Rangárvallasýsla

Skyggnisvatn

Frá Sigöldustöð um Veiðivötn að Skyggnisvatni við Tungnaá.

Byrjum á vegi F228 4 km norðan við Veiðivatnaskála. Þaðan förum við jeppaslóð til suðvesturs sunnan við Hatt, að Bóndavörðu. Næst til suðurs um Vatnaöldur og Skyggni, að Skyggnisvatni.

15,5 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Bjallavað, Veiðivötn, Botnaver, Sigalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skarfanes

Frá Leirubakka í Landsveit um Skarfanes á Rangárbotnaveg.

Allt landið austan Skarðsfjall er úr hinu mikla Þjórsárhrauni fyrir 8000 árum. Það er nú orðið vel gróið, víða með runnum. Lambhagi er skógi vaxinn.

Förum frá Leirubakka vestur með þjóðvegi 26 að Skarðsfjalli. Förum norðaustur um Skarðsheiði og Yrjaheiði að eyðibýlinu Skarfanesi. Þaðan áfram norðaustur í Lambhaga við Þjórsá og síðan suðaustur að Skarðstanga og Þjófafossi í Þjórsá. Áfram austur að þjóðvegi 26 frá Landi í Rangárbotna.

27,9 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Heklubraut, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Réttarmes. Stóruvallaheiði, Skarðsfjall, Gaukshöfðavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skarðsfjall

Frá Skarði á Landi um Skarðsfjall og Skarfaneslæk að Miðtanga.

Allt landið austan Skarðsfjall er úr hinu mikla Þjórsárhrauni fyrir 8000 árum. Það er nú orðið vel gróið, víða með runnum. Lambhagi er skógi vaxinn.

Förum frá Skarði norður með Skarðsfjalli og Grenshálsi. Síðan austur um Gamla-Skarðssel að Fagurhóli og síðan norðaustur um Yrjar og yfir Skarfaneslæk, norðaustur um Mýrarskóg og Öldumela að Lambhaga við Þjórsá.

13,1 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Skarfanes, Gaukshöfðavað, Hagavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sigalda

Frá Hrauneyjarfossi um Sigöldu á Landmannaleið.

Náttúrukortið.is segir þetta um Sigöldu: “Virkjunin stendur inni á hálendinu nokkuð sunnan Þórislóns. Í stöðinni eru þrjár 50 MW vélasamstæður. Tungnaá er stífluð efst í gljúfrunum ofan við Sigöldu og myndast við það 14 km² miðlunarlón, Krókslón. Sigöldustífla er 925 m löng og 40 m há í gljúfrinu þar sem hún er hæst. Úr Krókslóni er vatninu veitt eftir 1 km löngum aðrennslisskurði gegnum ölduna að inntaki á vesturbrún Sigöldu. Frá því liggja þrýstivatnspípur að stöðvarhúsinu og frá stöðvarhúsinu er 550 m langur frárennslisskurður út í Hrauneyjafosslón.”

Förum frá fjallaskála við Hrauneyjafoss suður á Hrauneyjafell og síðan til austurs fyrir sunnan Hrauneyjalón að Sigöldu. Þaðan til suðurs að Bjallavaði á Tungnaá og áfram suður á Landmannaleið.

17,7 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hrauneyjar: N64 11.852 W19 17.026.
Bjallar vestur: N64 06.576 W19 06.284. Kofarúst

Nálægir ferlar: Jökulheimar, Dyngjur.
Nálægar leiðir: Skyggnisvatn, Bjallavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sauðleysur

Frá skálanum í Áfangagili í skálana í Landmannahelli, stundum kölluð Landmannaleið.

Ein fegursta reiðleið landsins, næst á eftir leiðinni til austurs frá Landmannahelli. Hér eru stök fjöll, miklir eyðisandar og hálendismóar milli Hekluhrauna í suðri og fjallshlíða í norðri. Kringla er gróið svæði, umgirt fjöllum, gamall vatnsbotn. Að norðan eru Sauðleysur, Herbjarnarfell, Löðmundur, Lifrarfjöll og Dómadalsháls. Suðurfjöllin eru Krókagiljabrún, Rauðufossafjöll og Mógilshöfðar. Á miðri Kringlu eru fellin Sáta, Langsáta og Sátubarn gegnt Landmannahelli. Sléttan er í 600 m hæð og fjöllin umhverfis í 1000 m hæð. Löðmundarvatn er við rætur Löðmundar, svipmesta fjallsins á þessu landssvæði.

Förum frá Áfangagili í 310 metra hæð út gilið til norðvesturs og síðan til suðvesturs meðfram Öldunni. Fylgjum fyrst jeppaslóð, en beygjum síðan upp hlíðina til suðurs, þar sem við komum á Landmannaleið. Henni fylgjum við í stórum dráttum á leiðarenda. Förum fyrst til austurs, norðan við Skjaldbreið, um Klofninga sunnan við Valahnjúka. Síðan norðan við Krókagiljabrúnir og suðvestan við Sauðleysur. Þá förum við til suðausturs um Svalaskarð, þar sem við víkjum til norðurs af jeppaslóðinni. Við förum yfir Helliskvísl og beint til austurs og síðan til norðausturs undir Sauðleysum, þar sem við komum aftur á slóðina. Við erum komin á jaðar sléttu, sem heitir Kringla. Áfram höldum við í sömu átt unz við komum að skálunum í Landmannahelli, í 600 metra hæð, norðan Sátu og sunnan Hellisfjalls.

25,8 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.
Landmannahellir : N64 03.195 W19 13.977.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hraunin, Rangárbotnar, Fjallabak nyrðra, Rauðkembingar, Krakatindur, Reykjadalir, Landmannaleið.
Nálægar leiðir: Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sauðholt

Frá Steinslæk með Þjórsá og Sauðholti að Kálfholti.

Vestan við bæinn á Sandhólaferju er Hamarinn. Þar var öldum saman lögferja á Þjórsá. Í Landnámu segir frá ósætti Sigmundar Sighvatssonar og Steins snjalla Baugssonar, sem báðir vildu fara fyrr yfir ána. Drap þá Steinn Sigmund og hefur biðraðamenning skánað síðan þá.

Byrjum við þjóðveg 275 norðan Sandhólaferju, þar sem Steinslækur kemur í Þjórsá. Förum norður á austurbökkum Þjórsár og síðan norðaustur yfir Kálfalæk að þjóðvegi 288 suðaustan við Kálfalæk.

8,2 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Þjórsárbakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Réttarnes

Frá Þingskálum á Rangárvöllum um Réttarnes að Leirubakka í Landsveit.

Sunnan bæjar á Þingskálum eru búðatóftir þingstaðar. Búðirnar eru 37 og friðaðar. Efst í túni Hrólfsstaðahellis er Kirkjuhvoll. Um hann orti Guðmundur Guðmundsson skólaskáld, sem fæddist á bænum: “Hún amma mín það sagði mér: “Um sólarlagsbil / á sunnudögum gakk þú ei Kirkjuhvols til! / Þú mátt ei trufla aftansöng álfanna þar. / Þeir eiga kirkju í hvolnum, og barn ég var, / í hvolnum kvað við samhljómur klukknanna á kvöldin”.” Norðan bæjar er topphlaðið fjárhús myndarlegt, eingöngu hlaðið úr hraungrýti. Í Réttarnesi er grjóthlaðin rétt Landmanna, ekki lengur í notkun. Á Leirubakka í Landsveit er rekin margvísleg þjónusta fyrir hestaferðamenn.

Byrjum við þjóðveg 268 hjá Þingskálum á Rangárvöllum. Förum vestur að Þingskálavaði og norður vaðið. Síðan norður að Hrólfsstaðahelli, þar sem við komum á jeppaveg norður með Ytri-Rangá. Förum veginn um Húsagarð norðaustur í Réttarnes. Þaðan norður hraunið um Miðmelabót að þjóðvegi 26 við Tjarnalæk. Með þjóðveginum austur að Leirubakka.

15,2 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Stóruvallaheiði, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Reynifell

Frá Fossi á Rangárvöllum til Reyðarvatnsréttar við þjóðveg 264.

Í landi eyðibýlisins Reynifells hefur risið mikil sumarhúsabyggð.

Förum frá eyðibýlinu Fossi suður yfir Eystri-Rangá að Þorleifsstöðum og síðan með norðurhlið Þríhyrnings vestur að Reynifelli. Þaðan vestur að Eystri-Rangá og vestur með ánni að Tunguvaði við mynni Þverár. Förum yfir Rangá á vaðinu og síðan norðvestur yfir þjóðveg 264 á slóð norðvestur meðfram skógræktargirðingu að þjóðvegi 264 við Reyðarvatnsrétt.

18,8 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Grasleysufjöll, Hungurfit, Krakatindur, Þríhyrningur.
Nálægar leiðir: Hæringsfell, Tröllaskógur, Kirkjustígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjadalir

Frá Dalakofanum um Reykjadali að Landmannahelli.

Mest notaða leiðin milli Fjallabaksleiða syðri og nyrðri, sú stytzta, en lika sú, sem fer hæst yfir sjó. Af leiðinni er þverleið í Hrafntinnusker.

Reykjadalir eru mikið hverasvæði með grænum grundum í 800 metra hæð yfir sjávarmáli.

Byrjum á vegamótum sunnan við fjallaskálann Dalakofann og við norðvesturhorn Laufafells. Vegamótin eru í 760 metra hæð. Förum eftir jeppaslóð norðvestur á fjallgarðinn og um Reykjadali, þar sem er afleggjari austur í fjallaskálann Höskuldsskála við Hrafntinnusker. En við förum áfram norður á Pokahrygg, þar sem jeppavegurinn nær 980 metra hæð. Þar erum við í Mógilshöfðum. Komum niður úr fjöllunum austan við Sátubarn, þar sem við komum að Fjallabaksleið nyrðri í 590 metra hæð.

18,0 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Dalakofinn: N63 57.042 W19 21.566.

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Sauðleysur, Landmannaleið, Krakatindur, Grasleysufjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Útivistarkort

Reiðskarð

Frá Hungurfiti til Bólstaðar undir Einhyrningi.

Þetta er leiðin um Laufaleitir Rangvellinga. Ekki er þetta land með miklu fóðurgildi, eins og örnefnin Hungurfit og Sultarfell sýna. Síðari hluti leiðarinnar frá Króki er með skemmtilegustu reiðleiðum landsins, þótt ljót ummerki séu þar um torfæruakstur jeppa. Sérstaklega kaflinn um Þverárbotna, þar sem slóðin liggur sumpart í þrengslum í ánni. Stundum böðlast jeppar þá leið, þótt þeir komist varla um vegna þrengsla. Útsýni af leiðinni er víða frábært til grænna fjalla, sem standa stök í svartri auðn.

Förum frá fjallaskálanum í Hungurfiti í 620 metra hæð og höldum austur jeppafæra leið um Reiðskarð milli Faxa að norðan og Sultarfells og Faxatagls að sunnan. Förum upp úr Sultarfit bratta brekku á Sultarfell og síðan í ýmsum krókum austur í Krók við ármót Markarfljóts og Hvítmögu. Þar er fjallaskáli. Þaðan förum við suður jeppaslóð, yfir Hvítmögu á grýttu vaði suður um Þverárbotna og síðan undir Lifrarfjöllum um Þverárdal að brú á Markarfljóti við fjallakofann í Mosum. Hjá brúnni förum við af jeppaslóðinni eftir reiðslóð upp hæðirnar og síðan til suðurs nokkuð vestan við bílveginn og austan við Kerhnjúka. Loks förum við vestur fyrir Einhyrning og síðan um bratta brekku að skálanum Bólstað.

24,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hungurfit: N63 50.530 W19 32.850.
Krókur: N63 49.940 W19 24.230.
Mosar: N63 47.040 W19 25.530.
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.

Nálægir ferlar: Laufafell, Hungurfit, Grasleysufjöll, Krókur, Mosar, Fljótshlíð.
Nálægar leiðir: Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðufossafjöll

Frá Sléttafelli sunnan Krakatinds að Dalakofanum norðan Laufafells í Laufaleit.

Byrjum á vegamótum sunnan Sléttafells sunnan Krakatinds. Þangað liggur leið norðan úr Landmannahelli og leið suðvestan af Rangárvöllum. Við förum til suðurs fyrir vestan Rauðufossafjöll. Síðan suðaustur að Dalakofanum.

9,1 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Dalakofinn: N63 57.042 W19 21.566.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Krakatindur, Grasleysufjöll, Reykjadalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Rauðkembingar

Frá Rangárbotnum um Skjólkvíahraun að Krakatindsleið.

Þessa leið fara þeir, sem vilja ganga stytzta leið á Heklu. Skjólkvíahraun rann 1970 og var þá þessi leið notuð til skoðunarferða. Rauðkembingur er söðulbakað illhveli og hefur gefið nafnið fjalli á þessari leið.

Byrjum í Rangárbotnum við vegamót þjóðvegar 26 og Landmannaleiðar í 240 metra hæð. Við förum Landmannaleið til austurs, fyrst norðan Sauðafells að Öldunni. Þar liggur jeppaslóð suður í átt að Heklu og við fylgjum henni alla leið. Fyrst um Skjólkvíahraun að Hestöldu og síðan suðvestur með öldunni og síðan bratt upp brekkuna í Rauðuskál, sem er milli Hestöldu og Rauðkembinga. Við förum norðaustur um skarðið og síðan suður yfir Nýjahraun vestan við Krakatind og suður að austurhlið Mundafells, þar sem við komum á slóðina frá Landmannahelli um Krakatind og Vatnafjöll til Rangárvalla.

27,0 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Rangárbotnar, Sauðleysur, Krakatindur.
Nálægar leiðir: Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Rangárbotnar

Frá Leirubakka í Landsveit til Áfangagils við Valafell.

Leiðin fylgir bílvegi að mestu fyrri hluta leiðarinnar, en í Norðurbotnum er vikið til austurs frá veginum og farin reiðslóð í átt til Valafells. Við förum yfir efstu drög Ytri-Rangár, þar sem hún sprettur fram í ótal lindum og sameinast í einni kvísl. Við hana eru grænir bakkar, sem stinga í stúf við vikurbreiðurnar umhverfis. Víðir og hvönn eru í hólmum kvíslarinnar. Síðan tekur við berangurslegt Sölvahraun. Sunnan við þessa leið er mikil vinnsla á vikri til útflutnings.

Förum frá Leirubakka í 100 metra hæð norðvestur með þjóðvegi 26 um Galtalæk og Lönguhlíð, um Merkurhraun, tunguna milli Þjórsár og Ytri-Rangár, unz við komum norður fyrir Fossabrekkur í Rangárbotnum. Þar beygjum við af veginum austur yfir Rangá og um Rangárbotna norðan Sauðafells í Sölvahraun. Þar förum við yfir Landmannaleið á slóð, sem liggur til norðurs vestan við Ölduna. Fylgjum þeirri slóð að hliðarslóð til austurs að skálanum í Áfangagili í 310 metra hæð.

27,0 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Nálægir ferlar: Heklubraut, Hraunin, Rauðkembingar, Fjallabak nyrðra, Sauðleysur.
Nálægar leiðir: Stóruvallaheiði, Réttarnes, Skarfanes, Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Oddeyrar

Frá Grímsstöðum í Landeyjum að Varmadal við þjóðveg 1.

Um Odda segir svo í Wikipedia: “Bærinn stendur á oddanum sem myndast á milli Ytri- og Eystri-Rangánna og Þverár, þar sem hún rennur saman við Ytri-Rangá og ber því nafn með rentu. Þar hefur verið kirkja síðan í öndverðri kristni. Þar bjó Sæmundur fróði Sigfússon og afkomendur hans eftir hann í tvær aldir og nefndust þeir Oddaverjar. Í Odda hafa verið margir frægir prestar, þeirra frægastur er Sæmundur fróði Sigfússon. Aðrir þekktir prestar voru til dæmis Matthías Jochumsson um tíma á 19. öld og Arngrímur Jónsson um tíma á 20. öld.”

Byrjum á þjóðvegi 252 í Landeyjum hjá afleggjara að Grímsstöðum. Förum norðvestur afleggjarann um Grímsstaði að Hólsá. Síðan norðnorðaustur með ánni að Ártúnum, þar sem við förum austur með Þverá. Síðan austnorðaustur yfir Þverá á Bökkum og norður yfir þjóðveg 266 vestan Odda. Síðan norðaustur að þjóðvegi 266 og frá veginum norður að þjóðvegi 1 við Varmadal.

21,0 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Fíflholt.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Nýidalur

Frá fjallaskálanum í Nýjadal á Sprengisandi að fjallaskálanum Versölum á Sprengisandi.

Syðri hluti jeppavegarins um Sprengisand. Sjá nyrðri hlutann undir heitinu Fjórðungsalda. Sjá líka almennan kafla um Sprengisand. Nýidalur og Fjórðungsalda eru eystri leiðin um Sprengisand. Hestamenn kjósa frekar að fara um gróðursælli Gnúpverjaafrétt í Arnarfell og þaðan austur um Þjórsárver og norður í Laugafell. Sú leið er í þessu safni kölluð Háöldur. Þegar Guðmundur góði Arason biskup flúði undan Eyfirðingum 1220, fór hann um Bárðardal í Odda með fjölmennt lið fátæklinga og förufólks.

Förum frá fjallaskálanum í Nýjadal í 800 metra hæð suðvestur Sprengisandsveg, framhjá afleggjaranum Styttingi vestur að Þjórsárlóni, að Kistuöldu, þar sem er þverleið vestur að Kvíslavatni. Höldum áfram suður, fyrir vestan Skrokköldu og síðan til suðvesturs að Hnöttóttuöldu. Förum norður og vestur fyrir ölduna og síða upp á Þveröldu. Þaðan suður og vestur að fjallaskálanum Versölum í 620 metra hæð.

57,5 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.
Versalir: N64 27.063 W18 44.975.
Litlu-Versalir: N64 27.053 W18 44.985.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Hágöngulón, Gásasandur, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort