11. Miðbær vestri – San Ivo

Borgarrölt

San Ivo

San Ivo, Roma

San Ivo

Við göngum til baka að framhlið Palazzo Madama og suður eftir Corso del Rinascimento, þar sem við komum vinstra megin að Palazzo della Sapienza, sem var háskóli Rómar fram til 1935. Við förum inn í háskólaportið til að skoða háskólakirkjuna San Ivo, mesta meistaraverk Borrominis, í ávölum og íhvolfum línum hans, frá 1642-1660.

Kirkjan er hönnuð til að falla inn í sund á milli tveggja húsa. Kirkjan hefur íhvolfa framhlið á grunni, sem er eins og sexarma stjarna, og hún hefur sexlaufahvolf undir spíralturni. Flóknari gátu byggingar hlaðstíls tæpast orðið og er þetta þó lítil kirkja.

Við förum úr háskólaportinu, beygjum til vinstri eftir Corso del Rinascimento, aftur til vinstri eftir Via dei Sediari, framhjá veitingahúsinu Papà Giovanni, og síðan enn til vinstri inn á Piazza Sant’Eustachio. Þaðan er gott útsýni til hvolfsins á San Ivo og þar er þekkt kaffihús, Sant’Eustachio.

Næstu skref

10. Miðbær vestri – Piazza Navona

Borgarrölt

Piazza Navona

Við förum til baka meðfram kirkjunni og beygjum til hægri inn í Via della Pace og beint í framhaldi af henni eftir Via dei Lorensi inn á torgið Piazza Navona.

Rétt norðan við torgið, við Via Zanardelli 14, er veitingahúsið Passetto.

Torgið er í laginu eins og Circus Agonalis, íþrótta- og veðhlaupavöllur Dominitianusar keisara, sem var lagður hér á Campus Martius árið 86. Þá fóru hér fram frjálsar íþróttir og glíma, auk veðhlaupa. Constantinus keisari lét ræna marmara vallarins árið 356. Bardagasýningar riddara voru síðan háðar hér fram á 17. öld. 1477-1869 var grænmetismarkaður borgarinnar á torginu.

Nú er þetta einn helzti ferðamannastaður borgarinnar, enda er banni við bílaumferð framfylgt hér, þótt það sé ekki gert annars staðar í miðbænum. Hér sitja málarar og bjóða vegfarendum verk sín. Hér eru tvö þekkt kaffihús andspænis hvort öðru, Tre Scalini og Colombia. Hinu fyrra má ekki rugla saman við samnefnt veitingahús.

Á miðju torgi er hinn frægi Fjórfljótabrunnur í hlaðstíl frá 1651 eftir Bernini. Fjórar mannsmyndir, sem tákna höfuðfljótin Dóná, Níl, Ganges og Plate, eru í kringum helli, sem ber uppi rómverskan einsteinung frá tíma Dominitianusar.

Við enda torgsins eru Márabrunnur að sunnanverðu og Neptunusarbrunnur að norðanverðu. Við sunnanverða vesturhlið torgsins er Palazzo Pamphili, hönnuð af Rainaldi 1644.

S. Agnese & Fontana dei Fiumi, Roma

Sant’Agnese in Agone & Fontana dei Fiumi, Piazza Navona

Sant’Agnese in Agone

Fyrir miðju torgi er hlaðstílskirkjan Sant’Agnese in Agone, eitt þekktasta verk Borrominis, byggð að mestu 1652-1657. Hann gerði hvolfþakið og framhliðina, þar sem fram kemur blanda af ávölum og íhvolfum línum, en að öðru leyti er kirkjan meira hlaðin skrauti en hann hafði gert ráð fyrir. Kirkjan er einkar skrúðbúin að innanverðu.

Palazzo Madama

Frá miðju torgi, þar sem er kaffihúsið Colombia, göngum við eftir Calle Agonale til Corso del Rinascimento, þar sem Palazzo Madama gnæfir andspænis okkur, reist á 16. öld fyrir Medici-ættina og hýsir nú öldungadeild ítalska þingsins. Hin glæsilega framhlið, sem nýlega var gerð upp, er frá 1649.

Ef við förum vinstra megin meðfram höllinni, komum við að torgi, þar sem San Luigi dei Francesi er á vinstri hönd. Í kirkjunni, sem var byggð 1518-1589, eru málverk eftir Caravaggio og freskur eftir Domenichino.

Næstu skref

9. Miðbær vestri – Santa Maria della Pace

Borgarrölt

Santa Maria della Pace

Santa Maria della Pace, Roma

Santa Maria della Pace

Við beygjum til hægri inn í Vicolo della Volpe. Við komum þar strax að klaustri við kirkjuna Santa Maria della Pace. Þar er tveggja hæða klausturgarður eftir Bramante frá 1500-1504 með gullinsniði í súlnaskipan. Á neðri hæð eru jónískar veggsúlur á bogastoðum, líkt því sem er á Colosseum. Á efri hæð eru kórinþusúlur með grönnum deilisúlum á milli.

Við göngum nokkur skref áfram eftir Vicolo
della Volpe, förum fyrir afturenda Santa Maria della Pace og beygjum meðfram henni til hægri til að komast framan að þessari litlu og vel földu kirkju.

Pietro da Cortona reisti 1656-1657 þessa framhlið í hlaðstíl á eldri kirkju og hannaði raunar líka friðsælt kirkjutorgið, þar sem gert var ráð fyrir fyrsta einstefnuakstri sögunnar, á hestvögnum, sem fluttu aðalsfólk til kirkju. Hann notaði æðóttan kalkstein í framhliðina, eins og Rómverjar gerðu að fornu. Súlnarið framhliðarinnar er hálfhringlaga með íhvolfum vængjum. Þessi form hafa víða verið stæld, svo sem í hliðardyraveröndum Pálskirkju í London. Gaflaðið er í senn þríhyrnt og sveigt.

Að innan er kirkjan frá 15. öld, með stuttu kirkjuskipi og átthyrndu miðhvolfi. Í fyrstu kapellunni hægra megin eru Síbyllur Rafaels frá 1514. Í fyrstu kapellunni vinstra megin er freska eftir Peruzzi. Yfir altari eftir Carlo Maderno er fræg mynd af Madonna della Pace.

Næstu skref

8. Miðbær vestri – Via dei Coronari

Borgarrölt

Via dei Coronari

Via dei Coronari, Roma

Via dei Coronari

Við förum inn með hlið Oratorio dei Filippini eftir Via dei Filippini til torgsins Piazza dell’Orlogio. Á afturhorni hallarinnar er veggskreyting með englum prýddri Madonnumynd, í líkingu við það, sem víða sést á götum í Róm. Yfir henni er klukkuturn á höllinni.

Frá Piazza dell’Orlogio förum við eftir Via dei Banchi Nuovi og Via Banco di Santo Spirito, eftir samnefndum páfabanka, sem var í hneykslisfréttum fyrir fáum árum. Hér var bankahverfi Rómar á endurreisnartíma.

Þegar við komum að Vicolo del Curato, beygjum við þá götu til hægri og síðan í beinu framhaldi af henni inn Via dei Coronari, sem við göngum nærri því á enda.

Þetta er aðalgata forngripasala í Róm, þétt skipuð smáhöllum og smábúðum, með nokkrum smátorgum á stangli.

Næstu skref

7. Miðbær vestri – Oratoria dei Filippini

Borgarrölt

Oratoria dei Filippini

Chiese Nuova & Oratoria dei Filippini, Roma

Chiesa Nuova til hægri & Oratoria dei Filippini

Við göngum áfram eftir Via del Governo Vecchio, framhjá handverksbúðum og forngripaverzlunum, til Via della Chiesa Nuova, þar
sem við beygjum til vinstri út á torgið fyrir framan Chiesa Nuova.

Chiesa Nuova var reist 1575-1647 í hlaðstíl. Hún er afar skrautleg að innan, samkvæmt hönnun Pietro da Cortona. Hvelfingar miðskips, miðhvolfs og kórs eru þaktar freskum. Englamyndirnar við altarið eru eftir Rubens.

Við hliðina á Chiesa Nuova er Oratorio dei Filippini, hannað og byggt af Borromini 1637-1650, eitt af helztu meistaraverkum hans. Útlitið er samræmt kirkjunni, en til viðbótar gerði hann framhliðina íhvolfa, með hvelfdum og íhvolfum byggingarþáttum, sem hann var frægur fyrir. Þetta er einn hápunktanna í sögu hlaðstíls.

Næstu skref

6. Miðbær vestri – Piazza di Pasquino

Borgarrölt

Piazza di Pasquino

Pasquino, Roma

Pasquino

Við snúum til baka eftir Corso Vittorio Emanuele II, framhjá sveigðri framhlið Palazzo Massimo, frá 1527-1536 eftir Baldassarre Peruzzi, að torginu Piazza San Pantaleo, þar sem Palazzo Braschi er við enda torgsins, þar sem Rómarsafn er til húsa.

Héðan eru aðeins nokkrir metrar inn að Piazza Navona og við getum vel skotizt eftir Via Cuccagna til að líta á torgið. Að öðrum kosti förum við frá torginu eftir Via di San Pantaleo til Piazza di Pasquino. Þar á horninu er illa farin stytta, sem sennilega er frá 3. öld f.Kr.

Almenningur kallaði styttuna Pasquino eftir berorðum skraddara, sem frægur er í Rómarsögu fyrir gróft umtal um fína fólkið. Á nóttunni hengdu menn á styttuna háð og spott, skammir og svívirðingar, áróður og auglýsingar, sem um morguninn fóru eins og eldur í sinu um borgina. Þetta var öldum saman ritfrelsishorn Rómar.

Næstu skref

5. Miðbær vestri – San Andrea della Valle

Borgarrölt
San Andrea della Valle, Roma

San Andrea della Valle

San Andrea della Valle

Frá suðurenda Piazza Campo dei Fiori göngum við eftir Via del Biscione og Via del Paradiso til Corso Vittorio Emanuele II, þar sem við beygjum til hægri. Í sundi út frá Via del Paradiso, við Piazza del Paradiso 65, er veitingahúsið Costanza.

Hér komum við strax að hvítri framhlið San Andrea Della Valle, sem reist var 1591-1665. Fyrsti hönnuðurinn var Carlo Maderno, en hin glæsilega hlaðstíls-framhlið er eftir Carlo Rainaldi, sem tók við af honum. Í stað bókrolluvindinga eru englamyndir látnar tengja neðri og efri hæð framhliðarinnar.

Hvolfþakið eftir Maderno er eitt hið fegursta í borginni og er næststærst þeirra á eftir hvolfi Péturskirkju, málað af Lanfranco.

Við förum yfir götuna framan við kirkjuna og skoðum gosbrunn eftir Maderno.

Næstu skref

Siðblindan í Framsókn

Punktar

Annar borgarfulltrúi Framsóknar segist engan áhuga hafa á stjórnmálum. Enginn vissi, hvað hún var að gera þar. Allir vissu hins vegar, að hinn borgarfulltrúi Framsóknar vildi hindra byggingu mosku við enda Suðurlandsbrautar. Nú er komið í ljós, hvað fyrrnefndi ekki-pólitíkusinn er að gera þarna. Hún er að hjálpa eiginmanni sínum við að sannfæra borgina um að reisa gámablokkir yfir fátæka. Hann er nefnilega umboðsmaður gáma, eins konar mr. Camp Knox. Þetta er algengt hjá Framsókn, siðblindingjar fara þar fram til að efla eigin hagsmuni. Þannig var Óskar Bergsson einu sinni óbeinn og skammlífur fulltrúi verktakans Eyktar.

4. Miðbær vestri – Piazza Campo dei Fiori

Borgarrölt
Piazza Campo di Fiori, Roma

Piazza Campo di Fiori

Piazza Campo dei Fiori

Frá höllinni göngum við til baka út á Farnese-torg, beygjum þar til hægri og förum út af torginu eftir Via dei Corda til Piazza Campo dei Fiori, sem er fjörlegur blóma- og grænmetismarkaður gamla miðbæjarins með þreytulegum húsum í kring. Á miðju torgi er stytta af Giordano Bruno munki, sem var brenndur á báli 1600 fyrir skoðanir sínar um, að jörðin væri ekki miðja alheimsins.

Þetta torg var miðja Rómar á 16. öld. Þar voru borgarhátíðir og aftökur. Þar mæltu menn sér mót og þar voru veitingahúsin, meðal annars krá Vanozzu Catanei, sem átti hin illræmdu systkini Cesare og Lucretia með páfanum Alexander VI Borgia. Kráin er við horn götunnar Vicolo del Gallo. Við suðurenda torgsins er eitt bezta kaffihús Rómar, Om Shanti.

Næstu skref

3. Miðbær vestri – Palazzo Farnese

Borgarrölt

Palazzo Farnese, Roma

Palazzo Farnese

Við göngum meðfram Palazzo Farnese og beygjum til hægri á horninu til að komast út á torgið framan við höllina. Þar á torginu eru tvö risastór steinker úr Caracalla-baðhöllinni. Þeim var rænt þaðan 1626.

Palazzo Farnese er helzta verk Antonio Sangallo yngra, hönnuð 1514. Smíðin hófst 1534 og Michelangelo lauk henni að mestu 1546 og Giacomo della Porta að fullu 1589. Hátíðleg höllin er frístæð og hornrétt og býr yfir miðhúsagarði með bogagöngum og súlnaknippum í rómönskum stíl.

