eru samtök kaupmanna og verzlunarmanna að standa vörð um þægindi sín á kostnað neytenda.
Þessi samtök hafa borgarstjórn Reykjavíkur í vasanum og eru sífellt að reyna að ná svipuðum tökum á sveitarstjórnum í nágrenninu, þar sem verzlunarfrelsi er. Einokunin er til lítils, þegar Reykvíkingar streyma um kvöld og helgar út á Nes.
Margir kaupmenn eru andvígir hinum takmarkaða opnunartíma og vilja hafa opið, þegar neytendur hafa frí til innkaupa. Þeir fá það ekki fyrir þeirra eigin samtökum, af því að hinir eru í meirihluta, sem vilja hafa frið um kvöld og helgar.
Ófrelsissamtökin hafa séð svo um, að bundið er í reykvískri reglugerð, hvað selja megi í sjoppum. Þar má ekki selja kex, nema það sé súkkulaðihúðað. Þar má helzt aðeins selja óþarfa, en ekki kaffi og te, tannkrem og sápu.
Sumir ágætir kaupmenn hafa ólæst milli sjoppu og búðar og hlaupa ótalinn sprettinn í þágu viðskiptavina. Þessa greiðasemi hafa samtökin á hornum sér og sjá þó alténd um, að neytendur geti ekki verzlað í skjóli innandyra um kvöld og helgar.
Höftin vilja rakna á fleiri sviðum. Við getum til dæmis keypt verkfæri og tónsnældur á bensínstöðvum. Við getum keypt grænmeti, gjafavörur og jafnvel húsgögn í blómabúðum. En einokunarsinnar eru líka að reyna að skrúfa fyrir þetta.
Gjafavörusalar hafa nú klagað blómabúðirnar og segja þær stela markaðnum. En hvernig væri, að gjafavörusalar byggjust til varnar með því að koma sér saman um að hafa opið, þegar viðskiptavinirnir þurfa á því að halda?
Reykvíkingar þurfa að hrista af sér slenið og setja á svartan lista þá borgarfulltrúa, sem þjóna undir haftasamtökin. Menn eiga að fá að kaupa og selja hvaða vöru sem er, í hvaða verzlunartegund sem er, og á hvaða tíma sem er.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið