Núpdælagötur 2

Frá Efra-Núpi í Núpsdal í Miðfirði að Norðlingafljóti í Borgarfirði.

Árið 1242 fór Kolbeinn ungi með 600 manna lið um Núpdælagötur til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda niður Hvítársíðu og fara yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn varð því að fara tvisvar yfir Hvítá og tafðist við það. Og missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hér er lýst krókóttari leið, sem betur er fær að sumri.

Frá Efra-Núpi eru til tvær leiðir, sem kallaðar eru Núpdælagötur. Hér er leiðin, sem Þorsteinn Þorsteinsson lýsir í Árbók FÍ 1962: Við förum frá Efra-Núpi fram dalinn með Núpsá að austanverðu. Vestur frá Kvíslavötnum beygjum við þvert til austurs og förum milli Kvíslarvatna. Síðan um Kvíslavatnahæð og fyrir vestan og sunnan Þorvaldsvatn að Halldórshóli. Síðan suðsuðaustur í stefnu á miðjan Eiríksjökul, yfir Syðri-Kvísl vestan Hólmavatns. Sveigjum smám saman meira í vestur frá suðri, förum yfir Leggjabrjót. Síðan fyrir suðaustan Ketilvatn og þá til suðurs yfir Hraungarða og um Merkjastein. Næst förum við yfir jeppaslóð að Urðhæðarvatni, sem er vestan við okkur. Við förum suður að Úlfsvatni og vestur fyrir það og síðan suður um Silungslækjarsund og kargaþýfðan Hagldamóa og að Einbúa fyrir austan Þorgeirsvatn. Þaðan förum við suður að Núpdælavaði ofan við Bjarnafoss í Norðlingafljóti og upp á veginn á Þorvaldshálsi.

35,0 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Úlfsvatnsskáli: N64 53.880 W20 38.520.

Nálægir ferlar: Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins