Veitingar

Engin innihaldstafla

Veitingar

Ætlaði í rælni að grípa „70%“ súkkulaði frá „Stefáni B“ Fattaði í tæka tíð, að innihaldslýsingin var ónothæf. Efnin talin upp í magnröð, en engin tafla um magn hvers efnis. Þannig var ekki sagt frá sykurhlutfalli pakkans. Slíkt væru þó upplýsingar fyrir marga kaupendur 70% súkkulaðis. En Stefán fylgir hefð íslenzkrar framleiðslu að veita sem minnstar upplýsingar. Minnir mig á Lúxusrækjuna, sem reyndist vera 33% vatn. Matvælastofnun gerir miklu minni kröfur en Evrópusambandið. Og lagasmiðir alþingis eru á mála bófaflokka. Má ég þá heldur biðja um franskan ost, ítalska skinku. Og belgískt súkkulaði.

Hráefnið og kryddið

Veitingar

Íslenzk matreiðsla og dönsk eru staðfærð matreiðsla frönsk. Sama er að segja um nýnorræna matreiðslu, hún er bara nýfrönsk. Með áherzlu á gæði, nálægan uppruna og bragð hráefna. Fiskur og kjöt, grænmeti og ávextir, það er málið. Þriðja heims matreiðsla byggist hins vegar á kryddi. Karrí og chili, hoisin og súrsæta, tanduri, kókos (…). Rétt eins og vestrænn skyndibiti er krydd, ketchup, sinnep, paprika, majones, oregon (…). Eða nautasósan bearnaise, sem nú er notuð á pylsur. Allt voru þetta leiðir til að leyna skemmdum í lélegum mat. Hafa samt sigrað unga fólkið. Franska eldhúsið er öllu þessu merkara.

Sprengihætta á Vox

Veitingar

Vox er skemmtilegur matstaður, fullur af glaðværu fólki í hlaðborði hádegis, skrifstofuhópum frekar en viðskiptafundum. Hlýtur að vera rosa bisness að reka staðinn, verðið fremur hátt, 4.900 krónur á mann. Tilkostnaður er líka mikill, svo telja má þetta sanngjarnt. Framboðið er ótrúlegt. Þú verður að fara varlega til að sprengja ekki upp í fjögra stafa kaloríutölur. Ég hef reynslu og forðast súpu og brauð, svo og volga rétti í hitakössum. Fæ mér fyrst tvö sushi og reyktan lax, síðan tvær purusneiðar með waldorf, loks ávexti og osta. Svona sprengiframboð matar er úrelt, en þó ótrúlega vinsælt.

Stóri kjúklingurinn

Veitingar

Kalkún fæ ég mér einu sinni á ári og niðurstaðan er alltaf hin sama. Þetta er stór kjúklingur. Oftast er hann matreiddur þurr, en með aðgát getur hann þó verið mjúkur. Þá er líka allt upp talið. Bragðlaus eins og kjúklingur og nákvæmlega eins ómerkur. Að þessu sinni var hann eldaður í plastpoka fullum af kryddi, sem bjargaði því, sem bjargað varð. Fylgir þakkargjörðardeginum svonefnda, sem áður þekktist ekki frekar en hrekkjavaka eða þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna. Róttækir pílagrímar mótmælendatrúar gerðu stóra kjúklinginn frægan í Bandaríkjunum. Svo kom hann hingað eins og önnur vestræn spilling.

Aldurinn og íhaldið

Veitingar

Fjögur atriði stjórna vali á matstað að svo miklu leyti sem fólk vandar sig. Sumir meta mest hagstætt verðlag. Aðrir líta mest um þjónustuna. Enn aðrir vilja láta gæla við sig í góðum mat. Loks eru þeir, er líta mest á umhverfi, andrúmsloft, stemningu. Þegar ég reyni að meta veitingahús, hef ég öll þessi atriði í huga. Þótt ég raunar hafi mestan áhuga á matreiðslu, eins og þeir þekkja, sem hafa fylgzt með skrifunum. Fyrri árin kaus ég að prófa sífellt nýja staði, kynnast einhverju nýju. En með aldrinum freistast ég til að fara aftur og aftur á sömu valinkunnu staðina. Með aldrinum ágerist íhald mitt.

Fiskfélagið toppar

Veitingar

Kokkarnir í Fiskfélaginu í Grófinni höfðu full tök á faginu á hádegi í gær. Karfinn var passlega pönnusteiktur. Meðlæti flókið, fjórfalt gulrótaþema, smáar gulrætur, rifnar gulrætur, gulrótafroða og gulrótasósa. Svo og tvenns konar kartöflur, pönnusteiktar og stappaðar. Heildarbragðið var ljúft og ég sleikti nánast restina af diskinum. Jafnvel espresso-kaffið var fínt, en sushi var í lausari kantinum. Fiskfélagið er með Sjávargrillinu og Friðriki V eitt matarhúsanna, sem ég hef mestar mætur á og sæki reglulega. Sjaldan verð ég þar fyrir vonbrigðum og staðurinn er nú betri en nokkru sinni fyrr.

Lítt spennandi matur

Veitingar

Hádegismaturinn var lélegur í Borðstofunni, kaffistað í Hannesarholti, húsi Hannesar Hafstein á horni Grundarstígs og Bjargarstígs. Fiskibaka var volg að utan, köld að innan. Steiktur hlýri hafði verið frosinn og var þurr og bragðlaus. Undir honum voru byggkorn, ekki mjúkur grautur að hætti risotto, heldur þurr byggmöl, líklega fyrir magasjúklinga. Mér sýndist hlýrinn kosta 2.400 krónur. Stofan dregur að menntakonur, en á lítið erindi í gastrónómíu. Hún er á neðri hæð. Á þeirri efri er vísir að safni Hannesar Hafstein með sjötugum mublum og þremur yfirlitsmyndum af Reykjavík nítjándu aldar.

Heildarbragð í jafnvægi

Veitingar

Fiskur dagsins er ætíð passlega eldaður í Sjávargrillinu. Oftast grillaður, sem hentar fiski. Fisktegundir breytast milli daga. Kryddið yfirgnæfir ekki að hætti þriðjaheimsstaða, heldur nær fiskbragðið í gegn að frönskum hætti. Fiskinum fylgir oftast léttgrillað rótargrænmeti og þessi fíni bygggrautur, sem minnir á ekta risotto. Froður voru fyrst þrjár, en eru nú bara ein, sem er mátulegt. Heildarbragð rétta er alltaf í jafnvægi. Eina veitingahús bæjarins, þar sem matreiðsla hefur aldrei brugðist mér. Hef ég þó komið hér á Skólavörðustíg þrjátíu sinnum. Bezti matstaðurinn, á pari með Friðriki V.

Bezti matur Miklagarðs

Ferðir, Veitingar

Buhara2

Kostar bara 2500 krónur að borða tvíréttað á Buhara við stóra markaðinn í gömlu Istanbul. Samt eru 444 notendur TripAdvisor sammála um, að sé bezta matstofa stórborgarinnar. Hæst einkunn af 10.512 stofum. Falin í sundi og stílar ekki upp á túrista. Snyrtilega gamaldags innréttuð með innsýni til eldhúss. Þjónar eru rosalega kurteisir að hætti Tyrkja. Fékk skógarsalat úr smásöxuðum tómötum, kryddjurtum og hnetum í bráðsterkum kryddlegi, frábært salat. Með fylgdi útblásið flatbrauð. Síðan lambahakk teingrillað í eldi, skemmtilega kryddað og borið fram á jógúrt. Eftir matinn kom svo sætabrauð.

 

Hirðmatreiðsla soldána

Ferðir, Veitingar

Tyrkir mikla fyrir sér hirðmatreiðslu soldánanna sálugu. Eins og Kínverjar lofa matreiðslu mandarína. Samt er ekki nema ein matreiðsla í heiminum, sem þolir samjöfnuð við franska matreiðslu. Það er sú japanska. Í Miklagarði eru rúmlega 10.000 veitingahús nefnd í TripAdvisor. Nóg er þar af góðum stöðum og margir bjóða hirðmatreiðslu ottómana. Mér finnst hún la-la, kryddlegið grænmeti í olíu, innbakstur í vínviðarlaufi, ofnmaukað kjöt í leirpotti, sykurhlaup í eftirrétt. Grillaður matur er þó góður, svo sem lambakjöt, betra en heima. Og hrásalöt geta verið fín. En eftirréttirnir eru dísætir.

Kjötvinnslan er röng

Veitingar

IMG_0070

Íslenzka lambakjötið er ekki bezt í heimi. Betra er lambakjöt landanna við Miðjarðarhafið, svo sem á Spáni, í Marokkó og Tyrklandi. Fékkst enn staðfest á Imbat og Aloran í Miklagarði í gær. Munurinn felst held ég í færibanda-hraðverkun sláturhúsanna á Íslandi. Hún gerir kjötið grautarlegt, einkum við ofeldun. Lækkun tilkostnaðar kemur niður á gæðunum. Enda öllu miðstýrt af stofnunum, sem halda utan um vinnslu búvöru. Ísland er aftarlega á merinni í flestri búvöru. Lífræn ræktun er til dæmis ekki teljandi, vegna andstöðu Bændasamtakanna. Þau hamast gegn vottun þriðja aðila, sem þau fá ekki stýrt.

 

Fiskur uppi í sveit

Veitingar

Góð veitingahús finnast utan 101. Langt uppi í sveit, í 104, er afskekktur Laugaás. Þar hefur Ragnar Guðmundsson staðið vaktina í 34 ár. Eitt fárra fiskhúsa landsins, þar sem hægt er að fá ýmsan fisk dagsins í hefðbundinni matreiðslu. Hin fiskhúsin eru Þrír Frakkar Úlfars Eysteinssonar, Tilveran í Hafnarfirði og tvær fiskbúðir. Í Laugaási fengum við í hádeginu hveitilausa Thai súpu með beikoni, bláskel úr Keflavík og indælis þorsk. Súpa og einn sex rétta dagsins kostaði 1800 krónur. Svo er Laugaás heimilislegt bistró. Ýmis matarhús, sem kenna sig við fisk, hafa bara einn fiskrétt dagsins.

Meðvirkni í ruslfæðinu

Veitingar

Jamie Oliver er ekki bara frábær kokkur, heldur hugsjónamaður um mataræði. Rekur áróður fyrir betri skólamat og gegn ruslfæði foreldra. “Hvað veit hann um fátækt fólk”, hneykslast hinir félagslega rétttrúuðu og meðvirku. Frægt var, er mömmur smygluðu hamborgurum í skóla, er Oliver hafði snúið til betri vegar. Fátæklingar vilja áfram fá að éta ruslfæði. Njóta stuðnings meðvirks rétttrúnaðar, sem segir Oliver hafa fordóma. Svo gengur hann lengra og segir brezka starfsmenn lata. Vill heldur ráða til starfa innflytjendur, sem ekki fljóti sofandi að feigðarósi. Hugsjónir takast á við rétttrúnað meðvirkra.

Kuskið í baksýnisspeglinum

Veitingar

Horfi í baksýnisspegilinn og sé, að ég hef skrifað oft fallega um veitingar á Íslandi. Þær eiga það skilið, endurspeglar metnað kokka og veitingamanna. Þeir standa vel undir árlegri fjölgun ferðamanna og eru landinu meira til sóma en flestir aðrir. Ekki er þó allt fullkomið. Alltof mikið salt er notað í matreiðslunni, stundum óbærilega mikið. Þetta er örugglega kennt í skóla. Of lítið framboð er af fiski dagsins. Matsölustaður kallar sig Fiskmarkaðinn og hefur samt engan fiskrétt dagsins á boðstólum, hámark ósvífninnar. Heiti eiga ekki að vera út í loftið, hvorki heiti matstaðanna né heiti réttanna.

Kopar í toppslagnum

Veitingar

Kopar er þrauthannaður matstaður í verbúðunum við Geirsgötu. Smart og minna ýktur en Grillmarkaðurinn og Fiskmarkaðurinn. Á efri hæð geturðu horft um spegil út á höfnina, þótt þú snúir vitlaust. Stíll yfir öllu, flott málverk af humri á múrsteinsvegg. Fiskur dagsins var þorskur, nákvæmt rétt eldaður eins og nú tíðkast. Kartöflustappan var skemmtilega gróf og stökk. Bragðið var príma, fremur salt eins og nú tíðkast. Rétturinn kostaði ekki nema 1.690 krónur, svo nú má Höfnin í næsta húsi fara að vara sig. Allt verð á Kopar er hóflegt. Skyndilega er hér kominn einn af fimm beztu matstöðum borgarinnar.