Krókur

Frá Hvanngili á Syðri-Fjallabaksleið til Bólstaðar undir Einhyrningi í Fljótshlíð.

Áður var farin styttri leið úr Hvanngili, sunnan við Brattháls, um Klámbrekkur og meðfram Torfahlaupi. Sú leið er heimil, enda er hún gömul þjóðleið. En landverðir vilja heldur, að farin sé leiðin um Álftavatn, sem hér er lýst, enda er hún greiðfærari. “Hér þarf að setja upp ísbúð”, sagði Þráinn Bertelsson, þegar við fengum okkur síðdegishvíld í grösugum Króki langt frá bílvegum, meðan hestarnir sváfu í hitanum. Þar eru krossgötur leiða úr Fljótshlíð, af Rangárvöllum, úr Hvanngili. Landslag er stórbrotið, stakar strýtur með grænum mosahlíðum og gróið land, öfugt við eyðimerkur Heklusvæðisins og Mælifellssands. Stóra-Grænafjall og Hattfell eru áberandi í þessum flokki. Skemmtileg er leiðin um þröngan árfarveg Þverár. Allt svæðið milli Tindfjallajökuls og Torfajökuls er eins og tröll hafi kastað fjöllum í belg og biðu um víðan völl. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð, nema milli Hvanngils og Álftavatns.

Förum frá Hvanngili í 570 metra hæð með jeppavegi til norðvesturs og norðurs um Tunnuöldu að Álftavatni. Við norðurenda vatnsins beygt af slóðinni og farið með vesturfjöru vatnsins suðvestur með Torfatindum og síðan vestur í Torfafit og að Tvíeggjum. Þaðan er sveigt til suðvesturs undir hálsinum niður að góðu vaði á Markarfljóti í Króki. Þar er skáli. Við förum slóð til suðurs um Þverárbotna og síðan með austurhlið Lifrarfjalla að Markarfljóti, þar sem er brú á ánni og fjallaskálinn Mosar handan brúarinnar. Við förum hins vegar suður á heiðina og síðan milli Kerhnúka í vestri og Einhyrningsaxlar í austri og áfram fyrir norðan Einhyrning og síðan fyrir vestan hann og niður brekku að skálanum Bólstað, í 280 metra hæð.

32,7 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578
Álftavatn : N63 51.441 W19 13.616.
Krókur: N63 49.940 W19 24.230.
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.

Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Mosar, Laufafell, Reiðskarð, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson