Skaftafellssýslur

Endalausidalur

Frá Meðalfelli í Hornafirði að Efra-Firði í Lóni.

Endalausidalur er sérstætt nafn á mjög þröngum og mjög löngum þverdal milli Hornafjarðar og Lóns. Hliðardalur Endalausadals heitir Loklausidalur. Mikið má sjá af líparíti í dalnum og utan til í honum förum við yfir stærsta djúpbergshleif landsins úr eins konar graníti, ljósgráu og sums staðar rauðleitu. Milli Endalausadals og Slufrudals er Bleikitindur, stærsti graníthleifur á Íslandi.

Byrjum á þjóðvegi 1 í Hornafirði, við afleggjarann að Meðalfelli. Förum heimreiðina og síðan frá bænum eftir jeppaslóð upp í Laxárdal, sem gengur þar til norðurs. Austan dalsins er Bergárdalsheiði. Þegar henni sleppir, gengur dalverpi til austurs, milli Bergárdalsheiðar að sunnanverðu og Árnanesmúla að norðanverðu. Við förum yfir Laxá og inn þennan dal. Förum framhjá Loklausadal, sem kemur úr norðri, og förum suðaustur eftir Endalausadal, þar sem við náum fljótlega 340 metra hæð. Síðan hallar undan fæti. Við mynni dalsins komum við að Efra-Firði upp frá Papafirði í Lóni.

15,0 km
Austfirðir, Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Skógey, Vítisbrekkur, Hornsskriður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Eldvatn

Frá Hnausum við þjóðveg 204 meðfram Eldvatni að þjóðvegi 1 hjá Botnum.

Hjá eyðibýlinu Feðgum var fyrrum vað á Eldvatni.

Förum frá Hnausum norður að Eldvatni og síðan slóð til vesturs með ánni um eyðibýlið Feðga og svo norður með henni að Botnum. Þaðan er stutt norðvestur á þjóðveg 1.

20,6 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Kúðafljót.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Dalsheiði

Frá Hoffelli í Hornafirði um Dalsheiði að Strandarhálsi í Lóni.

Hoffellsdalur er flatur dalur með bröttum fjallstindum og djúpum giljum beggja vegna.

Förum frá Hoffelli inn Hoffellsdal og um reiðstíg norður Vatnshlíð að Hoffellsvatni, mest í 660 metra hæð, og síðan austur Hrossamýrar á Dalsheiði og austsuðaustur eftir heiðinni allt út að Strandarhálsi við þjóðveg 1 í Lóni. Einnig er hægt að fara út af heiðinni norður í Skyndidal eða suður í Laxárdal, sem fylgja sömu stefnu og heiðin.

29,5 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Reifsdalur, Illikambur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Brunavötn

Frá Jökulheimum við Vatnajökul að Miklafelli á Síðumannaafrétti.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa og hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Sunnan hans byrjar þessi leið, Brunavötn, sem endar við Miklafell á Síðumannaafrétti.

Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt, enda liggur sú leið betur við Gnúpum. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Hin forna Bárðargata liggur vafalaust meðfram Síðujökli einhvers staðar yfir Hverfisfljót og áfram niður í Fljótshverfi að Gnúpum / Núpum. Á landnámsöld er líklegt, að vatnaskil hafi þvingað meira af jökulvatni í Skaftá og minna hafi runnið í Hverfisfljót, sem þá hét Raftalækur. Við förum hins vegar ekki yfir Hverfisfljót, heldur fylgjum jeppaslóð frá fljótinu til suðurs um Brunavötn og Fremri-Eyrar að slóð, sem liggur frá fjallaskálanum í Miklafelli að Blæng. Við förum þá slóð suðaustur að vesturbrún Miklafells og síðan suður fyrir fellið að skálanum, sem er suðaustan undir fellinu í 410 metra hæð.

26,0 km
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Bárðargata

Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Landnámabók

Brunasandur

Hringleið um Brunasand.

Heitið er rangnefni, landið er að mestu gróið.

Förum frá Teygingalæk suður með Hverfisfljóti um Gljá niður að sjó. Þar er skipbrotsmannaskýli. Förum síðan vestur ströndina að Landbrotsvötnum. Norðvestur með þeim og síðan norður að Sléttabóli, þaðan norður í Hraunból og síðan með hraunjaðrinum vestur fyrir Orrustuhól að þjóðvegi 1.

39,9 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Fossfjara: N63 43.494 W17 40.157.

Nálægir ferlar: Miklafell.
Nálægar leiðir: Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Breiðbakur

Frá Fjallabaksleið nyrðri um Langasjó og Breiðbak í Jökulheima.

Ein stórfenglegasta eyðimerkurleið landsins framhjá fegursta stöðuvatni landsins og með einu víðfeðmasta útsýni landsins af tindi Breiðbaks.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla og Herðubreiðar í 620 metra hæð. Förum meðfram Skuggafjallakvísl og norðvestan við Ljónstind og Gjátind í Norðari-Ófæru og áfram vestan við Blautulón, sem eru undir fjallinu Gretti. Norðvestan við okkur er Grænifjallgarður. Við förum áfram milli hans og Hellnafjalls að suðaustan. Þar komum við að suðurendanum á Langasjó í 660 metra hæð. Við beygjum yfir skarðið til norðurs vestan við Hrútabjörg og förum þar eftir dalverpi til norðausturs. Í dalbotninum sækir slóðin á brattann upp að tindi Breiðbaks í 1020 metra hæð. Áfram förum við norðaustur og niður af fjallinu, þar sem við mætum aftur slóðinni sem liggur í fjörunni. Frá vegamótum liggur slóðin meira til norðurs niður úr fjöllunum í Botnaver. Þar rennur Tungnaá á kvíslum og heita þar fyrst Launfit og Fit. Handan árinnar komum við að fjallaskálanum í Jökulheimum í 670 metra hæð.

32,1 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Landmannaleið, Fjallabak nyrðra, Skælingar, Langisjór, Fljótsoddi, Hamarskriki, Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Faxasund, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Bárðargata

Frá Lundarbrekku í Bárðardal um Vonarskarð að Núpum í Fljótshverfi.

Leiðin er 250 km löng og liggur hæst í 1000 metrum. Nær yfir fimm stórár, Skjálfandafljót, Köldukvísl, Tungnaá, Skaftá og Hverfisfljót. Björn Gunnlaugsson fór um Vonarskarð 1839 og sýnir leiðina á korti sínu 1849. Hann fór ekki yfir Hverfisfljót. Hér er bara sá suðurendi táknaður með heitinu Bárðargata. Sjá nánar leiðirnar Réttartorfa, Öxnadalsdrög, Vonarskarð, Hamarskriki, Fljótsoddi.

Bárður Bjarnason nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Varð þess var, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni til að athuga þetta betur. Þeir fundu ýmsan gróður á leiðinni á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor að loknum undirbúningi lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi og byggði bæ að Gnúpum. Hét hann síðan Gnúpa-Bárður. Nú heitir jörðin Núpar.

Förum frá Lundarbrekku suður veg að Víðikerum og síðan heimreið suður að Stóru-Tungu. Svo suður slóð meðfram Skjálfandafljóti um fjallaskálann Réttartorfu og Hafursstaði. Upp á fjallið Víðskyggni, alltaf í suðurátt, þvert yfir Ódáðahraunsleið og áfram til suðurs vestan við Trölladyngju. Síðan þvert yfir Gæsavatnaleið við Fossgljúfur og áfram til suðurs milli Dvergöldu að austan og Langháls að vestan. Þar sveigir slóðin til suðvesturs austan undir Stakfelli og Rauðukúlu í Snapadal. Þaðan til suðurs yfir Köldukvísl og í sjálft Vonarskarð milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls. Þaðan fylgjum við vesturbrún Vatnajökuls um Mókolla í fjallaskálann Sylgjufell. Þaðan áfram slóðina suður í fjallaskálann Jökulheima. Síðan suður um Botnaver að norðausturenda Fögrufjalla við Langasjó. Sunnan fjallanna förum við yfir kvíslar Skaftár um Fljótsodda að upptökum Hverfisfljóts undir jökli. Að fornu var Hverfisfljót minna vatnsfall og hét þá Raftalækur. Förum síðan fyrir norðurenda Rauðhóla og síðan beint suður í Núpahraun á gangnamannaslóð, sem liggur suðaustur Núpaheiðina að Núpum í Fljótshverfi.

27,7 km
Skaftafellssýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Fljótsoddi, Hamarskriki, Vonarskarð, Öxnadalsdrög, Réttartorfa. Nálægar leiðir: Flosavegur, Núpahraun.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Íslendingabók

Álftaversleið

Frá Höfðabrekku í Mýrdal um Álftaversleið að Herjólfsstöðum í Álftaveri.

Leiðin er vörðuð að hluta, einkum austan til.

Lítið er um landslag á leiðinni, bara grár sandurinn, en í fjarlægð sést til fjalla. Ef eitthvað er að veðri, er þetta skyldureið, en ekki sportreið. Í sólskini og hita villa hillingar um fyrir fólki, sem heldur, að styttra sé í áfangastað en raun ber síðan vitni um. Þetta er alvöru eyðimörk. Álftaver var áður fjölmennari byggð, en Kötlugos hafa sneitt af sveitinni. Margar jarðir eru horfnar undir hraun. Álftavershólar veita byggðina samt nokkra vörn.

Förum frá Múlakvísl og fylgjum slóð norður í átt að Hafursey, unz við erum komin á móts við Núpakamb, þar sem leiðir lágu fyrri aldir út á Mýrdalssand. Þaðan förum við austur, lengst af norðan núverandi þjóðvegar, en sunnan við hann, þegar við nálgumst Álftaver. Leiðin liggur miðja vega milli Hafurseyjar og Hjörleifshöfða, um Háöldukvísl og Blautukvísl, síðan um Dýralækjarsker á miðjum sandi og Herjólfsstaðabót og loks yfir Kælira og Hrafnasker. Komum til byggða í Álftaveri hjá Herjólfsstöðum.

20,4 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Skaftártunguleið, Mýrdalssandur, Kúðafljót.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Austursandur

Frá Litla-Horni í Hornafirði um Austursand að innsiglingunni í Hornafjörð.

Förum frá Litla-Horni suður á Austursand og síðan vestur eftir honum endilöngum út að neyðarskýlinu við Hornafjarðarós.

9,9 km
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hornsskriður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Arnarstakksheiði

Frá Selsmýri norðan Reynisfjalls að Kerlingardal.

Arnarstakksheiði er að baki Víkur í Mýrdal. Hún var þjóðleið að fornu, því að þá gekk sjór upp að Víkurhömrum og Fagradalshömrum, svo að ófært var, þar sem nú er bílvegurinn.

“Galdra-Héðinn fór upp á Arnarstakksheiði og efldi þar blót mikið. Þá er Þangbrandur reið austan, þá brast í sundur jörðin undir hesti hans, en hann hljóp af hestinum og komst upp á bakkann, en jörðin svalg hestinn með öllum reiðingi.”
Arnarstakksheiði kemur mikið við sögu í Njálu. Vestan Kerlingardalsár komu Kári Sölmundarson og Þorgeir skorargeir af Arnarstakksheiði, börðust við Sigfússonu og aðra brennumenn nálægt eyðibýlinu Bólstað og höfðu sigur.

Byrjum við þjóðveg 1 í Selsmýri norðan Reynisfjalls og Víkur í Mýrdal, í 120 metra hæð. Förum þar sunnan við fjallið Arnarstakk upp gilið Götuskál upp í 280 metra hæð og síðan austur eftir heiðinni sunnan og ofan við Heiðarvatn. Förum sunnan við Kennarafell og norðan við Höttu og síðan niður Uppferðartorfu, sem er vestan við eyðibýlið Bólstað í Kerlingardal. Skammst austan við Bólstað er þjóðvegur 214 til Kerlingardals í 20 metra hæð.

7,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðarvatn, Heiðardalsvegur, Mýrdalssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins