Ferðir

TripAdvisor gagnast

Ferðir

Þegar hundrað gestir hafa sagt frá reynslu sinni af matstað, geturðu örugglega tekið mark á niðurstöðunni. Getur það strax og umsagnirnar eru orðnar fimmtíu. En þú átt ekki að bera saman Friðrik V, Sægreifann, Eld og ís og Svarta kaffið. Þú berð eina ísbúð saman við slíkar, einn hamborgarastað við slíka, einn fínan stað við slíka. Þeir, sem segja frá reynslunni, hafa nefnilega misjafnan smekk. Sumir sækjast eftir ísbúðum eða bakaríum eða kaffistofum, skyndibitastöðum eða fínum veizlusölum. Þú verður að vita, hvað þú sjálfur vilt, til að hafa gagn. Þannig kemur gæðalisti TripAdvisor um veitingar í Reykjavík að góðum notum.

Þráin til útlandsins

Ferðir

Þótt París sé heimsins höfuðprýði, langar mig ekki óviðráðanlega þangað. Þótt þar sé meira að skoða en annars staðar, langar mig ekki að sjá Monu Lisu aftur í Louvre. Það eina, sem ég sakna er Sainte-Chapelle að baki Notre Dame. París hefur auðvitað glás kaffihúsa, þar sem gaman er að hanga. Mig langar meira til Istanbul, því Ægisif er sjálf heimskirkjan og allur gamli Mikligarður heillar. Svo er ekki víst, að borgin endist túristum vegna aukins trúarofsa. Mest langar mig þó til Feneyja. Að vetrarlagi, þegar kalt er úti og hlýtt í kirkjum. Þegar túristunum fækkar, rennur býzanskt hjarta borgarinnar eins og eitur í sálina.

Heimsins höfuðprýði

Ferðir

Þegar ég skrifaði leiðsögubækur fyrir ferðamenn í erlendum stórborgum, setti ég neðri mörkin við einnar viku borgir. Það voru borgir á borð við Kaupmannahöfn og Amsterdam, sem hægt var að kynnast á viku. Ofar komu tveggja vikna borgir, sem mátti kynnast á tveimur vikum, London og New York. Aðeins ein borg taldist mér þriggja vikna borg. Magnaðasta túristaborg heimsins er auðvitað París. Þvermál miðjunnar er fimm kílómetrar. Hlaðnir glæsibrautum og minnisvörðum ýmissa tíma í borgarsögunni. Gat rölt um þessa miðborg á þremur vikum með því að búa á 20 hótelum hér og þar. París er svo sannarlega heimsins höfuðprýði.

Töluðu hátt á Peter’s Place

Ferðir

Góð veitingahús forðast hópa. Séu menn fleiri en sex til borðs aukast líkur á óþægilegum hávaða. Því fleiri því verra. Samkvæmt minni reynslu eru amerískir hópar verstir. Sennilega liggur Bandaríkjamönnum hátt rómur. Það getur verið martröð að sitja hjá slíkum hópi. Sjaldan er þeim þó meinaður aðgangur út á þjóðernið, því að slíkt væri óviðeigandi alhæfing. Samt hef ég lúmskt gaman að vertinum á Peter’s Place í Waterville á vesturströnd Írlands. Hann setti upp skilti, sem bannar aðgengi hávaðasamra hópa amerískra túrista. Ég mun heimsækja hann, þegar leið mín liggur þar um. En viðtökur hafa auðvitað verið misjafnar.

Niðursoðið á fésbók

Ferðir

Ég bloggaði á ferðum mínum um Íran, en komst hvorki á fésbók né tíst vegna ritskoðunar klerkanna. Gat því ekki fengið viðbrögð við efninu. Það getur haft sína galla að loka fyrir athugasemdir í bloggi. Þær fékk ég áður í fésbók. Til að bæta úr skák ætla ég að sáldra inn í fésbókina tilvísun á þessi nokkura daga gömlu blogg. Einkum til að gefa fólki færi á að segja álit sitt undir nafni. Slíkt skiptir mig máli, því að ég les alltaf athugasemdir nafngreindra. Jafnvel þótt ég svari þeim ekki, enda er ekki markmið mitt að vera í ritdeilum. Mér nægir, að allir fái að setja fram sína skoðun á umræðuefninu hverju sinni.

Opinmynntur í Persíu

Ferðir

Íran kom mér á óvart, einkum vestrænt yfirbragð borganna. Tehran rúmar fimmtán milljónir manna. Umferðarþungi bíla er gífurlegur, en rennslið samt tiltölulega gott. Borgir landsins eru vel hirtar, hvarvetna garðar og gróðureyjar við götur og viðhald samgönguæða er gott. Glæsihótel og loftkældar rútur þjóna túristum, sem vilja skoða rústir fortíðar. Allir virðast vera í viðskiptum. Öðrum þræði er þetta samt hallærisríki undir stjórn klerka. Býr við verðlausan gjaldmiðil eins og Ísland og strangt eftirlit með rétttrúnaði. Opinmynntur fór ég víða um Persaveldi á tveimur vikum undir öruggri fararstjórn Jóhönnu Kristjónsdóttur

7. Dorsoduro – Paolo Veronese

Ferðir
Accademia: Veronese, veizla í húsi Levi, Feneyjar

Accademia: Veronese, veizla í húsi Levi

Veronese er þriðji málarinn, sem við ræðum sérstaklega, keppinautur Tintoretto.

Veronese var uppi 1528-1588, einn helzti upphafsmaður svonefnds fægistíls, sem var lokaskeið endurreisnartímans í listum. Hann fæddist í Verona, en vann mest í Feneyjum. Myndir hans eru bjartar og afar litskrúðugar og sumar hverjar risastórar og flóknar, með raunsæjum smáatriðum. Meðal þeirra er Gestaboð í húsi Leví, risastórt málverk í Accademia.

Verk hans má sjá víðar í Feneyjum, meðal annars í hertogahöllinni og safninu í Ca’Rezzonico.

Næstu skref

Sumum fannst Kerið dýrt

Ferðir

Almennt finnst ferðamönnum eðlilegt að það kosti að skoða Ísland, fjalli þeir um það á TripAdvisor. Sumum finnst skrítið að rukkað sé á fimm mínútna Kerið, en frítt sé inn á merkari skoðunarstaði. Benda á, að komast megi hjá greiðslu með því að hunza rukkarann. Fæstir ferðamenn gera sér grein fyrir illindunum í þjóðfélaginu út af gjaldtöku. Halda að hún sé opinbert fyrirbæri. Einmitt þess vegna skilja þeir ekki misræmið. Stjórnvöld þurfa að yfirstíga verkleysi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og skipuleggja málið í heild. Bezt væri að hafa eðlilegan vask í greininni og veita af honum fé til viðhalds ferðamannastaða.

Ferðamenn eru sáttir

Ferðir, Veitingar

Ferðamenn eru almennt sáttir við matreiðslu og gistingu á Íslandi. Í þúsundum ummæla á TripAdvisor er leitun að óánægju. Helzt eru það gistiheimili, sem fá á baukinn, einkum Tunguvegur, Travel Inn og Adam í Reykjavík. Veitingastaðir þykja almennt góðir og sumir frábærir, sérstaklega í Reykjavík. Ferðabransinn laðar fólk að landinu. Það sækist eftir vingjarnlegu viðmóti umfram annað og af því er nóg hér á landi. Fólk er almennt opið gagnvart náunganum og nýtur þess að umgangast útlendinga. Í nánast öllum plássum landsins er í boði matur og gisting, sem ferðamenn hrífast af. Ferðabransinn stendur sig í stykkinu.

Hættulegur viðskiptamáti

Ferðir

Upplýst er, að ævintýralegt verð á hótelherbergjum á landsbyggðinni stafar af darraðardansi hótelhaldara og bókunarþjónusta. Hótelin skuldbinda sig til að halda þremur herbergjum lausum fyrir bókunarþjónustur. Vilja svo ekki standa við það á háannatíma. Bregða á það ráð að snarhækka verðið á þessum síðustu þremur lausu herbergjum. Þannig getur næturgisting rokið í 135.000 krónur í gömlum vinnuskúrum án baðs og annarra þæginda. Þetta er dæmigert klastur, sem hlýtur að hefna sín, þegar ferðamenn tjá sig á vefnum um okrið á Íslandi. Ég hef ekki tekið eftir, að svona vinnubrögð tíðkist í ferðabransanum í Evrópu.

Sexfaldað hótelverð

Ferðir

Kannaði verð á gistingu á landsbyggðinni. Skoðaði til dæmis hótel, er auglýsa á heimasíðu gistingu á 15.000 krónur án sérbaðs. Sum eru á booking.com komin upp í 45.000 krónur og hærra. Eitt rokkaði þrjá daga á tölunum 65.000, 75.000 og 85.000 krónur. Komið upp í verðlag frægra lúxushótela í heimsins dýrustu miðborgum. Samt fullbókuð í sumar sýnist mér. Gætu þess vegna farið næsta ár yfir 200.000 krónur nóttin án baðs. Eitthvað er þarna skrítið. Annað hvort er tvenns konar veruleiki eða milliliður að maka krókinn. Í tölvupósti er mér boðin gisting á 15.000 krónur, booking.com býður mér sömu gistingu á 85.000 krónur. Einhver fórnardýr munu berja í borðið. Þetta er ávísun á málaferli.

Túristar tala saman

Ferðir

Ekkert vit er í að reyna að selja Ísland sem ódýrt ferðamannaland. Helzta atvinna þjóðarinnar þarf að geta veitt góð lífskjör. Hér á að vera dýrt að ferðast, jafnvel þótt súkkulaðikaka í Vogafjósi kosti 1300 krónur. Ferðamenn bera íslenzkt verð ekki saman við verð á sólarströndum. Þeir bera hins vegar saman verð milli staða, til dæmis milli Reykjavíkur og landsbyggðar. Og þeir sjá víða votta fyrir okri í sveitinni. Í Reykjavík eru þó boðin góð hótel og frábær veitingahús, sem leitun er að úti á landi. Á internetinu tala túristar saman og vara hver annan við óhóflegu verðlagi. Vogafjós má því passa sig.

Góður Leirubakki

Ferðir, Veitingar

Leirubakki er vel sett hótel með veitingum nærri fjallvegum um Landmannaleið og Sprengisandsleið. Snyrtileg og einföld gistiherbergi hafa baðherbergi. Þráðlaust netsamband er í móttökusal og setustofu. Við veitingasal er róttækt hannaður sýningarsalur um Heklu, sem gnæfir yfir staðnum. Starfsfólk er afar þægilegt, sérstaklega í matsal og útreiðatúrum. Matur er óvenjulega góður í samanburði við veitingar á landsbyggðinni, frönsk súkkulaðiterta frábær. Verð of hátt eins og við er að búast til sveita og skýrist af of stuttri vertíð ferðaþjónustunnar. Kominn er tími til að létta krónunni af herðum almennings.

Hreinlæti í hávegum

Ferðir, Veitingar

Á Flúðum er lítið þekkt og hreinlegt gistiheimili áfast kaffistofunni Grund, andspænis hótelinu. Þar eru fimm svefnherbergi og tvö baðherbergi. Herbergi nr.1 var lítið og friðsælt, með tágastólum, skreytilist og baðsloppum. Kominn er ný húsfreyja, sem sinnir gestum af sömu alúð og hin fyrri. Morgunverðurinn er meginlands plús safi og jógúrt. Á kvöldin fæst þar indælis grænt salat frá gróðurhúsum staðarins og fyrirtaks lambakjöt. Í stað þess að fara á barinn er bezt að fara 500 metra í Silfurtún og fá sér fersk jarðarber dagsins, himnesk með ferskum eða þeyttum rjóma. Herbergi fyrir tvo með morgunmat: 19.000 krónur.

Græðgin er ýkt

Ferðir

Talið um græðgi í ferðabransanum er ýkt, ekki stutt frásögnum túrista. Oftast er talað vel um íslenzka verta í hótelum, matarhúsum og ferðaþjónustu. Fólki finnst gisting og matur að vísu dýr, en þá á sama hátt og sum lönd eru talin dýrari en önnur. Túristar skilgreina það ekki sem græðgi, bara merki um lífskjör á staðnum. Örfáir vekja athygli fyrir græðgi, til dæmis landeigendur við Geysi, en þeir eru ekki taldir dæmigerðir. Græðgi í ferðabransanum lýsir sér ekki í umgengni við túrista, fremur í svikum undan vaski. Ferðabransinn í heild á auðvelt með að umgangast fólk og á að geta staðið undir góðum launum.