Vaðalfjallaheiði

Frá Hríshóli í Geiradalshreppi um Vaðalfjallaheiði norður á Kollabúðaheiði sunnan við Miðheiðarvatn.

Förum frá Hríshóli til norðurs milli Hríshólsháls að vestanverðu og Þverár að austanverðu. Síðan til norðurs með Hríshólsfjalli að vestanverðu. Áfram norður milli Sauðadals að vestanverðu og Sandfells að austanverðu. Síðan norður að Músaá og með ánni að vestanverðu og einnig vestan við Músaárvatn. Áfram í óbreytta stefnu og komum á slóðina um Kollabúðaheiði sunnan við Miðheiðarvatn.

16,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Vaðalfjöll, Reykjanes, Hafrafell, Laxárdalsheiði, Kollabúðaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Úlfkelshöfði

Frá Þórormstungu í Vatnsdal að vegamótum á Helluvörðuhálsi norðan Friðmundarvatns.

Þórormstunga er sögufrægur staður. Þar bjó á landnámsöld Þórormur, fóstri Þorkels kröflu. Um miðja 19. öld bjó þar Jón Bjarnason hinn stjörnufróði, sem fylgdist með gangi himintungla og samdi dagatöl.

Förum frá Þórormstungu austsuðaustur Kárdal og á Vaglabungu. Síðan austsuðaustur um Vaglaháls og austur á Úlfkelshöfða í 440 metra hæð. Loks austur að vegamótum á Helluvörðuási.

14,2 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dalsbunga, Forsæludalur, Þverflár, Öldumóða, Friðmundarvatn, Forsæludalur, Gilsárvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Uxaskarð

Frá Þverárrétt í Dalsmynni um Uxaskarð að Nípá í Köldukinn.

Í Árbók FÍ 1992 segir: “Upp í Uxaskarð, frá Fnjóskadal, er nokkuð brött, gróin skriða. Fram í nær mitt skarðið gengur fjallsrani, skriðurunninn með fáein klettabelti í toppi. Klýfur hann skarðið í tvö grunn dalverpi. Gamla leiðin um Uxaskarð lá um nyrðri dalinn, en þar hvílir lítill jökull. Þrátt fyrir jökulinn og miklar fannir má yfirleitt komast með hesta um Uxaskarð seinni hluta sumars. Mjög gott útsýni er frá efsta hluta skarðsins … Frá Uxaskarði má velja leiðir til margra átta, til dæmis niður með Nípá í Köldukinn eða norður Austurdal og Kotadal til Náttfaravíkna og hefur sú leið verið farin á hestum.”

Förum frá Þverárrétt eftir jeppaslóð norður á Flateyjardalsheiði. Sunnan fjallaskálans Funa förum við af slóðinni austur yfir dalinn og síðan suðaustur á fjallið neðan við Uxaskarðsöxl. Förum upp með Ytri-Uxaskarðsá upp í Uxaskarð austnorðaustur í 1000 metra hæð . Þaðan austnorðaustur yfir skarðið og sunnan Austurdalsvatna niður með Nípá í Nípárdal. Áfram norðaustur að Nípá.

19,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall, Flateyjardalsheiði, Naustavík, Skjálfandi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Urriðavötn

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði um Urriðavötn til Hellu í Steingrímsfirði.

Förum frá Kaldrananesi fyrst vestur með þjóðvegi og síðan áfram til vesturs á brún Urriðaár, síðan til suðvesturs vestan Himbrimavatna, austan Urriðavatna um Björgin, um Miðmorgunshæð, að vegi 646 við Hellu.

10,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Seljavatn, Sandneshryggur, Pyttasundshæðir, Dimmudalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Urriðaá

Frá Selborgum á Mýrum meðfram Urriðaá til Kolviðarhóls á Mýrum.

Byrjum við þjóðveg 54 austan Selborga. Förum þverleið suðsuðvestur og niður með Urriðaá, að Smiðjuhól. Þaðan til vesturs fyrir norðan Seltjarnir. Síðan til suðsuðvesturs fyrir vestan Merartjörn og austan Eiríksstaðavatns. Um eyðibýlið Smiðjuhólsveggi norðan við Hólsvatn og síðan suður með Hólsvatni að austanverðu að vegi 533 við Kolviðarhól.

11,9 km
Snæfellsnes-Mýrar

Nálægar leiðir: Æðarvatn, Álftanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Urðir

Frá Gilhaga í Öxarfirði um Urðir á Öxarfjarðarheiði.

Förum frá Gilhaga norðaustur um Buga og Urðir, yfir þjóðveg 867 að eyðibýlinu Hrauntanga.

16,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Öxarfjarðarheiði, Djúpárbotnar, Rauðhólar.
Nálægar leiðir: Súlnafell, Biskupsás.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Upptyppingar

Frá vegamótum þjóðvegar 910 suðaustan við Fremri-Fjallshala yfir Jökulsá til Herðubreiðar og Öskju.

Jeppafær tengileið milli öræfanna vestan og austan Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Brú á Jökulsá sunnan Upptyppinga og á Kreppu í Krepputungu tengja saman öræfi norður- og austurlands. Tungan milli fljótanna er löng, 50-60 km, og mjó, 1-2 km þar sem hún er nyrzt. Upptyppingar eru móbergsfjöll í Ódáðahrauni vestan Krepputungu. Þeir eru tvítyppt fjallaþyrping og eru áberandi kennileiti. Jökulsá á Fjöllum rennur í sveig niður með þeim austanverðum.

Byrjum á þjóðvegi F910 suðaustan við Fremri-Fjallshala. Förum til vesturs á þjóðvegi F910, yfir Dyngjuháls, Kverkfjallaslóð og á brú yfir Kreppu. Suður Krepputungu til Kreppulóns. Síðan norðvestur á brú yfir Jökulsá við Upptyppinga og þaðan norðvestur að Herðubreiðartöglum.

41,0 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Dyngja: N65 09.236 W15 57.400.
Tungubúð: N65 03.623 W16 10.770.

Jeppafært
Athuga nýtt Holuhraun

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Brattifjallgarður, Miðgötumúli, Hvannalindir, Kverkfjöll, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Undirhlíðar

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Sörlastöðum í Hafnarfirði um Helgafell og Undirhlíðar að Fjallinu eina.

Förum frá Sörlastöðum suðaustur að Kaldárseli og áfram suðaustur að Búrfelli. Förum suðvestur með fjallinu vestanverðu og síðan beint áfram með Undirhlíðum austanverðum. Komum að þjóðvegi 42 norðan Kleifarvatns. Förum norðnorðaustur með veginum um skarðið og síðan norðvestur að Fjallinu eina.

8,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Vigdísarvellir.
Nálægar leiðir: Vatnsleysuströnd, Helgafell, Selvogsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Unadalsjökull

Frá Atlastöðum í Svarfaðardal um Unadalsjökul að Hofi hjá Hofsósi.

Svarfdælingar notuðu þessa leið til verzlunar á Hofsósi, styttri leið og fljótfarnari en til Akureyrar. Oft er farið með hesta þessa leið.

Förum frá Hofsósi eða Hofi fram og austur Unadal norðan Unadalsár. Síðan upp Geldingadal og upp Unadalsjökul að krossgötum á Kömbunum suðaustan undir Einstakafjalli í 930 metra hæð. Þaðan suðaustur og niður í Skallárdal að Atlastöðum.

26,2 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Hákambar, Hvarfdalsskarð, Heljardalsheiði, Sandskarðsleið, Kollugilsbrúnir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ullarvötn

Frá Miðgrund í Blönduhlíð um Djúpadal og Seljárdal að Hálfdánartungum í Norðurárdal.

Förum frá Miðgrund austur að bænum Djúpadal og þaðan austur í Djúpadal. Þar sem dalurinn klofnar, förum við suðaustur Akradal og síðan austnorðaustur dalinn. Þar sem dalurinn sveigir til suðurs, förum við beint austur upp úr honum um Ullarvötn á fjallið í 1020 metra hæð. Þar uppi sveigjum við til suðausturs í drög Seljárdals. Förum eftir þeim dal suðsuðaustur í Hörgárdal og síðan suðvestur Hörgárdal að Hálfdánartungum.

31,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Töfluskarð

Frá Kvíum í Lónafirði um Töfluskarð að Hafnarskarðsleið milli Veiðileysufjarðar og Hornvíkur.

Ómerkt leið.

Förum frá Kvíum norður Kvíadal og upp úr dalbotninum. Síðan áfram norður fjallið vestan undir fjallsbrúnunum og komum að leiðinni um Hafnarskarð rétt undir skarðinu. Sú leið liggur milli Veiðileysufjarðar og Hornvíkur.

12,1 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Lónafjörður, Kvíafjall, Hafnarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tvídægra

Frá Skeggjastöðum í Vesturárdal í Miðfirði til Þorvaldsstaða í Hvítársíðu.

Um Tvídægru segir Stefán Jónsson á Húki í árbók FÍ 1962: “Leiðin liggur inn með Vesturá og síðan inn með Lambá og þá suður yfir Sléttafell, um Skipthól vestan við Króksvatn, þá um Staðarhól, austan við Dofinsfjöll, yfir Lambatungur og á Selhæð á Þorvaldsstaðahálsi, og svo ofan að Þorvaldsstöðum.”

Í Heiðarvígasögu segir frá fyrri bardaga Barða og flokks hans við Borgfirðinga hjá Langavatni norðan undir Dofinsfjöllum og síðari bardaga þeirra hjá Krókavatni sunnan undir Sléttafelli. Sagan segir frá klækjum Barða, sem faldi liðsmenn sína, svo að Borgfirðingar töldu sér sigur vísan og riðu sem ákafast til sóknar. Hertækni Barða var hin sama og hjá Gengis Kahn. Um Tvídægru segir Þorvaldur Thoroddsen: “Hún er á sumrum einn með lökustu fjallvegum, því að þar er manni boðið upp á holurðir, fen, fúamóa með urð undir og aðrar svipaðar trakteringar, en villist menn út af götuslitrunum, verða fyrir manni ótræðisflóar, sem varla halda manni, hvað þá hesti.” Þessi lýsing á raunar við um Núpdælagötur eins og Tvídægru. Hugsanlegt er, að Kolbeinn ungi hafi riðið Tvídægru, þegar hann fór til Borgarfjarðar að Þórði kakala með 600 manna lið 27. nóvember 1242. Öskubyl gerði á flokkinn um nóttina og urðu nokkrir menn úti.

Förum frá Skeggjastöðum. Þetta er nánast bein lína norður-suður. Leiðin er ekki merkt á korti. Hún er svo lítið farin, að víða sést engin slóð og vörðubrot eru fá og fallin. Nyrsti hluti hennar, norðan Sléttafells, er stundum nefndur Húksheiði. Sunnan Króksvatns er fjallaskálinn Húksheiði. Tvídægra nær 400 metra hæð við Langavatn, sunnan Króksvatns. Mikið er af mýrum og smávötnum á leiðinni og getur hún orðið torfær í rigningatíð. Að vetrarlagi getur hún hins vegar verið skjótfarin á harðfenni. Þetta er stytzta leiðin milli byggða í Húnaþingi og Borgarfirði, ef Holtavörðuheiði er frátalin. Sennilega eru allir látnir, sem þekktu þessa leið.

46,9 km
Húnavatnssýsla, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Húksheiði: N64 56.760 W20 49.046.

Nálægir ferlar: Húnaþing, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Kjarardalur, Strúturinn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Tungumúli

Frá Flekkudal á Fellsströnd um Tungumúla að Galtardal á Fellsströnd.

Tengileið milli leiða um Flekkudal og Galtardal.

Förum frá Galtardal til austurs með Suðurdalsá upp úr botni Galtardals upp í skarðið norðaustan við Tungumúla. Sveigjum þar til suðsuðausturs utan í Tungumúla og vestan við Færugil og Seljamúla. Komum niður í Flekkudal.

5,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Flekkudalur, Galtardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Tunguheiði

Frá Örlygshöfn um Tunguheiði upp á Kóngshæðarleið.

Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Förum frá Tungu vestur Tungudal og norðvestur á Tunguheiði, í 330 metra hæð við vörðuna Digra-Eyjólf sunnan Hádegishæðar. Síðan til vesturs sunnan við Haugabrún. Þar komum við á Kóngshæðarleið, sem liggur milli Kollsvíkur og Keflavíkur.

6,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kóngshæð, Hafnarfjall, Hnjótsheiði, Mosdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Tungufellsdalur

Frá Tungufelli að línuvegi þvert yfir Hreppaafrétti.

Tungufellsdalur er víða skógi vaxinn.

Förum frá Tungufelli norðaustur um Kjalardal, norðnorðaustur um Stóraskóg og Hamarsholt, og loks norðaustur að línuvegi þvert yfir Hreppaafrétti.

9,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Svínárbotnar, Sandá, Grjótá, Grjótártunga, Gullfoss, Hrunamannahreppur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort