Rangárvallasýsla

Nautavað

Frá Þjórsárholti um Nautavað í Fjártanga sunnan Þjórsár.

Enginn fer yfir Nautavað án leiðsagnar Árna Ísleifssonar í Þjórsárholti. Vaðið er stórgrýtt og varasamt að norðanverðu, en hvergi óþægilega djúpt. Syðri hluti vaðsins er auðriðinn. Árni Ísleifsson bóndi í Þjórsárholti, segir: “Nautavað í Þjórsá er alltaf eins, ein helzta samgönguæð Suðurlands frá fornu fari. Það er breitt og með góðum botni, nema vestast, þar sem það er dálítið grýtt.” Sagan segir, að strokunaut frá Páli Jónssyni, biskupi í Skálholti við upphaf Sturlungaaldar, hafi fundið vaðið. Frægt er, að Gottsveinn Jónsson óð vaðið á nítjándu öld í bónorðsferð til Kristínar í Steinsholti. Setti hann grjót í vasana til að fljóta ekki upp.

Förum frá Þjórsárholti suður og niður á Vaðvöll, suður yfir Þjórsá, þar sem hún er breiðust, um Vaðeyri og Vindáshólma, og tökum land í Fjártanga sunnan Þjórsár.

1,8 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hagavað, Þjórsárholt, Vaðvöllur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mælifellssandur

Frá skálanum í Hólaskjóli að skálanum í Hvanngili.

Þetta er greiðfær leið og hestar spretta oft úr spori, þegar þeir finna, að gróðurinn í Hvanngili nálgast. Flosi Ólafsson leikari taldi þetta mesta skeiðvöll landsins. Mýrdalsjökull gnæfir yfir suðurbrún sandsins og Torfajökull yfir norðurbrún hans. Stök fjöll á sandinum eru áberandi, mest Mælifell, sem sandurinn er kenndur við. Þetta hefur allar aldir verið þjóðleið milli Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Hún var fljótar farin en leiðin á ströndinni, þar sem oftar þurfti að vaða jökulár. Hér fór Flosi Þórðarson með liði sínu í aðför að Njáli á Bergþórshvoli. Áður en verzlun var sett upp í Vík í Mýrdal var farið hér um með alla aðdrætti frá Eyrarbakka og Reykjavík.

Förum frá skálanum í Hólaskjóli í 320 metra hæð og norður Lambaskarðshóla með Fjallabaksleið. Beygjum til vesturs og síðan út af veginum til suðurs eftir reiðslóð um þröngt gil. Förum vestur gilið inn í Álftavatnakrók og síðan suður að Álftavötnum. Þar komum við á Syðri-Fjallabaksleið og fylgjum henni. Fyrst suður í Álftavatnakrók og síðan suður um hæðirnar austan og sunnan Svartahnjúks, komum þar í 600 metra hæð. Slóðin beygir til vesturs niður úr hálsunum, síðan suðvestur sandinn suður fyrir Mælifell og síðan til vesturs um Brennivínskvísl, sunnan við Slysaöldu, í 600 metra hæð, og þaðan beint vestur að vaði á Kaldaklofskvísl. Frá því förum við norður með Hvanngilshausum að vestanverðu inn að skálunum í Hvanngili, í 570 metra hæð.

46,7 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Skælingar, Hólaskjól, Ljótarstaðaheiði, Öldufell, Laufafell, Krókur, Mosar.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá, Strútslaug.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mosar

Frá Kaldaklofskvísl við Hvanngil um Mosa í Bólstað við Einhyrning.

Jeppaleið milli Hvanngils og Einhyrnings. Hestamenn og göngumenn fara frekar um Krók og síðan vestan Einhyrnings í Bólstað.

Byrjum við vaðið á Kaldaklofskvísl sunnan við Hvanngil. Förum vestsuðvestur fyrir sunnan Stórusúlu og Súluhryggi og fyrir norðan Smáfjallarana og Stórkonufell. Áfram vestsuðvestur fyrir norðurenda Útigönguhöfða og Hattafell. Framhjá fjallaskálanum í Hattafelli að fjallaskálanum í Mosum við Markarfljót. Þaðan suður yfir Markarfljótsbrú og áfram eftir jeppavegi suður á milli Einhyrnings að vestan og Einhyrningsaxlar að austan. Suður og niður brekkurnar í Stóraland og síðan suðvestur að fjallaskálanum Bólstað sunnan við Einhyrning.

20,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.
Hattafellsgil: N63 47.581 W19 22.597.
Mosar: N63 47.040 W19 25.530.
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Laufafell, Krókur, Mælifellssandur, Reiðskarð, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miðskálaheiði

Frá mótum þjóðvegar 249 og námuvegar um Miðskálaheiði að Skálakoti undir Eyjafjöllum.

Varð ófær sumarið 2010 vegna eldgoss í Eyjafjallajökli.

Byrjum við mót þjóðvegar 249 og námuvegar norðan við Seljalandsfoss. Förum námuveginn austur á Hamragarðaheiði og síðan austsuðaustur um Bláfell og inn á Miðskálaheiði. Þaðan suður Ásólfsskálaheiði að Skálakoti.

19,6 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Holtsós, Eyjafjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðleið

Frá Galtabóli sunnan Bleiksmýrardals að Háölduleið vestan Nýjadals.

Hér kölluð Miðleið til aðgreiningar frá vestari leið um Sprengisand norðan frá Laugafelli og austari leið norðan úr Bárðardal. Þessi leið er í beinu framhaldi af leið norðan úr Bleiksmýrardal. Fjórðungsvatn er stærsta vatn á Sprengisandi, fimm kílómetrar að lengd, í 760 metra hæð.

Byrjum á krossgötum vestan Galtabóls. Við förum jeppaslóð suður Sprengisand að Fjórðungsvatni, þar sem við komum á höfuðleiðina yfir Sprengisand sunnan úr Nýjadal. Hún liggur norður að suðurenda Fjórðungsvatns. En við förum til suðvesturs frá vesturhlið Fjórðungsvatns eftir jeppaslóð austan og sunnan Vegamótavatns að leiðinni um Háöldur. Sú leið liggur milli Laugafells í norðri og Háumýra í suðri.

27,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Galtaból: N65 01.654 W18 03.243.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Háöldur.
Nálægar leiðir: Hólafjall, Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Litlisjór

Frá Jökulheimaleið í Veiðivötnum um Litlasjó á Grænavatnsleið.

Á nat.is segir svo um Litlasjó: “Þetta stóra vatn var fisklaust frá náttúrunnar hendi og mikil ætisframleiðsla þess nýttist ekki fyrr en urriðaklak var sett í það upp úr 1965. Talið var að urriðinn yrði sjálfbær og klaki var ekki haldið við. Svo fór að fiskurinn óx úr sér og dó út. Þegar það varð ljóst, voru reglulegar sleppingar seiða hafnar og nú vaxa þar upp reglulegir árgangar. Hegðun fisksins í vatninu er sérkennileg fyrir það, að hann heldur sig í torfum á stöðli nærri þeim stað, sem honum var sleppt. Veiðimenn hafa lært að ganga að honum þar og veiða með botnlegubeitu eða spún. Veiðiböðlar hafa notað bílljós til að moka þessum fiski upp úr stöðlum með spúnum í myrkri síðsumars við lok veiðitímans. Á tökutíma syndir fiskurinn nokkuð meðfram ströndum í ætisleit og veiðist gjarnan við áveðursbakka.

Byrjum á Jökulheimaleið í Veiðivötnum vestan Hraunvatna. Förum suður að Litlasjó og meðfram honum að vestanverðu. Síðan um Gjána að Grænavatnsleið á Miðmorgunsöldu.

9,9 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Grænavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Laugavegurinn

Frá Landmannalaugum um Hrafninnusker, Álftavatn og Emstrur til Þórsmerkur.

Þetta er ekki gömul þjóðleið, heldur sportleið, sem er eingöngu fyrir göngufólk. Þúsundir fara hér á hverju sumri og keppni er í langhlaupi á hverju sumri. Oftast skiptir fólk leiðinni í fjóra hluta milli fjallaskála Ferðafélags Íslands: Landmannalaugar-Hrafntinnusker, Hrafntinnusker-Álftavatn, Álftavatn-Emstrur og Emstrur-Þórsmörk.

Brennisteinsalda er eitt litskrúðgasta fjall landsins með mörgum hverum. Á vef

Ferðafélags Íslands segir svo um Laugaveginn: “Laugavegurinn er einhver fjölfarnasta og vinsælasta gönguleið um íslensk öræfi. Hróður hennar hefur borist víða, því það eru ekki síður erlendir en íslenskir ferðamenn sem ganga Laugaveginn ár hvert. Þetta er ekki að ástæðulausu því óvíða er jafn mikil fjölbreytni í landslaginu, fjöll í næstum öllum regnbogans litum, háir jöklar, öskrandi hverir, stórfljót, stöðuvötn og margt fleira.”

Förum frá Landmannalaugum vestur að Brennisteinsöldu og síðan suður með henni austanverðri og suður fyrir ölduna. Suðsuðvestur að Stórahver og síðan suður að fjallaskálanum í Hrafntinnuskeri suðvestan við Söðul. Til suðurs vestan við Reykjafjöll og vestan við Háskerðing og þaðan suðvestur að fjallaskálanum við Álftavatn. Næst liggur leiðin með jeppavegi F210 suðsuðaustur að skálanum í Hvanngili. Áfram fylgjum við jeppaveginum suður frá Hvanngili og um göngubrú á Kaldaklofskvísl. Á vegamótunum beygjum við til vestsuðvesturs með jeppaveginum F261, vöðum Bláfjallakvísl og förum á brú yfir Innri-Emstruá. Þar beygjum við frá jeppaveginum og höldum suðvestur með austurhlið Útigönguhöfða og áfram fyrir sunnan Hattfell og norðan við Tvíböku og Tudda. Beygjum til suðurs fyrir Botna að fjallaskálanum í Emstrum. Þaðan förum við suðaustur að göngubrú yfir Fremri-Emstruá og síðan vestur með ánni að Markarfljóti. Áfram suðvestur meðfram Markarfljóti um Slyppugil og Bjórgil í Almenningum. Síðan um Fauskatorfur og yfir Ljósá og Þröngá í Hamraskóga og í Húsadal. Þaðan suður um skógarhlíðar að fjallaskálanum í Langadal.

50,8 km
Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Landmannalaugar: N63 59.412 W19 03.656.
Hrafntinnusker: N63 56.014 W19 10.109.
Emstrur: N63 45.961 W19 22.427.
Skagfjörðsskáli: N63 41.086 W19 30.762.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Laufafell

Frá Hungurfiti um Laufafell til Hvanngils á Fjallabaksleið syðri.

Laufafell er stakt og virðulegt ríólít-fjall á þessari leið. Farið er yfir Markarfljót á auðveldu vaði um malareyrar á Launfitarsandi. Leiðin um Álftavatn til Hvanngils er síðan fjölbreytt í ótal krókum og hæðum.

Förum frá Hungurfiti í 620 metra hæð vestur frá skálanum um Hungurskarð sunnan við Skyggni og beygjum til norðurs með Skyggni. Þar komum við inn á Fjallabaksleið syðri. Fylgjum þeirri leið til norðausturs um Rangárbotna og Laufahraun. Grasleysufjöll eru norðvestan botnanna og Skyggnishlíðar suðvestan þeirra. Þegar við komum að Laufafelli, tökum við slóðina, sem fer til austurs. Þar komum við í 700 metra hæð. Við förum um skarð milli Laufafells og Hagafells og förum yfir Markarfljót á eyrum á Launfitarsandi. Síðan förum við um Sátubotna og gegnum Álftaskarð á Torfatindum. Þar komum við að Álftavatni, þar sem er fjallaskáli. Við förum áfram suður yfir Brattháls og Tunnuöldu að fjallaskálanum í Hvanngili í 570 metra hæð.

36,4 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hungurfit: N63 50.530 W19 32.850.
Álftavatn : N63 51.441 W19 13.616
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hungurfit, Grasleysufjöll, Reiðskarð, Krókur, Mosar, Mælifellssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Langisjór

Frá Jökulheimum við Vatnajökul meðfram norðurhlið Langasjávar að fjallaskála við suðurenda vatnsins.

Við förum að mestu eftir jeppaslóðum. Ein fegursta leið landsins, Fögrufjöll speglast í vatninu. “Langisjór, stærsta blátæra fjallavatn landsins, liggur mitt í ósnortnu víðerni í djúpum dal milli móbergshryggjanna Tungnaárfjalla og Fögrufjalla. Þar er einn fegursti staður landsins, að formum og litbrigðum, víðáttu, og andstæðum. Þráðbeinir hryggir rísa brattir upp af vatnsfleti sem skilur að nær gróðurlausa svarta sanda Tungnaárfjalla og víðlenda skærgræna mosaþembu Fögrufjalla með strjálum hálendisgróðri. Í norðaustri rís hvítur Vatnajökull. Breiðbak ber hæst í Tungnaárfjöllum og við suðurenda Langasjávar móbergshnjúkinn Sveinstind …” (www.natturukortid.is)

Förum frá fjallaskálanum í Jökulheimu í 670 metra hæð. Förum suður yfir kvíslar Tungnaár, um Botnaver, um Launfit og Fit suður yfir fjöllin norðaustan Breiðbaks. Förum síðan af þeirri leið eftir jeppaslóð til austurs og síðan suðurs að norðurendanum á Langasjó. Þaðan fylgjum við fjörunni að norðanverðu til suðvesturs, undir fjallinu Breiðbaki og andspænis Fögrufjöllum handan vatnsins. Við förum fyrir suðurenda vatnsins og komum þar á jeppaslóð, sem liggur austur fyrir höfða við vatnsendann og síðan út á nes, þar sem er fjallaskálinn Langisjór í 670 metra hæð.

38,9 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.

Nálægir ferlar: Breiðbakur, Jökulheimar, Hamarskriki, Fljótsoddi.
Nálægar leiðir: Faxasund, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Landmannaleið

Frá Landmannahelli að Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

Hluti leiðar, sem ýmist er kölluð Landmannaleið eða Fjallabaksleið nyrðri. Þetta er ein allra glæsilegasta reiðleið landsins, litskrúðugasta og fjölbreyttasta. Liggur í ótal sveigjum milli brattra einstæðingsfjalla. Stóru perlurnar á leiðinni eru Landmannalaugar, Kirkjufell og Eldgjá. Eini galli leiðarinnar er, að hún er um leið fjölfarinn sumarvegur vélknúinna farartækja. Engin leið er að víkjast undan bílveginum nema á köflum hér og þar. Svipaða sögu er að segja af leiðinni sunnan Torfajökuls, sem kölluð er Fjallabaksleið syðri. Ferð um þetta svæði verður ekki sama tímalausa tilvistin og hestamenn þekkja frá öðrum reiðslóðum. En hvergi er útsýnið stórfenglegra en einmitt hér.

Förum frá Landmannahelli í 600 metra hæð og með jeppavegi alla leið í Hólaskjól. Mestur hluti leiðarinnar er í um 600 metra hæð. Að mestu er veginum fylgt en sums staðar sneidd horn af leiðinni. Hestagöturnar eru greinilegar. Við förum austur fyrir Löngusátu, suður að Mógilshöfðum og síðan vestur með þeim um Dómadal að norðanverðu Frostastaðavatni. Förum austur fyrir það og yfir hálsinn að afleggjara að Landmannalaugum. Við höldum hins vegar beint austur yfir brúna á Jökulgilskvísl og síðan suður og aftur austur Kýlinga að Kirkjufelli, norður fyrir það og síðan fyrir norðan Halldórsfell. Þar sveigir leiðin til norðausturs að Grænafjalli og síðan til suðausturs sunnan við Skuggafjöll. Þaðan áfram til suðausturs um Jökuldali milli Herðubreiðar að norðan og Vinstrasnóks að sunnan. Komumst á Herðubreiðarhálsi í nærri 700 metra hæð og höfum þaðan útsýni yfir Eldgjá og Lakagíga. Förum síðan langa brekku niður í Eldgjá, yfir Neðri-Ófæru og síðan áfram suður að Lambaskarðshólum, sveigjum til austurs og loks til suðurs að skálanum í Hólaskjóli í 340 metra hæð.

54,9 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Landmannahellir : N64 03.195 W19 13.977.
Landmannalaugar : N63 59.412 W19 03.656.
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Sauðleysur, Krakatindur, Reykjadalir, Breiðbakur, Skælingar, Hólaskjól, Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Glaðheimar, Faxasund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Krókur

Frá Hvanngili á Syðri-Fjallabaksleið til Bólstaðar undir Einhyrningi í Fljótshlíð.

Áður var farin styttri leið úr Hvanngili, sunnan við Brattháls, um Klámbrekkur og meðfram Torfahlaupi. Sú leið er heimil, enda er hún gömul þjóðleið. En landverðir vilja heldur, að farin sé leiðin um Álftavatn, sem hér er lýst, enda er hún greiðfærari. “Hér þarf að setja upp ísbúð”, sagði Þráinn Bertelsson, þegar við fengum okkur síðdegishvíld í grösugum Króki langt frá bílvegum, meðan hestarnir sváfu í hitanum. Þar eru krossgötur leiða úr Fljótshlíð, af Rangárvöllum, úr Hvanngili. Landslag er stórbrotið, stakar strýtur með grænum mosahlíðum og gróið land, öfugt við eyðimerkur Heklusvæðisins og Mælifellssands. Stóra-Grænafjall og Hattfell eru áberandi í þessum flokki. Skemmtileg er leiðin um þröngan árfarveg Þverár. Allt svæðið milli Tindfjallajökuls og Torfajökuls er eins og tröll hafi kastað fjöllum í belg og biðu um víðan völl. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð, nema milli Hvanngils og Álftavatns.

Förum frá Hvanngili í 570 metra hæð með jeppavegi til norðvesturs og norðurs um Tunnuöldu að Álftavatni. Við norðurenda vatnsins beygt af slóðinni og farið með vesturfjöru vatnsins suðvestur með Torfatindum og síðan vestur í Torfafit og að Tvíeggjum. Þaðan er sveigt til suðvesturs undir hálsinum niður að góðu vaði á Markarfljóti í Króki. Þar er skáli. Við förum slóð til suðurs um Þverárbotna og síðan með austurhlið Lifrarfjalla að Markarfljóti, þar sem er brú á ánni og fjallaskálinn Mosar handan brúarinnar. Við förum hins vegar suður á heiðina og síðan milli Kerhnúka í vestri og Einhyrningsaxlar í austri og áfram fyrir norðan Einhyrning og síðan fyrir vestan hann og niður brekku að skálanum Bólstað, í 280 metra hæð.

32,7 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578
Álftavatn : N63 51.441 W19 13.616.
Krókur: N63 49.940 W19 24.230.
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.

Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Mosar, Laufafell, Reiðskarð, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Krakatindur

Frá Landmannahelli um Rauðufossafjöll og Krakatind að Fossi á Rangárvöllum.

Löng leið um stórbrotið landslag og Heklu í bakgrunni. Mikilfenglegastur er snarbrattur Krakatindur með hvassri egg þétt við slóðina. Leiðin liggur með jaðri úfinna Hekluhrauna. Farið er eftir greiðfærri jeppaslóð. Gætið þess sunnan við Sléttafell að taka hægri slóðina, sú vinstri liggur að Laufafelli og Markarfljóti. Sú er mun lengri. Hraun, melar og sandar einkenna mestalla leiðina, en síðasti kaflinn er þó gróinn, frá Hafrafelli meðfram Eystri-Rangá að leiðarenda. Á þeim kafla eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá Landmannahelli í 600 metra hæð til vesturs eftir slóðinni frá skálanum, suður fyrir Sauðleysur, og beygjum til suðurs eftir slóð, sem liggur upp hæðirnar vestan Rauðufossafjalla, í 720 metra hæð. Slóðin liggur fyrst til vesturs að Krakatindi og síðan austan við hann til suðurs að Sléttafelli, austan og sunnan við það, í 820 metra hæð, og síðan til vesturs og suðvesturs meðfram Hraukum, austan við Mundafell. Síðan til suðausturs um Breiðaskarð, upp í 840 metra hæð, og til suðurs úr skarðinu. Næst til suðvesturs meðfram Innri-Vatnafjöllum og Fremri-Vatnafjöllum, norðan við Mosfell. Við suðurenda Vatnafjalla beygjum við til suðurs að austurenda Hafrafell, síðan til vesturs sunnan undir fellinu. Við hestarétt sunnan fellsins förum við til suðurs að Eystri-Rangá og síðan vestur með henni og síðan vestur að eyðibýlinu Fossi við Eystri-Rangá, í 180 metra hæð.

56,1 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Landmannahellir: N64 03.195 W19 13.977.
Foss: N63 49.199 W19 55.031.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Sauðleysur, Landmannaleið, Rauðkembingar, Hungurfit, Grasleysufjöll, Knafahólar.
Nálægar leiðir: Rauðufossafjöll, Geldingavellir, Hæringsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Knafahólar

Frá Fossi á Rangárvöllum til Bolholts á Rangárvöllum.

Knafahólar eru oft sagðir nálægt Eystri-Rangá, en svo er ekki. Þeir eru á þessari leið. Þessi leið var einnig kölluð Kirkjustígur milli Selsunds og Keldna. Hana fór fólk af Heklubæjum til kirkju á Keldum.

Við Knafahóla segir Njála, að 30 menn hafi setið fyrir bræðrunum Gunnari, Kolskeggi og Hirti. Þar féll Hjörtur og fjórtán fyrirsátsmanna áður en flótti brast í lið þeirra. Tvö kuml hafa fundizt hér. Margir menn voru greinilega grafnir á öðrum staðnum, þar sem fundust m.a. bronskringla, hringamél, hóffjöður, skeifa og þrjú spjót. Í hinu kumlinu, sem er í Árholtsbrún, fundust engin verðmæti önnur en útskorinn beinhólkur með myndum af tveimur hjartardýrum að bíta trjálauf. Minnir það á fall Hjartar og tengist þannig Njálssögu. Eyðibýlið Steinkross er þungamiðja í flatarmálsspeki Einars Pálssonar að hætti Pythagorasar.

Förum frá eyðibýlinu Fossi upp á veg vestur að Keldum á Rangárvöllum. Andspænis bænum förum við um mjótt hlið á girðingu til norðurs og förum upp hraunbrúnina, þar sem eru vörður á henni. Þar förum við á varðaða leið um Keldnahraun, svonefndan Kirkjustíg. Um þrjá kílómetra norður frá hraunbrúninni komum við í Knafahóla, sem getið er í Njálu. Við höldum áfram beint í norður um Réttarheiði og Hrísar. Slóðin er víða ógreinileg, sokkin í lúpínu. Þegar við sjáum til Heklubrautar, sveigjum við til norðvesturs að henni. Þar er eyðibýlið Gamli-Steinkross. Við förum með Heklubraut til norðausturs um Kot og Kastalabrekku, framhjá afleggjara að Selsundi og alla leið upp á þjóðveg 268 til Næfurholts. Við fylgjum þeim vegi til vesturs um Króka og Njálsöldu og síðan til suðvesturs, unz við komum að Bolholti.

35,5 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Foss : N63 49.199 W19 55.031.

Nálægir ferlar: Krakatindur, Hungurfit, Grasleysufjöll, Þríhyrningur, Heklubraut.
Nálægar leiðir: Hæringsfell, Tröllaskógur, Kirkjustígur, Geldingavellir, Víkingslækur, Bjólfell, Stóruvallaheiði, Réttarnes, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kirkjustígur

Frá Keldum á Rangárvöllum til eyðibýlisins Kots á Rangárvöllum.

Þessi leið var kölluð Kirkjustígur milli Selsunds og Keldna. Hana fór fólk af Heklubæjum til kirkju á Keldum. Við Knafahóla segir Njála, að 30 menn hafi setið fyrir bræðrunum Gunnari, Kolskeggi og Hirti. Þar féll Hjörtur og fjórtán fyrirsátsmanna áður en flótti brast í lið þeirra. Tvö kuml hafa fundizt hér. Margir menn voru greinilega grafnir á öðrum staðnum, þar sem fundust m.a. bronskringla, hringamél, hóffjöður, skeifa og þrjú spjót. Í hinu kumlinu, sem er í Árholtsbrún, fundust engin verðmæti önnur en útskorinn beinhólkur með myndum af tveimur hjartardýrum að bíta trjálauf. Minnir það á fall Hjartar og tengist þannig Njálssögu.

Förum frá Keldum. Andspænis bænum förum við um mjótt hlið á girðingu til norðurs og förum upp hraunbrúnina, þar sem eru vörður á henni. Þar förum við á varðaða leið um Keldnahraun, svonefndan Kirkjustíg. Um þrjá kílómetra norður frá hraunbrúninni komum við í Knafahóla, sem getið er í Njálu. Við höldum áfram beint í norður um Réttarheiði og Hrísar. Slóðin er víða ógreinileg, sokkin í lúpínu. Við förum nokkurn veginn beina línu norður að eyðibýlinu Koti við Heklubraut.

3,3 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Heklubraut, Knafahólar, Hungurfit, Grasleysufjöll, Þríhyrningur.
Nálægar leiðir: Tröllaskógur, Geldingavellir, Víkingslækur, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson