Eðlilegt er, að alþingi komi nú þegar saman til að taka afstöðu til bráðabirgðalaga ríkisstjórnarinnar, svo sem stjórnarandstaðan hefur krafizt. Undanbrögð ríkisstjórnarinnar fela í sér siðblindu, þótt hefðbundin sé orðin.
Samt leikur ekki vafi á, að bráðabirgðalögin verða samþykkt, hvort sem alþingi kemur nú saman eða síðar. Ríkisstjórnin hefur meirihluta, hvað sem saklausir þjóðmálamenn fjölmiðla ímynda sér í fásinni skammdegis og vetrarveðra.
Óraunsætt er allt tal um ímyndaða afstöðu Guðrúnar Helgadóttur og Alberts Guðmundssonar. Staðreyndir hinnar pólitísku skiptingar breytast ekki í meginatriðum, þótt einstakir þingmenn hafi ýmsa fyrirvara eða efasemdir.
Ekki er beinlínis hægt að kvarta yfir, að ríkisstjórnin notar jólafríið til að koma sjónhverfingum sínum á framfæri. Alþingi var allt til jóla önnum kafið við að ljúka afgreiðslu þeirrar árlegu óskhyggju, sem kallast fjárlög.
Ef eitthvað átti að gera fyrir þjóðarhag í tilefni gjaldmiðilsskiptanna um áramótin, varð að gera það milli jóla og nýárs, svo sem ríkisstjórnin gerði. Rangt er, að hún hafi sent þingið í frí til að geta sett bráðabirgðalög.
En nú er nauðsynlegasta jólafríi lokið. Þingmenn þurfa ekki að hvíla sig langt fram eftir þessum mánuði. Efnahagslög og -áætlun ríkisstjórnarinnar kalla á fundi alþingis nú, þótt annað hafi áður verið ákveðið.
Þegar ríkisstjórn kastar nýjum kjarasamningum út um gluggann og hótar að koma upp millifærslu- og uppbótakerfi eftir tveggja áratuga hlé, er að sjálfsögðu komið tilefni til að stytta jólafrí þingmanna úr heilum mánuði í hálfan.
Þjóðin má samt ekki búast við neinu uppbyggilegu frá þingmönnum, hvort sem þeir koma saman fyrr eða síðar. Þingmenn eru sjálfvirkar vélar, sem sjá allt í hvítu eða svörtu eftir afstöðu þeirra til ríkisstjórnar.
Við höfum þegar séð hin sjálfvirku viðbrögð þrýstihópanna. Eins og áður samþykkir Alþýðusambandið það, sem Alþýðubandalagið hefur ákveðið. Þó má Ásmundur Stefánsson forseti eiga það, að hann maldar örlítið í móinn.
Á hinum kantinum tala Davíð Scheving Thorsteinsson og Þorsteinn Pálsson eins og þeir séu málsvarar meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna. Svona geta innanflokksátök leikið menn grátt, þótt þeir hafi skyldum að gegna utan Valhallar.
Hinar svörtu og hvítu myndir eru svo alls ráðandi, að mönnum bregður lítillega, þegar Björn Þórhallsson segist vilja sjá og skoða útreikninga ríkisstjórnarinnar áður en hann taki afstöðu til niðurstaðna þessara sömu útreikninga.
Í rauninni eru niðurstöður ríkisstjórnarinnar að mestu leyti lítt áþreifanleg loforð eða hótanir um aðgerðir næstu mánaða. Sumt er raunhæft, en annað eru draumórar og þverstæður á borð við hvern annan málefnasamning stjórnmálaflokka.
Tvennt hefur ríkisstjórnin illt gert um áramótin. Hún hefur fryst hina neikvæðu vexti og hún hefur hækkað opinbera þjónustu holt og bolt um 10%. Enn alvarlegri eru þó hótanir hennar um gengisfrystingu, millifærslu- og uppbótakerfi.
Hið góða er svo, að hún hefur með brottkasti kjarasamninga komið verðbólguspá ársins úr 80% í 50%, að mati Verzlunarráðs, og hugsanlega án þess að skerða lífskjörin meira en orðið hefði við fullgilda samninga og opinbert aðgerðaleysi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið