Þríhyrningur

Frá Goðalandi í Fljótshlíð að Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Hér eru Njáluslóðir um allt. Á leiðinni upp í Vatnsdal er Höskuldslág, þar sem Höskuldur Njálsson var veginn í Njálssögu. Úr Vatnsdal er farið upp í Þríhyrning, þar sem Flosi Þórðarson er talinn hafa hulizt með mönnum sínum eftir Njálsbrennu. Norðan Þríhyrnings voru áður margir bæir, en þeir eru allir komnir í eyði. Keldur eru einn sögufrægasti sveitabær landsins, miðstöð Oddaverja. Þar bjó Jón Loftsson og síðar Hálfdán Sæmundarson, sem kemur mjög við sögu í Sturlungu. Gamli torfbærinn á Keldum er með merkari menningarsögulegu minjum í landinu.

Byrjum við réttina hjá Kirkjulæk í Fljótshlíð. Förum eftir þjóðvegi 261 til vesturs að mótum fjallvegar um Vatnsdal. Förum þann veg til norðurs, framhjá skógræktinni á Tumastöðum, síðan norður og upp Tungu milli Fjallgarðs að austan og Sléttafells að vestan. Þar komum við að eyðibýlinu Vatnsdalskoti undir Vatnsdalsfjalli. Förum síðan til norðausturs með fjallinu, í stefnu á norðurhlið Þríhyrnings. Förum síðan norður Engidal, yfir Fiská, norður með vesturhlið Reynifellsöldu að eyðibýlinu Reynifelli. Þaðan förum við til norðvesturs á brú yfir Eystri-Rangá og síðan með þjóðvegi um Keldur vestur að þjóðvegi 264 um Rangárvelli. Með þeim vegi förum við til vesturs að Gunnarsholti.

25,8 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fljótshlíð, Hungurfit, Grasleysufjöll, Knafahólar, Heklubraut.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson