Sumt er bezt, annað kleift.

Greinar

Í sjávarútveginum eru að mótast sættir milli þess, sem bezt væri að gera, og þess, sem talið er kleift að gera. Þetta nær yfir aflamagn helztu fiskitegunda og skiptingu þess, annars vegar á skipategundir og hins vegar á veiðitímabil.

Í hópi útvegsmanna hefur furðulega vel tekizt að sætta misjöfn sjónarmið bátamanna og togaramanna, fiskvinnslumanna og sjálfstæðra og meira að segja misjöfn landshlutasjónarmið. Þetta afrek hefur gert útvegsmenn að öflugum þrýstihópi.

Horfur eru á, að útvegsmenn fái því framgengt, að hér eftir verði árlega veidd 400 þúsund tonn af þorski í stað þess að auka aflann varlega upp úr 300 þúsund tonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Þetta þýðir, að þorskstofninn verður seinni en ella að ná eðlilegu hámarki, sem á að geta gefið 450 þúsund tonna afla á ári. Þetta þýðir, að menn fórna miklum framtíðarafla fyrir afla líðandi stundar, en fórna ekki framtíðinni sjálfri.

Með 400 þúsund tonna ársveiði á hrygningarstofninn að fara hægt vaxandi, ekki eins hratt og fiskifræðingar hafa lagt til. Þróunin er eigi að síður í rétta átt. Hin blönduðu skammtíma- og langtímasjónarmið útvegsmanna munu ráða.

Á svipaðan hátt er sennilegt, að ná megi tökum á loðnustofninum, áður en það verður um seinan. Meira verður veitt en fiskifræðingar vilja, en þó með nokkru tilliti til sjónarmiða þeirra, svo að alger brestur verður varla í stofninum.

Útvegsmenn telja, að fiskifræðingar hafi vanmetið loðnustofninn, en telja jafnframt sem betur fer þau ein ráð tiltæk, “að allt verði gert til að fylgzt verði með loðnustofninum og loðnurannsóknir stórauknar” með hliðsjón af þjóðarhag.

Hitt mega útvegsmenn hugleiða, að örlögin spyrja ekki um áttir. Telji þeir, að fiskifræðingar geti gróflega vanmetið fiskistofna, er jafn líklegt, að þeir geti gróflega ofmetið þá. Vanmatið á þorskstofninum var einstakt lán.

Aflamagnið er svo bara önnur hliðin á framleiðni sjávarútvegsins. Hin hliðin er tilkostnaðurinn, með hve mikilli eða lítilli fyrirhöfn næst sá afli, sem um er samkomulag að veiða. Þar er líka stefnt að meðallagslausnum.

Útvegsmenn og stjórnmálamenn hafa ekki viljað hlusta á kenningar um, að beiting markaðslögmála á borð við sölu veiðileyfa muni á virkastan og öruggastan hátt færa sóknina niður í samræmi við leyfilegt aflamagn.

Útvegsmenn á loðnu höfðu þann hátt á, að þeir báðu yfirvöld að skipta aflanum á hvert skip. Kvótakerfi þetta náði nokkrum árangri, takmarkaði kapphlaup skipstjóra, dró úr olíunotkun og sliti veiðarfæra og skipa.

Sumir eru lengi að fylla kvótann, aðrir fljótir. Við notkun markaðslögmála mundu hinir síðarnefndu einir veiða, með enn meiri sparnaði fyrirhafnar en kvótakerfið býður upp á. En oft er ekki aðstaða til að velja bezta kostinn.

Kvótakerfið gengur ekki eins langt í þorskveiðunum. Þar er heildaraflanum skipt nokkurn veginn jafnt milli báta og togara og síðan milli fjögurra mánaða veiðitímahila. En kvóti er ekki settur á einstök skip.

Í öllum þessum skiptingum er farið að óskum útvegsmanna. Aðgerðirnar auka framleiðni sjávarútvegsins, en auka hana ekki eins og hægt er. Alvarlegasta gatið er, að þær stefna ekki hið minnsta að minnkun allt of stórs flota.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið