Flosavegur

Flosi Þórðarson fór frá Svínafelli í Öræfum að Njáli á Bergþórshvoli í Landeyjum.

Hér er lýst leiðinni frá Svínafelli að Torfastöðum í Fljótshlíð.

Í Chorographica Islandica í byrjun 18. aldar segir Árni Magnússon: “Flosavegur upp úr Þórmörk liggur milli Eyjafjallajökuls og Tindafjallajökuls. Mér er sagt, hann sé ennú við lýði, en sé vondur og erfiður.” Nú á tímum er leiðin einnig farin, en þykir ströng. Í Njáls sögu segir, að Flosi og menn hans lögðu af stað frá Svínafelli að morgni sunnudags og voru komnir á Þríhyrningshálsa fyrir klukkan níu á mánudagskvöldi. Fyrst riðu þeir Skeiðarársand og Núpsvötn hjá Lómagnúpi. Svo að Kirkjubæjarklaustri. Þar fóru þeir til kirkju. Síðan riðu þeir á fjall til Fiskivatna og þaðan vestur yfir Mælifellssand. Svo niður í Goðaland og yfir Markarfljót á vaði. Hver þeirra var með tvo til reiðar. Þeir voru einn og hálfan sólarhring að fara 163 kílómetra leið.

Byrjum á Svínafelli og förum vestur yfir Skeiðará, Gígjukvísl og Núpsvötn að Lómagnúpi. Síðan vestur Fljótshverfi, yfir Hverfisfljót og vestur Síðu að Kirkjubæjarklaustri. Þaðan vestur með fjallinu að Hunkubökkum og Holti, síðan upp Holtsdal og vestur að Skaftárdal. Þar yfir Skaftá og vestur um Skaftártungur. Yfir Hólmsá og upp með henni að Brytalækjum. Þaðan suður fyrir Mælifell og síðan vestur Mælifellssand, framhjá afleggjara að Hvanngili. Vestur jeppaslóðina að Hattafelli og suður þar vestan við Stórkonufell og Litla-Mosfell að Mýrdalsjökli. Þar er farið yfir Neðri-Emstruá og síðan vestur Emstruleið að Markarfljóti og áfram suðvestur með fljótinu að Húsadal í Þórsmörk. Kaflinn frá Litla-Mosfelli í Húsadal er mjög erfiður. Einhvers staðar þar er Goðaland, sem sagt er frá í Njálu. Frá Húsadal er farið á vaði yfir Markarfljót og síðan vestur Fljótshlíð að Torfastöðum í Fljótshlíð. Norðan Torfastaða eru Þríhyrningshálsar undir Þríhyrningi, þar sem Flosi og menn hans hvíldu sig.

156 km
Skaftafellssýslur, Rangárvallasýs la

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Miklafell, Hólaskjól, Öldufell, Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Skaftafell, Núpsstaðaskógur, Brunasandur, Holtsdalur, Hólmsá, Goðaland, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Njála