Krakatindur

Frá Landmannahelli um Rauðufossafjöll og Krakatind að Fossi á Rangárvöllum.

Löng leið um stórbrotið landslag og Heklu í bakgrunni. Mikilfenglegastur er snarbrattur Krakatindur með hvassri egg þétt við slóðina. Leiðin liggur með jaðri úfinna Hekluhrauna. Farið er eftir greiðfærri jeppaslóð. Gætið þess sunnan við Sléttafell að taka hægri slóðina, sú vinstri liggur að Laufafelli og Markarfljóti. Sú er mun lengri. Hraun, melar og sandar einkenna mestalla leiðina, en síðasti kaflinn er þó gróinn, frá Hafrafelli meðfram Eystri-Rangá að leiðarenda. Á þeim kafla eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá Landmannahelli í 600 metra hæð til vesturs eftir slóðinni frá skálanum, suður fyrir Sauðleysur, og beygjum til suðurs eftir slóð, sem liggur upp hæðirnar vestan Rauðufossafjalla, í 720 metra hæð. Slóðin liggur fyrst til vesturs að Krakatindi og síðan austan við hann til suðurs að Sléttafelli, austan og sunnan við það, í 820 metra hæð, og síðan til vesturs og suðvesturs meðfram Hraukum, austan við Mundafell. Síðan til suðausturs um Breiðaskarð, upp í 840 metra hæð, og til suðurs úr skarðinu. Næst til suðvesturs meðfram Innri-Vatnafjöllum og Fremri-Vatnafjöllum, norðan við Mosfell. Við suðurenda Vatnafjalla beygjum við til suðurs að austurenda Hafrafell, síðan til vesturs sunnan undir fellinu. Við hestarétt sunnan fellsins förum við til suðurs að Eystri-Rangá og síðan vestur með henni og síðan vestur að eyðibýlinu Fossi við Eystri-Rangá, í 180 metra hæð.

56,1 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Landmannahellir: N64 03.195 W19 13.977.
Foss: N63 49.199 W19 55.031.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Sauðleysur, Landmannaleið, Rauðkembingar, Hungurfit, Grasleysufjöll, Knafahólar.
Nálægar leiðir: Rauðufossafjöll, Geldingavellir, Hæringsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson