A. Feneyjar

Borgarrölt, Feneyjar
San Marco & Palazzo Ducale, Feneyjar 5

San Marco & Palazzo Ducale

Feneyjar eru einstæðar. Helzta umferðaræðin er stórfljót með röðum glæsihalla á bakkanum. Bátar eru farartæki allra vöruflutninga og almenningssamgangna. Að öðru leyti er umferðin fótgangandi. Engin hávaða- eða loftmengun er frá bílum, sem engir eru. Hressandi sjávarloftið í borginni fyllist ölduniði náttúrunnar og orðaniði mannlífsins. Streita nútímans á hér hvergi heima.

Þótt borgin sé orðin að safni um stórveldistíma liðinna alda, búa þar enn tugir þúsunda, um helmingur af því, sem mest var. Annað eins kemur af fólki af landi til starfa á morgnana og hverfur heim til sín á kvöldin. Þar við bætast ferðamennirnir. Feneyjar eru lifandi borg, þótt henni hafi hnignað á síðustu öldum. En hún er ekki fjörug, heldur bæði morgunsvæf og kvöldsvæf.

Borgin er samfellt listaverk og samfelld listasaga. Hver kirkja er full af dýrgripum gömlu meistaranna. Sumar gömlu hallirnar eru orðnar að listasöfnum og önnur að hótelum. Hún er full af veitingahúsum, sem bjóða gott sjávarfang úr Adríahafi. Hún er full af bátum, allt frá einærum gondólum yfir í hraðskreiða leigubáta. Hún er menningarsinnuðum ferðamanni samfelld slökun.

Sjá meira