SDG hvílist eftir ekkert

Punktar

Sigmundur Davíð hvílist á Florida eftir fimm mánaða ráðherradóm. Hefur samt ekkert gert til að þurfa að hvílast. Allt, sem ríkisstjórnin hefur gert, er frá Sjálfstæðisflokknum komið. Snöggt var afgreidd aðstoð við fjárhaldsmenn flokkanna. Kvótagreifar fengu gefna eftir auðlindarentu. Auðgreifar fengu gefinn eftir auðlegðarskatt. Svo datt allt í dúnalogn og hefur síðan verið svo. Formenn stjórnarflokkanna tala út og suður um gildi skjala og túlkun orða og dagsetninga. Minni spámenn flagga óskhyggju um að sparka í aumingja. En forsætis er ekki gefinn fyrir vinnu og þarf að hvílast eftir ekki neitt.

Hirðmatreiðsla soldána

Ferðir, Veitingar

Tyrkir mikla fyrir sér hirðmatreiðslu soldánanna sálugu. Eins og Kínverjar lofa matreiðslu mandarína. Samt er ekki nema ein matreiðsla í heiminum, sem þolir samjöfnuð við franska matreiðslu. Það er sú japanska. Í Miklagarði eru rúmlega 10.000 veitingahús nefnd í TripAdvisor. Nóg er þar af góðum stöðum og margir bjóða hirðmatreiðslu ottómana. Mér finnst hún la-la, kryddlegið grænmeti í olíu, innbakstur í vínviðarlaufi, ofnmaukað kjöt í leirpotti, sykurhlaup í eftirrétt. Grillaður matur er þó góður, svo sem lambakjöt, betra en heima. Og hrásalöt geta verið fín. En eftirréttirnir eru dísætir.

Öld sætabrauðsdrengjanna

Punktar

Gegn vilja flokkseigenda studdi meirihluti þingmanna repúblikana teboðið í kosningu um gíslingu fjárlaganna. Harkan í teboðinu ómaði víða um heim. Hér á landi eru sumir sjálfstæðismenn á þeirri línu. Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi vill hætta að hossa atvinnulausum og öðrum aumingjum. Sumir framsóknarmenn eru þarna, samanber Sigurð Inga Jóhannsson. Ráðherrann trúir brauðmolastefnu Hannesar Hólmsteins um að hossa kvótagreifum, því molar af borði þeirra sáldrist til aumingja. Stingur í stúf við velferðarstefnu allra flokkanna. En nú er risin ný öld sætabrauðsdrengja og silfurskeiðunga.

Teboðið rotaðist ekki

Punktar

Teboðið fékk 144 atkvæði í fulltrúadeildinni, er 87 repúblikanar samþykktu að aflétta gíslingu bandarísku fjárlaganna. Flokkurinn er klofinn í teboð og umboðsmenn stórfyrirtækja, sem vilja frið til að þéna peninga. Teboðið gekk of langt að mati þeirra, sem eiga þjóðfélagið og vilja ekki rústa því. En það er teboðið, er seiddi þingmenn í fyrsta skipti sem þeir skorast undan hefðbundinni þjónustu við auðmagnið. Teboðið er eina öfluga hugsjónin, sem lifir í bandarískri pólitík. Allt annað er bara “business as usual”. Hægri öfgar bandarískra hugsjóna töpuðu slag, en hafa ekki sagt sitt síðasta.

Óvinnandi vígi

Ferðir

Murinn

Austrómversku eða grísku keisararnir í Miklagarði vildu gera höfuðborg heims okkar að óvinnandi vígi. Tvisvar féll hún þó, í fyrra skiptið fyrir herjum Feneyinga og krossfara 1205. Þeir klifu múrinn, þar sem hann kemur í sjó fram við Marmarahaf. Eftir það var múrinn stórefldur og gerður að mesta vígi heims, 6,6 km langur. Hann varð ekki klifinn, þegar Tyrkir hertóku borgina 1453. Þeir drógu skip sín á trjábolum úr Sæviðarsundi yfir Galata niður í Gullna hornið, sem lokað hafði verið með risakeðju. Sóttu þaðan að borginni, þar sem varnir voru veigalitlar. Múrinn voldugi stendur enn að miklu leyti.

 

Hagsmunir í fjölmiðlum

Punktar

Blaðamenn eru ekki verri nú en þeir voru áður, en margir hafa minni reynslu. Stafar meðal annars af harðari kaupsýslu fjölmiðla, sem hafa losað sig við reynda og dýra blaðamenn. Ráðið óreyndari og ódýrari í staðinn. Verra er, að afkastakröfur eru orðnar þvílíkar, að ekki er rúm til að leita staðfestinga. Þær eru þó kjarni blaðamennsku. Því flæða fréttatilkynningar inn í fréttir, kannski með nýjum haus og breyttri textaröð. Hráefnið semja almannatenglar stjórnmála, stofnana, félaga og einkum þó fyrirtækja. Afleiðingin er, að fjölmiðlar endurspegla einkum hagsmuni. Þetta er kaupsýsluvæðing fjölmiðla.

Rúnaristur væringja

Ferðir

Á marmarahandriði innansvala Ægisifjar í Miklagarði eru norrænar rúnaristur. Þær eru fámæltar, önnur segir “Hálfdan var hér” og hin segir “Ari var hér”. Væringjum í lífverði keisarans hefur leiðst að hlýða messu í höfuðkirkju grísks rétttrúnaðar. Meira leiddist væringjum í Píreus, þegar þeir ristu á makka marmaraljóns: “Ásmundur risti þessar rúnir með Ásgeiri og Þorleifi að ósk Haralds háa, þótt Grikkir hafi bannað það. Þessir menn og Haraldur hái lögðu háar sektir á Grikki vegna uppreisnar. Dálkur er fanginn í fjarlægum löndum og Egill er í herferð með Ragnari til Rúmeníu og Armeníu.” Ljónið er nú við inngang skipasmíðastöðvar Feneyjaflotans. Mannkynssaga í hnotskurn.

VenetianLion Hagia-Sofia

Fleiri rannsóknir gleðja

Punktar

Frábært er, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa skipt um skoðun á gagnsemi rannsóknarnefnda. Vilja nú setja af stað nefnd til að rannsaka IceSave. Það er fínt. Vonandi verður Geir ekki dæmdur í annað sinn. Núna fyrir loforðin þungbæru, sem sigldu okkur inn í IceSave. Þar á ofan mun flokkurinn auðvitað hætta þvergirðingi gegn rannsókninni á einkavinavæðingu Davíðs á bönkunum. Sú rannsókn hefur of lengi legið í salti. Tillaga þingmanna flokksins er lóð á vogarskál aukins eftirlits, aukinna rannsókna og málaferla gegn liðónýtum Geirum og Davíðum. Þetta er dramatísk stefnubreyting; guð láti gott á vita.

Miðpunkturinn Ægisif

Ferðir

Ægisif

Ægisif er miðpunktur okkar, merkasta og fegursta mannvirki mannkyns. Hefur staðið í miðjum Miklagarði í 1500 ár. Reist af Jústíníanusi keisara og var í þúsund ár stærsta kirkja heims. Síðan var hún moska og hefur verið safn í 80 ár, nýlega uppgerð. Fyrirmynd allra rétttrúnaðarkirkja og moska. Hvolfþakið er meistaraverk burðarþols, virðist svífa eins og sjálft himinhvolfið. Hefur samt staðið af sér tíða jarðskjálfta. Með minjum kristni og íslams er hún enn skurðpunktur öflugustu trúarbragða heims. Mikligarður var í þúsund ár stærsta heimsborgin. Þar yfir sögufrægu Sæviðarsundi gnæfir voldug Ægisif.

 

 

 

Ónothæfur sendiherra

Punktar

Menn deila um, hvort rétt sé að láta lélega pólitíkusa bera aðra ábyrgð en pólitíska. Geir H. Haarde er dæmi. Hélt illa á innreið Íslands í bankahrun. Hafði ekki lögmæta fundi og hélt hruni leyndu fyrir samráðherrum, meðan hann laug að þjóðinni. Sumir segja, að nóg hafi verið að refsa honum pólitískt, en dómsmál hafi verið ofkeyrð refsing. Ófært er samt, að hann sé skipaður sendiherra ríkisins, jafnvel þótt í Bandaríkjunum sé. Slíkt mundi jafngilda yfirlýsingu um, að Íslendingar væru ekki siðferðilega í lagi. Mundu Ítalir gera Berlusconi að sendiherra í Washington? Við skuldum Geir enga vegtyllu.

Kjötvinnslan er röng

Veitingar

IMG_0070

Íslenzka lambakjötið er ekki bezt í heimi. Betra er lambakjöt landanna við Miðjarðarhafið, svo sem á Spáni, í Marokkó og Tyrklandi. Fékkst enn staðfest á Imbat og Aloran í Miklagarði í gær. Munurinn felst held ég í færibanda-hraðverkun sláturhúsanna á Íslandi. Hún gerir kjötið grautarlegt, einkum við ofeldun. Lækkun tilkostnaðar kemur niður á gæðunum. Enda öllu miðstýrt af stofnunum, sem halda utan um vinnslu búvöru. Ísland er aftarlega á merinni í flestri búvöru. Lífræn ræktun er til dæmis ekki teljandi, vegna andstöðu Bændasamtakanna. Þau hamast gegn vottun þriðja aðila, sem þau fá ekki stýrt.

 

Treysta ekki Íslandi

Punktar

Frá hruninu telja útlendingar, að Íslendingar séu þjófar og ræningjar. Við sitjum uppi með afrek Davíðs og Geirs, bankstera og víkinga. Treysta ekki Íslandi. Lagast ekkert, meðan forsætis hótar að gera krónueignir útlendinga upptækar. Enn síður er gagn í að fara til London og segja útlendum að koma með meira fé. Þeir flissa bara að Sigmundi Davíð. Hér heima getur hann klætt rugl sitt í þjóðrembu um litla Ísland og vonda útland. Stuðningsmenn gína við því og segja efasemdarmenn vera óvini, sem hati Ísland. Úr þessu verður auðvitað bara meira rugl. Þjóðremban býr hér til ólæknandi handónýtt Ísland.

Topkapi og Alhambra

Ferðir

.Bókasafnið í Topkapi

Hallir í heimi múslima bera af höllum í heimi kristinna. Víða í Evrópu minna konungshallir á íbúðablokkir, svo sem í Madrid, þar sem eru 2.800 herbergi. Þetta eru steinklumpar. Í Alhambra og Topkapi eru hallir hins vegar smáhýsi í garði, oft með bunulækjum. Í Topkapi eru sérhús bókasafns, fundarsalar, eldhúss, móttöku sendiherra og svo framvegis. Á milli eru fallegir garðar. Sonum eyðimerkurinnar þótti meira koma til gróðurs og vatnslinda heldur en grjóthauga. Í Japan eru hallirnar líka litlar í stórum garði. Hvorki hjá Japönum né múslimum tíðkast að fylla húsakynni sín með alls konar dóti.

 

Sumir geta ekki greitt

Punktar

Okkur er sagt, að unnt sé að hækka laun lækna með útivistun heilsuþjónustu til einkastöðva. Þýðir, að kostnaður þjónustunnar eykst, en ríkið vill ekki greiða viðbótina. Sjúklingurinn borgar mismuninn, samanber tannlækningar. Snýst ekki bara um að geta keypt sig fram fyrir í röðinni. Snýst fremur um, að sumir hafa ráð á þessum mismun, en aðrir ekki. Aukinn einkarekstur færir heilsukerfi okkar nær Bandaríkjunum. Þar er kerfið tvöfalt dýrara en hér og nær þó bara til helmings þjóðarinnar. Þetta er hluti mikillar og vaxandi stéttaskiptingar þar vestra og mun fljótt stuðla að svipaðri hörmung hér.

 

Hrun markaðshyggjunnar

Punktar

Ríki mestrar markaðsvæðingar eru Bandaríkin og Bretland. Á báðum stöðum er allur þorri auðs kominn í hendur sárafárra. Á báðum stöðum er hreyfing fólks milli stétta frosin. Ríki misskiptingar og fastrar stéttaskiptingar. Enda hafa jarðskjálftar í fjármálaheiminum sýnt, að fræði markaðshyggjurnar eru hrein trúarbrögð. Svo sem að lægri skattprósenta leiði til meiri skatttekna. Að velgengni ríkra sáldrist niður til fátækra. Að markaðir hafi sjálfvirka hæfni til að rétta sig af. Að óheftur markaður leiði til sigurgöngu þeirra, sem bjóða beztu vöru og þjónustu á lægsta verði. Allt reyndist þetta bull.