Punktar

Lítil og léleg króna

Punktar

Krónan hefur lækkað að undanförnu, af því að hún er lítill gjaldmiðill, sem auðvelt er að tala niður. Hún er dæmigert verkefni fyrir gengisbraskara. Það er þungbært að þurfa að hafa krónu, þegar miklu öruggara væri að nota evru, sem er stór og sterkur gjaldmiðill. Evran mundi líka lækka vexti hér á landi um 2-4 prósentustig. Við stöndum hins vegar gagnvart þeim vanda, að vextir munu hækka hér á landi vegna árása á krónuna og sölu pappíra, sem eru reiknaðir í krónum. Umræða í útlöndum um veikt hagkerfi hér á landi er fyllilega eðlileg. Ríkið ræður ekki við vandann.

Forgangsröð Jóns

Punktar

Forgangsröð að þjónustu kerfisins verður því raunverulegri sem þjónusta þess minnkar og biðlistar lengjast. Það er ekki nóg fyrir Alþingi að lýsa yfir, að forgangsröð ríkra komi ekki til greina. Nú hefur Tryggingastofnun lýst yfir, að vegna mannfæðar taki hana átta mánuði að svara bréfum. Hið pólitíska vald Jóns Kristjánssonar ráðherra hefur neitað stofnuninni um mannafla til að svara bréfum. Þeir, sem eiga fé, geta fengið ýmsa þjónustu í útlöndum eða á einkareknum stofum úti í bæ. Stéttaskipting í aðgangi að þjónustu hins opinbera er þegar orðin að veruleika.

Þyrla upp þoku

Punktar

Nýjasta fréttin af þrælahaldi stórmarkaða er lesendabréf unglings, sem segist ekki hafa fengið að fara á klósettið í fimm daga vegna vinnuhörku hjá Krónunni. Dásamlegt er svar, undirritað af tólf verzlunarstjórum hennar, þar sem þeir bulla um göfug markmið sín og fyrirtækisins, en forðast að taka afstöðu til málsins, sem er til umræðu. Málið fjallar um, hvað þeir gerðu, ekki hvað þeir séu góðviljaðir. Yfirlýsing Krónunnar í klósettmálinu er greinilega framleidd af spunakerlingum, sem reyna að þyrla upp þoku í vondu þrælamáli.

Erfiðir erfðaprinsar

Punktar

Halinn er langur eftir síðari erfðaprins Framsóknarflokksins eins og hinn fyrri. Umboðsmaður Alþingis hefur sagt, að Árni Magnússon, sem til skamms tíma var félagsmálaráðherra, hafi ekki farið að réttri stjórnsýslu við ráðningu ráðuneytisstjóra. Áður voru kunn vandræði hans út af brottrekstri jafnréttisstýru. Ráðherrann hefur nú hætt í pólitík og flúið út í bisness eins og forveri hans, Finnur Ingólfsson, sem áður var erfðaprins flokksins. Halldór Ásgrímsson virðist vera óheppinn í vali erfðaprinsa, þeir verða ekki langlífir í ráðherrastarfi.

Franskur menúett

Punktar

Afrek utanríkisráðherranna Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde í samskiptum þeirra við Bandaríkin út af andláti hersetunnar minna okkur á, að nú verða skemmtilegir tímar í utanríkisþjónustunni. Alls konar ljúfmenni í stétt erlendra utanríkisráðherra munu vilja styðja framboð Halldórs Ásgrímssonar til Öryggisráðsins gegn því að við styðjum hugsjónamál þeirra, svo sem morð og önnur viðskipti. Geir H. Haarde verður fullsaddur af heimsveldi Íslands, áður en hann kemur Halldóri í Ráðið. Það er seintekinn gróði að dansa franskan menúett við diplómata heimsins.

Fjárans spúsan

Punktar

Gaman er að fylgjast með reiði fylgismanna vestrænnar samvinnu út af svikum Bandaríkjanna við göfugan málstað hersetunnar. Mest er gaman að fylgjast með ofsareiði Geirs H. Haarde, sem taldi sig vera að ræða í góðsemi við Condoleezza Rice um framvindu málsins, þegar George W. Bush lét hringja hjónabandið af í einu símtali. Hins vegar segir gömul reynsla, að hættulegt getur verið að refsa leiðinlegri spúsu með því að sturta sér á Goldfinger og fara að hvísla við frönskumælandi súluskvísu. Verst af öllu er þó að láta Morgunblaðið tala við sig um hana.

Grikkir með gjafir

Punktar

Fagurt er af Frökkum að vilja selja okkur hergögn og leiða okkur fyrstu skrefin á braut herveldis. Franska utanríkisráðuneytið brunar á eftir mistökum Bandaríkjanna eins og fátækur lögfræðingur eftir sjúkrabíl. Það er göfugt hlutverk, sem enginn annar sinnir eins vel. Hins vegar gildir sama um franska ráðuneytið og bandaríska lögfræðinginn, að báðir aðilar eru einkum að hugsa um eigin hag. Enginn er færari á því sviði en einmitt gamla og góða Frakkland, hinn nýi ástmögur Geirs H. Haarde. Um það gildir gamla spakmælið: Varaðu þig á Grikkjum með gjafir.

Hvarvetna á flótta

Punktar

Saga síðustu áratuga sýnir, að bandaríski herinn ræður ekkert við þjóðir eða þjóðabrot, sem hafa bein í nefinu. Frægast var, þegar hann hrökklaðist frá Víetnam 1972, en einnig var hann rekinn á flótta frá Líbanon 1983 og frá Sómalíu 1995. Honum gengur illa í Írak og verður senn að fara þaðan án þess að hafa náð árangri. Þótt bandaríski herinn eigi mikið af nýtízkulegum vopnum, er hann gagnslítill til hernáms, enda hagar hann sér þannig, að allir rísa gegn honum. Það eflir öryggi Íslendinga að losna í haust við þennan agalausa her stríðsglæpamanna.

Talíbanar í Afganistan

Punktar

Talíbönum gengur vel í Afganistan, einkum í suðurhlutanum, þar sem eru borgirnar Kandahar og Helmand. Þeir keppa um völd í landinu við herstjóra, sem lifa á ræktun fíkniefna og sölu þeirra til Evrópu. Karzai forseti hangir við völd í hlutum höfuðborgarinnar, Kabúl, verndaður af vestrænu herliði. Ástandið í landinu hefur versnað við langvinnt hernám. Aldagömul reynsla er fyrir því, að vestrænum ríkjum með heimsveldisveiki hefur ekki tekizt að halda völdum í Afganistan. Bretar reyndu, næst Rússar, þá Bandaríkjamenn, sem nú troða vandanum upp á Nató sálugan.

Talíbanar í Pakistan

Punktar

Talíbönum gengur vel í Pakistan, einkum í Warziristan í norðurhluta landsins, þar sem Osama bin Laden fer huldu höfði. Pakistan er þó einræðis- og herstjórnarríki, sem er í bandalagi við Bandaríkin gegn alKaída. Eigi að síður hafa lög Talíbana tekið gili víðs vegar um Warziristan. Þar selja kaupmenn ekki tónlist eða kvikmyndir og rakarar svipta menn ekki skeggi. Þar er búið að sprengja upp ríkisútvarpið og koma upp trúardómstólum, sem dæma alla til hengingar. 70.000 manna herlið ríkisins hefur verið í tvö ár í þessum héruðum, en orðið að láta undan síga.

Leynd um Natófund

Punktar

Forseti Bandaríkjanna og framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins héldu fund í Washington í gær. Halldór Ásgrímsson telur, að þar hafi Bush sagt Scheffer að til stæði að nútímavæða varnir Íslands. Það er auðvitað leyndó, hvernig Bush ætlar að nútímavæða, enda telur hann væntanlega, að það komi Íslandi ekki við, ekki frekar en brottför hersins kom Íslandi við. Úti í heimi eru valdamenn í hermálum að ráðskast einhliða með varnir Íslands án þess að neinn íslenzkur ráðherra komi þar nærri. Því litla, sem ráðherrar vita, halda þeir leyndu fyrir þjóðinni eins lengi og þeir geta.

Fríhöfn á Vellinum

Punktar

Bezta hugmyndin um starfsemi á Keflavíkurvelli eftir brottför hersins er að reyna að setja þar upp fríhöfn án tolla og skatta. Slíkar fríhafnir eru til umhverfis alþjóðlega flugvelli sums staðar í heiminum. Á Keflavíkurvelli er mikið húsnæði fyrir léttan iðnað og þúsundir íbúða fyrir starfsfólk. Ríkið getur haft tekjur af þeim, sem taka íbúðirnar á leigu og notað leiguna til að greiða niður kostnað við flugrekstur. Brottför hersins getur raunar verið gullnáma fyrir búsetu á Suðurnesjum, ef stjórnvöld halda rétt á málum. Sem þau gera sennilega ekki.

Nöfn eru leyndó

Punktar

Allur þorri dóma á síðu Dómstólaráðs er falsaður. Strikuð hafa verið út nöfn dómþola, þar á meðal í nánast öllum ofbeldismálum. Þetta er spor í átt frá gegnsæi, höfuðmarkmiði lýðræðis. Opinberir aðilar feta sig frá lýðræði, eins og það hefur verið skilgreint í stjórnarskrám vestrænna ríkja í rúmar tvær aldir. Í staðinn feta þau sig inn í persónuvernd, þar sem sannleikur er leyndó og dómstólar eru herdómstólar. Í stað upplýsingafrelsis, sem barist var fyrir í byltingum og stjórnarskrám Bandaríkjanna 1787 og Frakklands 1791, er búið til nýtt frelsi dólga til að fá að vera í friði.

Sjö staðföst ríki

Punktar

Gaman er að lesa nýjan lista yfir stuðningsríki Bandaríkjanna. Í kosningu um nýtt mannréttindráð Sameinuðu þjóðanna greiddu 170 ríki atkvæði gegn tillögu Bandaríkjanna, þar á meðal Ísland. Bandaríkin voru aðeins studd af Ísrael, Marshall-eyjum og Palau, en Hvíta-Rússland, Íran og Venezúela sátu hjá. Þessi sjö ríkja hópur viljugra og staðfastra er óneitanlega tættari en hann var, þegar ráðizt var á Írak. Bush er kominn í björgunarbátinn með Ísrael auðvitað, einræðisherranum Lúkasjenkó og trúarofstækismanninum Amedinedjad, svo og tveimur eyjum, sem ekki sjást á kortinu.

Örmerki í gamlingja

Punktar

Örmerki hafa verði sett í aldrað fólk sums staðar í Bandaríkjunum, segir í Observer. Á merkinu er rakin sjúkrasaga þess. Þegar ekið er með aldrað fólk í sjúkrabíl á sjúkrahús má skanna örmerkið, fá þar sjúkrasögu þess og fara með það beint í viðeigandi aðgerð í stað þess að láta það liggja átta tíma aðgerðarlaust á spítalanum með verið er að finna sjúkrasöguna. Örmerkin eru ódýr, kosta nokkur þúsund krónur, og hver skanni kostar innan við 50 þúsund krónur. Þessi örmerki eru ekki sögð valda óþægindum. 80 spítalar hafa þegar tekið þau upp fyrir vestan. Hvenær koma þau hér?