Knafahólar

Frá Fossi á Rangárvöllum til Bolholts á Rangárvöllum.

Knafahólar eru oft sagðir nálægt Eystri-Rangá, en svo er ekki. Þeir eru á þessari leið. Þessi leið var einnig kölluð Kirkjustígur milli Selsunds og Keldna. Hana fór fólk af Heklubæjum til kirkju á Keldum.

Við Knafahóla segir Njála, að 30 menn hafi setið fyrir bræðrunum Gunnari, Kolskeggi og Hirti. Þar féll Hjörtur og fjórtán fyrirsátsmanna áður en flótti brast í lið þeirra. Tvö kuml hafa fundizt hér. Margir menn voru greinilega grafnir á öðrum staðnum, þar sem fundust m.a. bronskringla, hringamél, hóffjöður, skeifa og þrjú spjót. Í hinu kumlinu, sem er í Árholtsbrún, fundust engin verðmæti önnur en útskorinn beinhólkur með myndum af tveimur hjartardýrum að bíta trjálauf. Minnir það á fall Hjartar og tengist þannig Njálssögu. Eyðibýlið Steinkross er þungamiðja í flatarmálsspeki Einars Pálssonar að hætti Pythagorasar.

Förum frá eyðibýlinu Fossi upp á veg vestur að Keldum á Rangárvöllum. Andspænis bænum förum við um mjótt hlið á girðingu til norðurs og förum upp hraunbrúnina, þar sem eru vörður á henni. Þar förum við á varðaða leið um Keldnahraun, svonefndan Kirkjustíg. Um þrjá kílómetra norður frá hraunbrúninni komum við í Knafahóla, sem getið er í Njálu. Við höldum áfram beint í norður um Réttarheiði og Hrísar. Slóðin er víða ógreinileg, sokkin í lúpínu. Þegar við sjáum til Heklubrautar, sveigjum við til norðvesturs að henni. Þar er eyðibýlið Gamli-Steinkross. Við förum með Heklubraut til norðausturs um Kot og Kastalabrekku, framhjá afleggjara að Selsundi og alla leið upp á þjóðveg 268 til Næfurholts. Við fylgjum þeim vegi til vesturs um Króka og Njálsöldu og síðan til suðvesturs, unz við komum að Bolholti.

35,5 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Foss : N63 49.199 W19 55.031.

Nálægir ferlar: Krakatindur, Hungurfit, Grasleysufjöll, Þríhyrningur, Heklubraut.
Nálægar leiðir: Hæringsfell, Tröllaskógur, Kirkjustígur, Geldingavellir, Víkingslækur, Bjólfell, Stóruvallaheiði, Réttarnes, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson