Kiljan bjargar mér

Ferðir, Veitingar

Loks hef ég fundið gistingu við þjóðveg 1, sem sker Þingeyjarsýslur-Reykjavík í tvær dagleiðir. Blönduós hefur hingað til ekki verið frægt fyrir ferðaþjónustu. Hótel Kiljan bjargar öllu á sjávarkambinum í gamla þorpinu vestan brúar. Er komið yfir í tvö hús og á leið í það þriðja. Hvílíkur munur frá gamla og fúna Hótel Blönduós. Hér brakar í gömlu húsi, herbergi einföld og ódýr, matur fyrsta flokks. Yolanda hin pólska er allt í öllu, mjög leikin í pönnusteikingu. Ýmis fiskur eða kjöt með brúnuðum kartöflum á beði af léttsteiktu grænmeti, á ljúfu verði. Kaka úr eplareimum einstök í sinni röð. Morgunmatur til fyrirmyndar. Gisting, kvöld- og morgunmatur fyrir tvo á 22 þúsund kr.