Sjö óskir flytur Dagblaðið Íslendingum við upphaf níunda tugar aldarinnar. Allar fjalla þær um, að þjóðin efli með sér gildi, sem hún hefur löngum haft að markmiði, mörg hver frá upphafi þessa sérstæða mannfélags hér norður í höfum.
Jafnréttisstefna er okkur í blóð borin. Bilið milli hins hæsta og hins lægsta er styttra hér á landi en hjá nokkurri annarri nútímaþjóð, sem við höfum spurnir af. Þetta gildir bæði um lífskjör og annan lífsstíl stétta og annarra félagshópa.
Þetta jafnrétti þurfum við að efla. Einkum þurfum við að gæta þess að skilja ekki eftir nokkra hópa, sem miður mega sín, aldrað fólk, öryrkja, einstæðar mæður, yfirvinnulaust lágtaxtafólk og fjölskyldur drykkjusjúkra.
Umburðarlyndi ríkir hér á flestum sviðum. Við kippum okkur ekki upp við sérkennilegt atferli og sérstæða hugsun, jafnvel ekki frávik í trúarbrögðum. Við erum að töluverðu leyti laus við einsýnisofsann, sem leikið hefur aðrar þjóðir grátt.
Þetta umburðarlyndi þurfum við að leiða inn í stjórnmálin. Við þurfum smám saman að venja okkur við staðreyndir hins pólitíska lífs. Þar eru engir svartir og hvítir fletir, aðeins mismunandi gráir. Kostur og löstur er á öllu.
Metnaður hefur jafnan verið okkur kær. Við höfum talið til góðs, að menn leiti sér fjár og frama, forustu eða fullkomnunar. Þennan metnað megum við ekki kæfa í velsældarríkinu, því að hann er hornsteinn velsældar þjóðarinnar.
Athafnasemi hefur einkennt þessa þjóð. Starfsgleði liggur að baki löngum vinnudegi, aukastarfi og frístundaiðju. Ásókn í peninga getur ekki ein útskýrt, hversu mikla áherzlu við leggjum á að nota tímann í stað þess að drepa hann.
Þessa athafnasemi megum við ekki sljóvga með því að koma á fót atvinnuleysi. Miklu fremur þurfum við að eyða hinu dulda atvinnuleysi, sem sums staðar kemur fram og ljósast í landbúnaði. Arðbær störf gera menn upprétta.
Útþrá hefur fylgt okkur frá upphafi Íslandsbyggðar. Sigldir menn eru að jafnaði víðsýnni en kolbítar, þótt sólarlandaferðir séu kannski ekki bezta dæmið til slíks samanburðar. Við þurfum að sía inn lærdóm frá umhverfi okkar.
Þessi útþrá og víðsýni gæti hamizt óþarflega mikið af tímabundnum erfiðleikum okkar við að halda uppi örum og snöggum samgöngum við umheiminn beggja vegna hafsins. Þar þurfum við að vera vel á verði, þótt kosti fórnir í bili.
Raunsæi hefur löngum keppt við hugarflug hér á landi og sennilega oftar haft betur. Í framtíðinni þurfum við enn frekar en áður að finna leiðarljós okkar í reynslu, fremur en í loftköstulum og kenningakerfum, nýjum sem gömlum.
Frelsisást er sögð hafa átt þátt í landnámi Íslands. Og hún veldur því einnig að við erum nú aftur orðin sjálfstæð þjóð, sem meira að segja hefur dálítinn aðgang að skákborði valda á norðanverðu Atlantshafi.
Þessa frelsisást hljótum við að telja upprunna í einstaklingunum og megum því ekki láta hana koðna niður í óhóflegri félagshyggju nútímans. Við megum ekki smíða rammana svo stífa, að ónógt svigrúm verði til frelsis.
Með því að óska ykkur jafnréttisstefnu, umburðarlyndis, metnaðar, athafnasemi, útþrár, raunsæis og frelsisástar er Dagblaðið að óskar ykkur farsæls nýs árs og farsæls nýs áratugar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið