2. Madrid

Borgarrölt

Plaza de Toros, Madrid 2

Spánn er skagi, sem löngum hefur staðið sér á parti í Evrópu, en samt í þjóðbraut. Fyrir ritöld voru þar gamlar þjóðir vesturevrópskar, svo sem Íberar og Keltar. Grikkir og síðan Karþagó-menn náðu tímabundnum áhrifum, en Rómverjar náðu góðum tökum á skaganum og gerðu að helzta hornsteini ríkis síns, sóttu meira að segja þangað fræga keisara, skáld og heimspekinga.

Plaza Puerta del Sol, Madrid 2

Vegprestur á Plaza Puerta del Sol

Vestgotar komu á þjóðflutningatímanum. Síðan tóku Márar við, héldu völdum í átta aldir, gerðu Spán að menningarmiðstöð íslams og skildu eftir sig djúp spor og minjar. Síðan hefur verið strangkaþólskur tími á Spáni í fimm aldir. Á 16. öld, tíma landafundanna, var Spánn voldugasta ríki heims. Þá dreifðist spönsk tunga um mestan hluta rómönsku Ameríku. Í lok valdaskeiðs Francos fyrir hálfum öðrum áratug var Spánn fátækt og fyrirlitið afturhaldsríki, en hefur með innreið lýðræðis brunað í átt til velsældar.

Spánn er ekki eitt land, heldur mörg lönd. Þungamiðjan er landlokað kastalalandið Kastilía, sem hefur gefið ríkinu aðalsættirnar og tungumálið, sem við köllum spönsku, en aðrir Spánverjar kalla kastilísku. Í suðri er glöð og fátæk Andalúsía með márískum áhrifum frá Afríku. Við Miðjarðarhafið eru dugnaðarlöndin Katalúnía og Valensía með sérstökum tungumálum, sem minna á suðurfrönsku. Í norðri eru Galisía og Euzkadi, sem hvort um sig hafa eigið tungumál. Galisíska minnir á portúgölsku, og euskera, baskatunga, stendur alein út af fyrir sig í heiminum, ein af óleysanlegum gátum veraldarsögunnar.

Næstu skref