Uxaskarð

Frá Þverárrétt í Dalsmynni um Uxaskarð að Nípá í Köldukinn.

Í Árbók FÍ 1992 segir: “Upp í Uxaskarð, frá Fnjóskadal, er nokkuð brött, gróin skriða. Fram í nær mitt skarðið gengur fjallsrani, skriðurunninn með fáein klettabelti í toppi. Klýfur hann skarðið í tvö grunn dalverpi. Gamla leiðin um Uxaskarð lá um nyrðri dalinn, en þar hvílir lítill jökull. Þrátt fyrir jökulinn og miklar fannir má yfirleitt komast með hesta um Uxaskarð seinni hluta sumars. Mjög gott útsýni er frá efsta hluta skarðsins … Frá Uxaskarði má velja leiðir til margra átta, til dæmis niður með Nípá í Köldukinn eða norður Austurdal og Kotadal til Náttfaravíkna og hefur sú leið verið farin á hestum.”

Förum frá Þverárrétt eftir jeppaslóð norður á Flateyjardalsheiði. Sunnan fjallaskálans Funa förum við af slóðinni austur yfir dalinn og síðan suðaustur á fjallið neðan við Uxaskarðsöxl. Förum upp með Ytri-Uxaskarðsá upp í Uxaskarð austnorðaustur í 1000 metra hæð . Þaðan austnorðaustur yfir skarðið og sunnan Austurdalsvatna niður með Nípá í Nípárdal. Áfram norðaustur að Nípá.

19,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall, Flateyjardalsheiði, Naustavík, Skjálfandi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort