Laugavegurinn

Frá Landmannalaugum um Hrafninnusker, Álftavatn og Emstrur til Þórsmerkur.

Þetta er ekki gömul þjóðleið, heldur sportleið, sem er eingöngu fyrir göngufólk. Þúsundir fara hér á hverju sumri og keppni er í langhlaupi á hverju sumri. Oftast skiptir fólk leiðinni í fjóra hluta milli fjallaskála Ferðafélags Íslands: Landmannalaugar-Hrafntinnusker, Hrafntinnusker-Álftavatn, Álftavatn-Emstrur og Emstrur-Þórsmörk.

Brennisteinsalda er eitt litskrúðgasta fjall landsins með mörgum hverum. Á vef

Ferðafélags Íslands segir svo um Laugaveginn: “Laugavegurinn er einhver fjölfarnasta og vinsælasta gönguleið um íslensk öræfi. Hróður hennar hefur borist víða, því það eru ekki síður erlendir en íslenskir ferðamenn sem ganga Laugaveginn ár hvert. Þetta er ekki að ástæðulausu því óvíða er jafn mikil fjölbreytni í landslaginu, fjöll í næstum öllum regnbogans litum, háir jöklar, öskrandi hverir, stórfljót, stöðuvötn og margt fleira.”

Förum frá Landmannalaugum vestur að Brennisteinsöldu og síðan suður með henni austanverðri og suður fyrir ölduna. Suðsuðvestur að Stórahver og síðan suður að fjallaskálanum í Hrafntinnuskeri suðvestan við Söðul. Til suðurs vestan við Reykjafjöll og vestan við Háskerðing og þaðan suðvestur að fjallaskálanum við Álftavatn. Næst liggur leiðin með jeppavegi F210 suðsuðaustur að skálanum í Hvanngili. Áfram fylgjum við jeppaveginum suður frá Hvanngili og um göngubrú á Kaldaklofskvísl. Á vegamótunum beygjum við til vestsuðvesturs með jeppaveginum F261, vöðum Bláfjallakvísl og förum á brú yfir Innri-Emstruá. Þar beygjum við frá jeppaveginum og höldum suðvestur með austurhlið Útigönguhöfða og áfram fyrir sunnan Hattfell og norðan við Tvíböku og Tudda. Beygjum til suðurs fyrir Botna að fjallaskálanum í Emstrum. Þaðan förum við suðaustur að göngubrú yfir Fremri-Emstruá og síðan vestur með ánni að Markarfljóti. Áfram suðvestur meðfram Markarfljóti um Slyppugil og Bjórgil í Almenningum. Síðan um Fauskatorfur og yfir Ljósá og Þröngá í Hamraskóga og í Húsadal. Þaðan suður um skógarhlíðar að fjallaskálanum í Langadal.

50,8 km
Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Landmannalaugar: N63 59.412 W19 03.656.
Hrafntinnusker: N63 56.014 W19 10.109.
Emstrur: N63 45.961 W19 22.427.
Skagfjörðsskáli: N63 41.086 W19 30.762.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort