Sælingsdalsheiði

Frá Sælingsdalstungu um Sælingsdalsheiði að Staðarhóli í Dölum.

Innst úr Sælingsdal liggur leið um Sælingsdalsheiði niður í Hvammsdal, annars vegar að Múlabæjum og hins vegar að Staðarhóli þar sem Sturla Þórðarson bjó. Þarna er sögusvið Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir bjó að Laugum í Sælingsdal. Í Sælingsdal eru Bollatóftir skammt frá Sælingsdalsá. Þar var Bolli Þorleiksson drepinn í hefndarskyni vegna vígs Kjartans Ólafssonar. Mág-Snorri drukknaði á Snorravaði í Sælingsdalsá. Sighvatur Úlfsson, mágur hans, fór við fimmta mann að leita líksins, en þeir fórust allir í snjóskriðu. Einar Þorgilsson og menn hans flúðu upp heiðina undan Hvamm-Sturlu og mönnum hans árið 1171. Varð orrusta milli þeirra á heiðinni.

Förum frá Sælingsdalstungu norðvestur Sælingsdal um Ránarskriðu og Ránarvelli að bænum Sælingsdal og þaðan til norðvesturs fyrir austan Skálatind. Þar förum við beint norður á Sælingsdalsheiði í 420 metra hæð. Síðan beint norður af heiðinni niður í Víðibotna í Hvammsdal. Áfram norðvestur dalinn, hjá Kjarlaksvöllum og Þverfelli og loks norður í Staðarhól.

17,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Ásólfsgata, Búðardalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag