Stundum er ástæða til að fagna, að ekki skuli allir ílendast í kennslu, heldur hafna í minniháttar störfum, sem hvorki raga til og frá, til dæmis þingmennsku. Með því móti ætti skaðinn að verða minni, svo sem dæmið sannar.
Kennari á alþingi hefur nýlega lagt fram þingsályktunartillögu um nýtingu kolmunna. Að verulegu leyti er greinargerð hans tilvitnun í aðra menn, sem kunna þolanlega íslenzku. Um 40 línur eru þó þingmannsins sjálfs.
Hann segir: “Þarf hér að vera um að ræða stóra hráefnisgeymslu”. “Jafnframt yrði um afurðageymslu að ræða”. “Verði um verulega nýtingu að ræða”. “Hér er um mikinn ónýttan auð að ræða”. “Hér er um milljarða að ræða”. “Hér er um brýnt þjóðhagslegt atriði að ræða”.
Í 40 línum hins fyrrverandi kennara rúmast fleira, sem íslenzkir blaðamenn þora ekki að segja á 40 síðum, svo að þeir verði ekki krossfestir í daglegu máli læks og lækjar í útvarpinu. En þeirra störf skipta líka nokkru máli.
“Tilheyrandi frystiþættinum” og “gagnvart ríkisvaldinu” blómstra í texta þingmannsins eins og “varðandi sókn í aðra fiskistofna” og “ákvörðun ráðherra þar um”, “sem tillagan lýtur að” og “sem þessi tillaga lýtur að”.
“Eins og markaðsmál standa í dag” og “þegar verðbætur eru í dag greiddar á fisktegundir”, þá má segja, að “kjörnasti staðurinn” fyrir kennara af þessu tagi sé einmitt í sölum alþingis. Þar eru þeir nógu langt frá börnunum.
Í hnotskurn mætti kannski segja: “Varðandi íslenzkuþátt Helga Seljan yrði að geta verið um kjörnustu leið gagnvart ríkisvaldinu að ræða til að lúta að menntakerfinu, þegar það stendur í dag, svo sem ráðherra hefur ákveðið þar um”.
Hrossakaup játuð.
Vakið hefur réttmæta athygli, að lítt reyndur þingmaður hefur í ógáti játað hrossakaup á alþingi við afgreiðslu nokkurra þingmála fyrir jólahlé. Hrossakaup eru algeng þar á bæ, en hingað til hafa menn skirrzt við að viðurkenna það.
Eggert Haukdal greiddi atkvæði með nýju vörugjaldi á sælgæti og tóbak, þótt hann væri því andvígur. Sagðist hann hafa gert það, af því að gjaldið hafi fengizt lækkað úr 10% í 7% og af því að leyst hefðu verið fleiri mál.
Við nánari eftirgrennslan missti þingmaðurinn út úr sér, að hann hefði jafnframt náð hálfum öðrum milljarði króna í Byggðasjóð Framkvæmdastofnunar, þar sem hann er formaður. Þessa játningu hentu menn auðvitað á lofti.
Síðan hefur þingmaðurinn reynt að draga í land með því að segja þetta tvö óskyld mál. Fremur er það dauflegt yfirklór eftir fyrri yfirlýsingar, þótt aðrir þingmenn hafi kannski ekki ráð á grjótkasti úr glerhúsi.
Almenningur þarf ekki að furða sig á, að ríkisgeirinn skuli stöðugt þenjast út og hossa verðbólgunni. Alþingi og ríkisstjórn geta ekki haldið fjárlögum í skefjum, þegar hugarfar hrossakaupanna ræður ferðinni, leynt og ljóst.
Einn þingmaður fær brú, annar skuttogara og hinn þriðji byggðafé. Síðan senda þeir almenningi reikninginn fyrir samanlagða spillingu sína. Þetta er gamalkunn verzlunarstefna á alþingi, sem nú hefur fengið gæðastimpil með játningu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið