Húnavatnssýslur

Stífluvegur

Frá norðvesturhorni Blöndulóns um Blöndustíflu að Galtará á Eyvindarstaðaheiði.

Þessi leið hefur tekið við af Skagfirðingavegi síðan Blöndulón var gert. Riðið er eftir stíflunni við Blöndulón.

Byrjum hjá norðvesturhorni Blöndulóns. Förum norðaustur fyrir lónið og svo suðaustur um Réttabungu. Síðan norðaustur yfir Blöndustíflu og suðaustur um Reftjarnabungu. Austur um Galtarárflóa og suður með Galtará. Endum í fjallaskálanum við Galtará.

14,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haugakvísl, Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Friðmundarvatn, Áfangafell, Fossaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Steinheiði

Frá Aðalbóli í Austurárdal um Steinheiði að Efra-Núpi í Núpsdal.

Förum frá Aðalbóli vestur um Steinheiði að þjóðvegi 704 við Efra-Núp.

5,0 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Aðalbólsheiði.
Nálægar leiðir: Núpdælagötur, Aðalbólsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skriðuvað

Á Hnausakvísl norðan Flóðs og sunnan Hnausavatns í Vatnsdal.

Hét Hólavað í Sturlungu, algengur fundarstaður höfðingja. Hér fór Þórður kakali Sighvatsson árið 1243 frá Borgarfirði um Arnarvatnsheiði og Haukagilsheiði í Vatnsdal og þaðan í aðför að Þorsteini Jónssyni í Hvammi. Enn fór Þórður hér eftir Flóabardaga árið 1244 í aðför að Kolbeini unga Arnórssyni. Þorgils skarði Böðvarsson og Hrafn Oddsson mæltu sér til móts árið 1255 við Hólavað og sættust þar.

Byrjum á þjóðvegi 722 við norðvesturhorn Flóðsins í Vatnsdal. Förum austur að Hnausakvísl / Vatnsdalsá. Yfir hana á Skriðuvaði / Hólavaði um 400 metrum norðan Flóðsins. Síðan upp á þjóðveg 722 norðan Bjarnastaða.

1,2 km
Húnavatnssýslur

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hópið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga og Herforingjaráðskort

Skiptamelur

Frá Ströngukvíslarskála um Skiptamel að Ingólfsskála.

Þetta er mjög ónákvæmt leið á kortinu, teiknuð nánast sem bein lína milli tveggja endapunkta.

Förum frá skálanum við Ströngukvísl í 550 metra hæð austur um Lambamannaflá og Skiptamel að Ingólfsskála í 830 metra hæð.

20,3 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.

Nálægir ferlar: Guðlaugstungur, Haugakvísl, Eyvindarstaðaheiði, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Hraungarður, Fossakvísl, Ingólfsskáli, Gimbrafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skagfirðingavegur

Frá Skammá við Arnarvatn að Kjalvegi við Áfanga suðvestan Blöndulóns.

Skagfirðingavegur lá upp frá Gilhaga í Skagafirði. Skreiðarferðir fóru Skagfirðingar suður Stórasand. Í Mælifellshnúk er stór fönn í hestlíki lengi fram eftir vori. Þegar hesturinn var rofinn um bóg töldu menn óhætt að ríða Skagfirðingaveg um Stórasand. Í Ferðabók sinni (1791-1797) nefnir Sveinn Pálsson ferð um Stórasand 2. október. Þeir hrepptu storm og hrakviðri, enda var snjór nýleystur. Hestarnir sukku í aurbleytu næstum upp í hné. Þeir höfðu lagt af stað kl.11 um morguninn en kl. hálf níu um kvöldið voru þeir komnir í Tjaldhól við Skammá sem rennur í Arnarvatn mikla. Rokið var svo mikið, að þeir gátu með engu móti tjaldað. Þess í stað notuðu þeir tjaldið fyrir ábreiðu, en voru að öðru leyti óvarðir fyrir regni og stormi. Þetta veður hélzt alla nóttina. Við Skammá orti Jónas Hallgrímsson: “Og undir Norðurásnum / er ofurlítil tó / og lækur líður þar niður / um lágan hvannamó.”

Förum frá Skammá austnorðaustur slóð um Stórasand, fyrst fyrir norðan Bláfell, þar sem við komum að fornum Ólafsvörðum, sem hlaðnar voru sér til hita af Ólafi biskup Hjaltasyni og mönnum hans um miðja sextándu öld. Áfram höldum við austnorðaustur um Beinakerlingu að Grettishæðarvatni og síðan að Grettishæð. Þar greinast leiðir. Okkar leið liggur norðaustur Skagfirðingaveg. Við förum til norðausturs fyrir sunnan Svínafell og norðaustur um Öldur, sem sagðar eru átján talsins eins og segir í vísuhelmingnum: “Átján öldur undir Sand / eru frá Sauðafelli”. Síðan norður fyrir Sauðafell að reiðslóð, sem liggur stutta leið norður að fjallaskálanum Áfanga. Hin forni Skagfirðingavegur lá síðan áfram austur yfir, þar sem nú er suðurendi Blöndulóns og sameinaðist Kjalvegi við Galtará.

34,5 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Áfangi: N65 08.951 W19 43.744.

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell, Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Bláfell, Sandkúlufell.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sandkúlufell

Frá Grettishæðarvatni á Stórasandi að Sandkúlufelli á Kjalvegi.

Þessi jeppaslóð tók við af Skagfirðingavegi, sem Blöndulón færði í kaf. Urðu hestamenn þá að krækja suður eða norður fyrir lónið. Að austanverðu liggur þessi slóð miklu sunnar en gamli reiðvegurinn.

Förum frá suðurenda Grettishæðarvatns austur eftir jeppaslóð, hæst í 800 metra hæð, síðan sunnan við Svörtuhæð og loks norðan við Sandkúlufell inn á þjóðveg 35 um Kjöl.

20,7 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bláfell.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða, Hanzkafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjaskarð

Frá Skarðsá í Sæmundarhlíð um Reykjaskarð að Þverárdal í Laxárdal.

Í Grettissögu segir frá er Grettir og Illugi bróðir hans eru á leið í útlegðina í Drangey: „Er þá sneru þeir til Skagafjarðar og fóru norður Vatnsskarð og svo til Reykjaskarðs og svo Sæmundarhlíð og svo á Langholt. Þeir komu til Glaumbæjar að áliðnum degi.”

Förum frá Skarðsá vestsuðvestur Reykjaskarð meðfram Skarðsá norðan við Grísafell. Norðaustan við Vatnshlíðarhnjúk beygjum við suðvestur um Vestra-Króksskarð og framhjá Flosaskarði í Kálfárdal. Síðan suður í Kálfárdal rétt norðan leiðar um Stóra-Vatnsskarð. Frá Kálfárdal förum við vestnorðvestur meðfram Kálfá að Ógöngum. Þar förum við norðvestur og upp í Kotshnjúksbrekkur og síðan vestur og niður brekkurnar að eyðibýlinu Þverárdal.

14,3 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Sæmundarhlíð, Vatnsskarð, Laxárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Refshali

Frá Skagaströnd um Refshala til Gauksstaða á Skaga í Skagafirði.

Grímur Gíslason lýsir leiðinni svo í Árbók FÍ 2007. “Greiðfær leið er austur dalinn [Hrafndal] að norðanverðu. Er Tungufell til hægri, er upp úr dalnum er komið, en Refshali til vinstri norðar á fjallinu. Er farið austur mlli þessara tveggja fella, og er þá komið á Fossdal, sem gengur norður með Refshala að austan. Er farið norður Fossdal um stutta leið, en beygt til austurs norðan tjarna, sem þar eru skammt undan. Þá er skammt að upptökum Fossár og niður með henni, ef fara skal til bæja austan á Skaganum.”

Förum frá Skagaströnd austnorðaustur Hrafndal sunnan við Spákonufell og norðan við Illviðrahnjúk. Síðan til norðurs milli Tungufells að austanverðu og Hrútafjalls að vestanverðu. Til norðnorðausturs milli Katlafjalls að vestanverðu og Refshala að austanverðu, í Fjallabaksdal. Þaðan vestur yfir Fossdalsá. Við förum áfram norðaustur um Fossbungu og Urriðatjörn, austan Hraunvatns og sunnan Reyðartjarnar. Við förum áfram austur með Fossá að þjóðvegi 745 norðan við Gauksstaði.

21,5 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Bjarnarfell, Ölvesvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Núpdælagötur 2

Frá Efra-Núpi í Núpsdal í Miðfirði að Norðlingafljóti í Borgarfirði.

Árið 1242 fór Kolbeinn ungi með 600 manna lið um Núpdælagötur til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda niður Hvítársíðu og fara yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn varð því að fara tvisvar yfir Hvítá og tafðist við það. Og missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hér er lýst krókóttari leið, sem betur er fær að sumri.

Frá Efra-Núpi eru til tvær leiðir, sem kallaðar eru Núpdælagötur. Hér er leiðin, sem Þorsteinn Þorsteinsson lýsir í Árbók FÍ 1962: Við förum frá Efra-Núpi fram dalinn með Núpsá að austanverðu. Vestur frá Kvíslavötnum beygjum við þvert til austurs og förum milli Kvíslarvatna. Síðan um Kvíslavatnahæð og fyrir vestan og sunnan Þorvaldsvatn að Halldórshóli. Síðan suðsuðaustur í stefnu á miðjan Eiríksjökul, yfir Syðri-Kvísl vestan Hólmavatns. Sveigjum smám saman meira í vestur frá suðri, förum yfir Leggjabrjót. Síðan fyrir suðaustan Ketilvatn og þá til suðurs yfir Hraungarða og um Merkjastein. Næst förum við yfir jeppaslóð að Urðhæðarvatni, sem er vestan við okkur. Við förum suður að Úlfsvatni og vestur fyrir það og síðan suður um Silungslækjarsund og kargaþýfðan Hagldamóa og að Einbúa fyrir austan Þorgeirsvatn. Þaðan förum við suður að Núpdælavaði ofan við Bjarnafoss í Norðlingafljóti og upp á veginn á Þorvaldshálsi.

35,0 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Úlfsvatnsskáli: N64 53.880 W20 38.520.

Nálægir ferlar: Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Núpdælagötur 1

Frá Efra-Núpi í Núpsdal í Miðfirði að Norðlingafljóti í Borgarfirði.

Árið 1242 fór Kolbeinn ungi með 600 manna lið um Núpdælagötur til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hér er lýst slíkri vetrarleið milli Núpsdals og Úlfsvatns.

Förum frá Efra-Núpi fram dalinn með Núpsá að austanverðu, síðan heiðina í beinu framhaldi alla leið að Urðhæðarvatni. Norðan þess komum við á veiðislóð að sunnanverðu. Við fylgjum henni fyrst í austur að Urðarvatnsskála og síðan austur fyrir Úlfsvatn, í 460 metra hæð, og suður fyrir það. Þaðan liggur jeppaslóðin beint suður að Norðlingafljóti. Þar förum við yfir fljótið á vaði og komum þá á Þorvaldshálsi á veginn um Arnarvatnsheiði. Um miðja nítjándu öld var samkvæmt Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar farið vestur fyrir Úlfsvatn og síðan yfir Norðlingafljót nokkru neðar en núna. Þar heitir Núpdælavað á fljótinu, rétt ofan við Bjarnafoss. Lýsingu þess kafla má líka sjá í Árbók FÍ 1962 eftir Þorstein Þorsteinsson. Við komu veiðislóðarinnar hefur syðsti hluti Núpdælagatna þannig færzt austar.

38,8 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Úlfsvatn: N64 53.130 W20 34.958.

Nálægir ferlar: Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Mönguhóll

Frá Valdarási við þjóðveg 1 suður um Aðalbólsheiði um fjallaskálana Mönguhól, Bleikskvísl og Haugakvísl að slóðum um Víðidalstunguheiði og Haukagilsheiði.

Förum frá afleggjara að Hrísum og Valdarási suður Fitjaás um eyðibýlin Króka og Gilsbakka að fjallaskálanum Mönguhóli. Þar komum við á leið, sem liggur þvert austur yfir heiðar Húnaþings. Fylgjum þeirri slóð austur um fjallaskálana Bleikskvísl og Haugakvísl að vegamótum, þar sem mætast slóðir af Víðidalstunguheiði og Haukagilsheiði og liggja þær suður í fjallaskálann í Suðurmannasandfelli.

40,4 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Mælifellsdalur

Frá skálanum við Galtará um Mælifellsdal að Hvíteyrum í Skagafirði.

Þessa leið hafa menn farið allar aldir ofan af Kili niður í Skagafjörð. Hér fóru Gissur jarl og Kolbeinn ungi 19. ágúst 1238 með níuhundruð manns og fjölda hesta til móts við Skagfirðinga, þegar þeir gerðu atlögu að Sturlu og Sighvati í Örlygsstaðabardaga, sem lýst er í Sturlungu. Mælifellsdalur er djúpur og þröngur og nær langt vestur undir drög Svartárdals. Fylgt er jeppaslóð alla leiðina frá Galtará til Mælifells. Sjálfur Mælifellshnjúkur er með hæstu fjöllum á svæðinu, 1138 metra hár og sést um óravegu í góðu skyggni.

Förum frá fjallaskálanum við Galtará í 500 metra hæð og fylgjum vegi norðaustur yfir Þingmannaháls að Bugaskála við suðvesturhorn Aðalmannsvatns. Þaðan förum við vestan vatnsins til norðurs og síðan til austurs við norðurenda þess. Vegurinn beygir fljótlega til norðurs og upp hlíðar Haukagilsheiðar austan við Stafnsgil og allt norður fyrir Heiðarhaus, þar sem við náum 600 metra hæð. Síðan niður brekkurnar í Mælifellsdal og út eftir dalnum til norðurs, yfir brú og að þjóðvegi 751 um Mælifellsá. Fylgjum þeim vegi að þjóðvegi 752 inn Skagafjörð. Förum þann veg hundrað metra að réttinni við Hvíteyrar.

38,1 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haugakvísl.
Nálægar leiðir: Stífluvegur, Fossaleið, Hraungarður, Gilhagadalur, Kiðaskarð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Litla-Vatnsskarð

Frá Laxárdal um Litla-Vatnsskarð til Sauðárkróks.

Litla-Vatnsskarð er lágt skarð og greiðfært. Engar torfærur eru á allri leiðinni úr Laxárdal til Sauðárkróks. Í skarðinu er eyðibýlið Móbergssel, þar sem skáldið Sveinn í Elivogum var fæddur. Víðidalur er þröngur, langur og gróinn dalur, sem var áður fyrr í byggð.

Byrjum milli eyðibýlanna Refsstaða og Merkur í Laxárdal. Förum norðaustur um Litla-Vatnsskarð og sunnan Móbergsselstjarnar að Víðidal. Þar er fjallaskálinn Þúfnavellir. Förum norður Víðidal að Hryggjafjalli. Síðan til austurs fyrir sunnan Hryggjafjall um Hryggjadal og til norðnorðausturs meðfram Gönguskarðsá að þjóðvegi 744 gegnt Veðramótum í Skagafirði og Sauðárkróks.

18,5 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Þúfnavellir: N65 38.330 W19 49.480.

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Gyltuskarð, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Laxárdalur

Frá Skrapatungurétt í Refasveit um Laxárdal til Bólstaðarhlíðar í Svartárdal.

Laxárdalur er samsíða Langadal og er með mestu dölum sýslunnar, áður þéttbýlasti hluti hennar, en núna að mestu í eyði. Aðeins er búið nyrst á Balaskarði og syðst í Þverárdal. Dalbotninn er í 200-300 metra hæð, ákjósanlegt og vel gróið reiðland. Á Mörk í Laxárdal bjó Jón Jónsson, ættfaðir Harðabóndaættar. Þaðan er líka Erlendur Guðmundsson vesturfari, sem skrifaði æskuminningar sínar í Heima og heiman. Í Kárahlíð ólst upp Rósberg G. Snædal rithöfundur. Í Mánaskál bjó svo Máni, landnámsmaður dalsins. Bæjaröðin frá suðri er þessi: Kálfárdalur, Þverárdalur, Skyttudalur, Mjóidalur, Gautsdalur, Hvammur, Mörk, Litla-Vatnsskarð, Kárahlíð, Refsstaðir, Grundarkot, Vesturá, Eyrarland, Sneis, Tungubakki, Kirkjuskarð, Núpsöxl, Illugastaðir, Núpur, Úlfagil, Mánaskál, Mýrakot, Balaskarð, Skrapatunga.

Förum frá Skrapatungurétt til austurs fyrir sunnan Tunguhnjúk að Balaskarði í Laxárdal. Síðan suður eftir Laxárdal endilöngum. Fyrst suðsuðaustur um Mánaskál að Kirkjuskarði. Við förum suðsuðaustur Laxárdal að Refsstöðum. Áfram suðaustur Laxárdal að Litla-Vatnsskarði. Enn förum við suður Laxárdal að Gautsdal. Áfram suðaustur Laxárdal í Þverárdal, þar sem Laxárdalur endar í suðri. Frá Þverárdal förum við um Þverárdal suður í Bólstaðarhlíð í Svartárdal.

31,1 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Geitaskarð, Strjúgsskarð, Auðólfsstaðaskarð, Stóra-Vatnsskarð, Reykjaskarð, Litla-Vatnsskarð, Kirkjuskarð, Balaskarð, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Langihryggur

Frá Hvammstanga í Miðfirði um Langahrygg að Breiðabólstað í Hópi.

Förum frá Hvammstanga norðaustur um Laufás og Helguhvamm upp á Káraborg. Þaðan austur Langahrygg og Fossgil, austur meðfram Grundará í Heydal, niður að Breiðabólstað.

15,4 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Borgarvirki.
Nálægar leiðir: Kattarrófa.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort