Skagfirðingavegur

Frá Skammá við Arnarvatn að Kjalvegi við Áfanga suðvestan Blöndulóns.

Skagfirðingavegur lá upp frá Gilhaga í Skagafirði. Skreiðarferðir fóru Skagfirðingar suður Stórasand. Í Mælifellshnúk er stór fönn í hestlíki lengi fram eftir vori. Þegar hesturinn var rofinn um bóg töldu menn óhætt að ríða Skagfirðingaveg um Stórasand. Í Ferðabók sinni (1791-1797) nefnir Sveinn Pálsson ferð um Stórasand 2. október. Þeir hrepptu storm og hrakviðri, enda var snjór nýleystur. Hestarnir sukku í aurbleytu næstum upp í hné. Þeir höfðu lagt af stað kl.11 um morguninn en kl. hálf níu um kvöldið voru þeir komnir í Tjaldhól við Skammá sem rennur í Arnarvatn mikla. Rokið var svo mikið, að þeir gátu með engu móti tjaldað. Þess í stað notuðu þeir tjaldið fyrir ábreiðu, en voru að öðru leyti óvarðir fyrir regni og stormi. Þetta veður hélzt alla nóttina. Við Skammá orti Jónas Hallgrímsson: “Og undir Norðurásnum / er ofurlítil tó / og lækur líður þar niður / um lágan hvannamó.”

Förum frá Skammá austnorðaustur slóð um Stórasand, fyrst fyrir norðan Bláfell, þar sem við komum að fornum Ólafsvörðum, sem hlaðnar voru sér til hita af Ólafi biskup Hjaltasyni og mönnum hans um miðja sextándu öld. Áfram höldum við austnorðaustur um Beinakerlingu að Grettishæðarvatni og síðan að Grettishæð. Þar greinast leiðir. Okkar leið liggur norðaustur Skagfirðingaveg. Við förum til norðausturs fyrir sunnan Svínafell og norðaustur um Öldur, sem sagðar eru átján talsins eins og segir í vísuhelmingnum: “Átján öldur undir Sand / eru frá Sauðafelli”. Síðan norður fyrir Sauðafell að reiðslóð, sem liggur stutta leið norður að fjallaskálanum Áfanga. Hin forni Skagfirðingavegur lá síðan áfram austur yfir, þar sem nú er suðurendi Blöndulóns og sameinaðist Kjalvegi við Galtará.

34,5 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Áfangi: N65 08.951 W19 43.744.

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell, Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Bláfell, Sandkúlufell.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort