1. Padova

Borgarrölt

Padova

Fyrsti áfanginn, til Padova, er 42 km.

Gamall háskólabær með fjörlegri borgarmiðju, einkum að morgni dags á markaðstorginu Piazza delle Erbe við Palazzo della Ragione. Í nágrenni þess eru ýmsar sögufrægar byggingar, svo sem Battistero við dómkirkjuna og hallirnar Corte Capitano og Loggia della Gran Guardia. Önnur torg á þessu svæði eru Piazza dei Frutti og Piazza dei Signori.

Caffé Pedrocchi er einnig í þessari gömlu borgarmiðju, miðstöð menningarvita. Stúdentar setja mikinn svip á miðbæinn, enda er háskólinn sá annar elzti á Ítalíu, stofnaður 1222. Í miðbænum er fullt af kaffihúsum, veitingastofum og sérverzlunum með mat.

Við leggjum bílnum á bílageymslusvæði við Via Gaspare Gozzi rétt við norðausturhorn umferðarhringsins um miðborgina. Stæðið er í króknum milli Via Trieste og skurðarins Giotto Popolo og verður tæpast nær miðbænum komizt með góðu móti. 

Giardini dell’Arena

Þaðan göngum við á brú yfir skurðinn inn í miðbæinn og verður þá strax fyrir okkur lystigarður borgarinnar á vinstri hönd.

Leifum gamla borgarmúrsins hefur á þessum hluta verið breytt í lystigarð, sem nær frá borgarskurðinum upp að Cappella degli Scrovegni og Museo Civico Eremitani. Þar er til sýnis nýtízkulegur skúlptúr.

Þegar við vorum þar síðast, var La Foresta di Birnam (sbr. Macbeth eftir Shakespeare) eftir Pino Castagna beint fyrir framan Cappella degli Scrovegni.

Cappella degli Scrovegni, Padova

Cappella degli Scrovegni

Cappella degli Scrovegni

Til þess að komast inn í kapelluna þurfum við að fara inn um innganginn að safninu, sem er í suðvesturhorni garðsins.

Reist 1303 í rómönskum stíl til sáluhjálpar okrara að nafni Scrovegni, einn geimur að innanverðu, allur þakinn steinmálverkum eftir Giotto, máluðum 1303-1305. Bezt er að skoða kapelluna að morgni dags, þegar farþegarúturnar eru enn ekki komnar.

Giotto var fyrsti afburða listmálari Ítalíu, merkisberi hins líflega gotneska stíls, þegar hann tók við af hinum stirða býzanska stíl í upphafi fjórtándu aldar. Hann var fátækur bóndasonur, en varð snemma mikilvirkur í starfi og miðpunktur í hópi ítalskra menningarvita þess tíma. Málverkin í þessari kapellu eru það, sem bezt hefur varðveitzt af verkum hans.

Málverkin í kapellunni eru á fjórum hæðum. Í neðstu röð eru myndir, sem sýna dyggðir og lesti. Síðan koma tvær raðir með myndum af lífi og dauða Krists. Efst er röð mynda úr lífi Maríu meyjar. Innan á kapellustafni er risamynd af dómsdegi og er hún nær býzanska stílnum en hinar.

Museo Civico Eremitani

Við skoðum næst söfnin við kapelluna.

Í klaustrinu við hlið kapellunnar eru nokkur söfn, svo sem fornminjasafn, myntsafn og listasögusafn. Klausturhúsin eru frá 1276-1306.

Merkasti hluti fornminjasafnsins er grafhýsi Volumni-ættar frá 1. öld. Þar eru líka steinfellumyndir frá rómverskum tíma. Í myntsafninu er nánast heilt safn feneyskrar myntar. Listasögusafnið er í mótun og á að sýna þróun myndlistar Feneyjasvæðisins. Verk eftir Giotto skipa þar virðingarsess

Næstu skref