Tregaskarð

Frá Viðfjarðarvegi á Víkurheiði um Vöðlavík og Tregaskarð til Sandvíkur.

Mikið klungur og ógreiðfært efst í skarðinu. Stundum var farið aðeins austar, um Gerpisskarð, sem er hærra, um 700 metrar, en greiðfærara og fært hestum. En það er töluverður krókur. Í Vöðlavík strandaði Bergvík 18. desember 1993, en mannbjörg varð. Þremur vikum síðar, 10. janúar, strandaði björgunarskipið Goðinn við að reyna að ná Bergvík á flot. Þá fórst einn maður, en hinum var bjargað upp í þyrlu eftir níu klukkustundir í versta veðri.

Byrjum á Viðfjarðarvegi milli Reyðarfjarðar og Viðfjarðar. Förum jeppaslóð sunnan við Lönguhlíð. Hún liggur austur og niður í Vöðlavík um sæluhús á Karlsstöðum austur að Vöðlum í Vöðlavík. Þaðan förum við norður Tregadal í Tregaskarð í 600 metra hæð. Áfram norður úr skarðinu niður að Sandvíkurá og beygjum þar til norðausturs með ánni. Leiðin endar á Parti í Sandvík eða við sæluhúsið í Sandvík.

12,6 km
Austfirðir

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Karlsstaðir: N65 01.803 W13 40.354.
Sandvík: N65 05.350 W13 33.270.

Nálægar leiðir: Viðfjörður, Sandvíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins