Veitingar

Tilfinningaleysi

Veitingar

Mánudaga er lokað hjá Friðriki V, svo ég hrökklaðist inn á Durum neðar við Laugaveg. Fiskur dagsins var frystur og ofsteiktur á ofsasteiktum lauk með steiktum kartöflubátum og jöklasalati. Var alls ekki bragðvont, en að öðru leyti tilfinningalaus matreiðsla. Sama er að segja um tæra grænmetissúpu. Fiskurinn kostaði 1690 krónur og súpan 790. Staðfestir enn einu sinni, að dænerar og aðrir skyndibitastaðir bjóða svipað verð í hádeginu og landsins beztu matarhús. Raunar er gömul hefð benzínstöðva að stæla Holtið í verði. Kostar semsagt ekki krónu aukalega að hafa smekk fyrir mat í Reykjavík.

Misvísandi meðmæli

Ferðir, Veitingar

Á heimasíðu TripAdvisor slærðu inn leitarorð, t.d. „Reykjavik hotels“. Svo velurðu „all“ og loks „hotels“ eða „B&B“ og sitthvað fleira. Þú færð upp lista í gæðaröð eftir meðmælum notenda í punktum og prósentum. Vægi nýrra meðmæla er þyngst, gömul meðmæli fjara út. Þetta er val notenda, lýðræði. Einnig er skráð „Travelers Choice“ eftir leyndum, ósannreynanlegum kvarða, ef nokkrum. Til dæmis er Hótel Keflavík með 79% vinsældum þar hærra en Hótel Berg í Keflavík með 98%. „Travelers Choice“ fer framhjá meðmælum notenda. Gerir óverðugum kleift að setja miða TripAdvisor við útidyr. Væri þolandi, héti það annað en „Travelers Choice“. TripAdvisor svarar engum fyrirspurnum. Ég fattaði, þegar lífsþreytt Frú Berglaug fékk miðann rétt fyrir andlátið.

Krydd á krydd ofan

Veitingar

Afmælisveizla mín í Austur-Indíafélaginu: Ég er veikari fyrir indverskum mat en öðrum kryddmat. Á því sviði ber þessi staður af öðrum eins og gull af eiri. Sá eini með ekta tandoori-leirofn. Raunar í flokki fimm beztu matstaða landsins. Fengum fyrst tandoori-grillaðan humar sterkkryddaðan með engifer og garam masala. Svo og lax í bananatrésblaði og sterkt krydleginn í blöndu af chili, kumin, kóríander, túrmerik og engifer. Í aðalrétt gamalt uppáhald, tandoori-grillaðan kjúkling með engifer, kumin, kardimommum og negul. Svo og tandoori-grillað lamb, sterkt kryddlegið í chironji, cashew, kumin og chili. Allt ofsasterkt og skemmtilegt. Vakti síðan hálfa nóttina, vel þess virði.

Varúð við ráðgjöf

Ferðir, Veitingar

Til að nota Michelin álit á veitingahúsum þarf að kunna á Michelin. Sama er að segja um uppsafnað TripAdvisor álit. Það getur verið misvísandi frá þínu eigin mati. Tökum Flórens sem dæmi. Samkvæmt vefsíðunni er meirihlutinn af toppstöðum borgarinnar skipaður ísbúðum, bakaríum, kjötbúðum, matarbúðum, vínbúðum og skyndibitastöðum. Svipað er að segja um Reykjavík, að vísu ekki eins gróft. Hér er kaffihús í 7. sæti matstaða, ísbúð í 10. sæti, bakarí í 14. sæti. Bæjarins bestu voru lengi nærri toppi. Í Istanbul skipa matstaðir túristahverfisins efstu sætin ofan við beztu matstaði viðskiptahverfanna.

Michelin margfaldar verð

Ferðir, Veitingar

Taka þarf meðmælum með varúð, hvort sem þær eru í bókum eða á vefsíðum. Álit Michelin á matarhúsum í Kaupmannahöfn er dæmi. Samanburður verðs sýnir mér, að 4000 krónur kostar að borða á þekktustu og beztu smurbrauðsstöðunum. Síðan tvöfaldast verðið upp í staði, sem fá Michelin-haus fyrir gott samræmi verðs og gæða. Aftur tvöfaldast verðið upp í einnar stjörnu staði. Og loks tvöfaldast verðið upp í tveggja stjörnu staði. Þar er verð komið upp í 32000 krónur á mann. Verðið mundi framreiknast í 64.000 krónur á þriggja stjörnu matstað. Gæðastimplar Michelin fela í sér ávísun á margfaldaðan verðmun.

Ellefu stjörnustaðir

Ferðir, Veitingar

Ellefu veitingahús í Kaupmannahöfn hafa Michelin. Tvær stjörnur hafa frægt Noma í sama pakkhúsi og íslenzka sendiráðið og Geranium við Fælledparken. Eina stjörnu hafa þessir: Einfaldur Kadeau við Wildersgade 10, gamaldags Kong Hans Kælder við Vingårdsstræde, ítalskur Era Ora við Overgaden under vandet, a.o.c. kjallari við Dronningens Tværgade, nýtízku Kokkeriet við Kronprinsessegade, tælenzkur Kiin Kiin við Guldbergsgade, formel B úr stáli+gleri við Vesterbrogade, flottur Grønbech & Churchill við Amaliegade, svo og einfaldur Relæ við Jægerborgsgade. Beztu smurbrauðsstaðir borgarinnar eru Amalie, Told&Snaps, Kanal Cafeen, Sankt Annæ og Slotskælderen hos Gitte Kik. Allir í miðborginni.

Kadeau hlífir veskinu

Ferðir, Veitingar

Sigurganga Noma í Kaupmannahöfn hefur leitt til fjölgunar veitingahúsa þar í borg, er einnig sigla undir merki Nýnorræna Eldhússins. Mestum árangri hefur náð einfalt og íburðarlítið Kadeau, sem leggur áherzlu á hráefni frá Borgundarhólmi. Nicolai Nørregård er yfirkokkur. Kadeau hefur eina Michelin stjörnu og er töluvert ódýrara en tveggja stjörnu Noma. Á þeim stað er bara einn matseðill með 20-30 smáréttum og kostar sem svarar 32.000 krónum íslenzkum. Á Kadeau kostar fjórréttað 14.000 krónur íslenzkar og áttréttað kostar 19.000 krónur. Stofan er í Christianshavn eins og Noma, en handan aðalgötunnar Torvegade, við Wildersgade 10. Lokað er á kvöldin um helgar og  lokað í hádeginu sunnudaga-fimmtudaga. Hægt að fá borð með litlum fyrirvara, sem er útilokað á Noma. Önnur eins veitingahús og þessi tvö finnast ekki í Reykjavík.

Hálfgert eitur hangikjöt

Punktar, Veitingar

Hangikjöt er hálfgert eitur fyrir marga af ýmsum ástæðum. Sumt fólk hefur kannski ofnæmi eða óþol. Sumpart getur vandinn stafað af viðbótarefnum, svo sem salti og saltpétri, geymslu- og litarefnum. Eða af einhverju öðru, hvað veit ég. Neytendur fá ekkert að vita um slíkt. Ekkert standur á umbúðunum, sem að gagni getur komið. Matvælastofnun sér um, að merkingar séu lélegar og eftirlit ekkert. Pólitísk fífl vilja það ekki heldur, tala niður eftirlit af öllu tagi. Kalla það eftirlitsiðnað. Eftirlitsstofnanir eru fjársveltar til að magna þekkingarskort fólks. Er ekki hægt að stemma stigu við því rugli?

Höfuðborg veitingahúsa

Ferðir, Veitingar

Í París er haugur veitingahúsa, sem eru betri en nokkurt á Íslandi. Verðið er því miður rosalegt, 30.000-50.000 krónur á mann á þriggja stjörnu stað. Skynsamlegt er að heimsækja slík í hádeginu, sum hafa ódýrari hádegisseðil. Á glæsilegum Grand Véfour er þá til dæmis þriggja rétta tilboð á 16.000 krónur, á Taillevent á 15.000 krónur og á Tour d’Argent á 13.000 krónur. Allt staðir í hjarta Parísar. Jafngóðan mat má fá á ýmsum litlum bistros í hjarta borgarinnar, til dæmis 2.700 krónur þríréttað á P’tit Trouquet. Fjöldi slíkra er í Michelin, merktir með Michelin-broskarl í stað stjarna.

Lof sé kaupsýslunni

Veitingar

Þótt kaupsýslumenn séu skammaðir, jafnvel taldir siðblindir, hafa þeir einn kost. Þeim er að þakka, að hvarvetna eru frábærir veitingastaðir. Bisness-lönsar hafa ætíð leitt þróun matargerðarlistar. Kaupsýslumenn hjá Michelin leiddu inn frægustu leiðsögubók veitinga. Við sjáum líka af TripAdvisor, að meira er að marka einkunnir í stórborgum viðskipta en í stórborgum túrisma. Einkunnir kaupsýslumanna eru marktækari en þær, sem reynslulitlir ferðamenn gefa. Bjáninn segir í stundarhrifningu „bezti matstaður borgarinnar“. Samt hefur hann bara komið á þrjú af hinum 10608 veitingahúsum í Istanbul.

Níu beztu í 101

Veitingar

Stundum er ég beðinn um meðmæli með matarhúsum í Reykjavík. Sendi þá lista yfir þau níu beztu í hverfi 101. Betri en veitingahúsin alls annars staðar á landinu. Læt fylgja með tillögu um, að fólk borði aðalmat í hádeginu, þegar verðið er hagstætt. Húsin níu eru þessi: SJÁVARGRILLIÐ við Skólavörðustíg 14, FRIÐRIK V við Laugaveg 60, FISKFÉLAGIÐ við Vesturgötu 2a, FISKMARKAÐURINN við Aðalstræti 12, HOLTIÐ við Bergstaðastræti 37, KOPAR við Geirsgötu 3, HÖFNIN við Geirsgötu 7c, AUSTURINDÍAFÉLAGIÐ við Hverfisgötu 56 og RUB23 við Aðalstræti 2. Byggist á eigin reynslu, líkist reynslu túrista á TripAdvisor. Sjá blogg mitt um veitingar.

Michelin er eftirbátur

Veitingar

Michelin hefur áratugum saman verið biblía matargerðarlistar. Íhaldssamar leiðsögubækur, sem hafa hangið í löngu úreltum reglum um tiltekinn lúxus, svo sem hvíta dúka og eins fermetra servéttur. Michelin leiðir ekki þróun, heldur kemur í humátt á eftir. Síðustu fjóra áratugi hefa Gault-Millau leitt þróunina. Leiðsögubækur fyrir Frakkland, Þýzkaland, Ítalíu, Alpalöndin og Benelux. Gault-Millau leiddu inn nýfranska stílinn fyrir 38 árum. Svo komu þeir inn með bandarísk áhrif fyrir tveimur áratugum. Fundu El Bulli 1996. Michelin fylgdi, sló loks í drógina 2010 og leiddi inn japansk-franska matreiðslu.

Gott matarverð í London

Ferðir, Veitingar

Leiðsögubækur Michelin eru mest gefnar fyrir flottan og dýran mat. Samt eru þær þó farnar að gefa prik fyrir hagstætt verð. Michelin-broskarlinn er fín viðbót við þær ágætu bækur. Í London eru um tuttugu matstaðir með úrvalsmat á lágu verði. Flestir eru í úthverfunum, en nokkrir eru niðri í bæ, í Soho og Covent Garden. Það eru OPERA TAVERN við 23 Catherine Street, GREAT QUEEN STREET, nr.32 við samnefnda götu, POLPO COVENT GARDEN við 6 Maiden Lane, TERROIRS við 5 William IV Street, GREEN MAN & FRENCH HORN við 54 St Martin’s Lane og KOYA við 49 Frith Street. Hádegismatur yfirleitt á 3000-4000 krónur.

Alvöruþáttur í sjónvarpi

Veitingar

Fari ég aftur til London, verður það til að heimsækja Gavroche, þar sem mér hefur liðið bezt á veitingahúsi. Hef komið þar tvisvar og þekki engan betri matstað. Því var mér sérstök ánægja að fylgjast með MasterChef á BBC2, þar sem kokkarnir á Gavroche voru dómarar, Michel Roux og Monica Galetti. Þetta var allt annar klassi en aðrir matreiðsluþættir, hef ég þó séð marga. Þarna blómstraði sú nýfranska, betri en tízkan frá El Bulli og Fat Duck, betri en bylgjan frá Noma, betri en hefðin frá Bocuse. Hráefnið í forgrunni, kryddið í baklandi, fegurð skyggði ekki á innihald. Þessa þætti vil ég eiga á diski.

Þrjú bistro á landinu?

Veitingar

Man í fljótu bragði bara eftir þremur bistro á Íslandi. Lítil veitingahús, þar sem karlinn er kokkur og konan stundum veitingastjóri. „Bistro“ er miklu nær hjarta kúnnans en stærri „brasserie“. þar sem þú sérð nýjan þjón í hvert skipti. Hef oft minnzt á FRIÐRIK V, dæmigert bistro í frönskum stíl. Þó með áherzlu á nýnorræna hefð og „beint frá bónda“. LAUGAÁS er franskt bistró og fiskhús með hefðbundinni matreiðslu. Hefur batnað síðustu árin og nálgast nýfrönsku með nákvæmni í eldunartíma. Þriðja góða bistroið þekki ég minna en skyldi: Fiskhúsið TILVERAN í fjarlægum Hafnarfirði reynist mér þó ætíð vel.