Að utanverðu eru hvorki frístæðar súlur né veggsúlur, heldur láréttir fletir í endurreisnarstíl. Á annarri hæð eru gluggagaflöð til skiptis bogadregin og þríhyrnd, samkvæmt fyrirmynd úr hvolfi Pantheons. Ytra form hallarinnar hefur löngum verið talið fullkomnasta dæmi endurreisnarstíls í Róm.

Palazzo Spada, Roma

Palazzo Spada

Palazzo Spada

Frá Piazza Farnese göngum við samsíða höllinni eftir Via dei Venti að Palazzo Spada, sem reist var 1540, nokkrum árum á eftir Farnese-höll, enda er stíllinn ekki lengur hreinn endurreisnarstíll, heldur sú grein hans, sem kölluð hefur verið fægistíll eða mannerismi. Veggir eru ekki lengur sléttir og strangir, heldur hlaðnir lágmyndum og ýmsu skrauti. Við sjáum við þetta vel í veggjum efri hæða.

Palazzo Spada er safn, sem sýnir muni, sem Spada kardínáli safnaði á 17. öld, og er þeim komið fyrir á sama hátt og í upphafi.

Í sundi rétt við höllina, á Via dell’Arco del Monte 95, er veitingahúsið Il Pianeta Terra.

Næstu skref

 

2. Miðbær vestri – Via Giulia

Borgarrölt
Via Giulia, Roma

Via Giulia

Við göngum frá torginu eftir Via della Lungaretta til Piazza Sonnino, þar sem San Crisogno er á horninu, að grunni til frá 5. öld, en endurbyggð á 12. öld. Við beygjum þar til vinstri og förum framhjá 13. aldar Anguillara-turni, dæmigerðum borgarturni frá miðöldum, áður en við höldum yfir ána Tibur á Garibaldi-brú.

Via Giulia

Fontana del Mascherone, Roma

Fontana del Mascherone

Þegar við erum komin yfir ána, beygjum við til vinstri eftir Lungotevere de Vallati, unz við komum að Piazza Pallotti, þar sem við víkjum inn í göngugötuna Via Giulia, sem er ein af fáum beinum brautum bæjarins. Þetta var ein helzta gata Rómar á endurreisnartímanum, gata fornra kardínálahalla, og hefur hafizt á ný til virðingar í nútímanum, vinsæl gata fornminja- og listaverkasala.

Þegar við komum að garði Farnese-hallar hægra megin, auðþekkjanlegum af klifurjurtum og af 17. aldar göngubrú yfir götuna, er sérkennilegur brunnur, Fontana del Mascherone, á vinstri hönd, andspænis Via del Mascherone, settur upp 1626, en hefur vafalaust verið tekinn ófrjálsri hendi úr einhverri fornbyggingunni.

Næstu skref

B. Menning – Lincoln Center

Borgarrölt, New York

Lincoln Center

Metropolitan Opera, New York

Metropolitan Opera

Alvörutónlistin á Manhattan er stunduð í Lincoln Center syðst í Upper West Side, þar sem nokkrar nýlegar og nýtízkulegar hallir umlykja gosbrunnatorg. Lincoln Center var reist árin 1962-1968 sem eins konar menningarlegt Akrópólis eða Kapítólum í New York til dýrðar tónlistarguðinum, hannað af ýmsum þekktustu arkitektum Bandaríkjanna í virðulegum hásúlnastíl.

Gengið er upp tröppur frá Columbus Avenue inn á torgið. Þar er á vinstri hönd New York State Theater, á hægri hönd Avery Fisher Hall og beint framundan Metropolitan Opera House. Vivian Beaumont Theater og Alice Tully Hall eru að baki Avery Fisher Hall.

Til að vita, hvað er um að vera í Lincoln Center og öðru tónlistarlífi borgarinnar, er bezt að skoða skrá
rnar í vikuritinu New York.

Metropolitan Opera

Óperuhús Metropolitan Opera Company er þungamiðja Lincoln Center og snýr tíu hæða súlum og fimm rómönskum glerbogum að torginu. Inn um gluggana má sjá tvær litskrúðugar lágmyndir eftir Marc Chagall, teppalagt anddyri og virðulegar tröppur.

Met eins og það er kallað tekur 3.788 manns í sæti. Talið er eitt helzta hástigið á ferli óperusöngvara að koma hér fram. Óperutíminn er frá miðjum september til apríl. Hinn hluta ársins hafa aðrir höllina til umráða, einkum balletflokkar á borð við American Ballet Theater og Royal Ballet.

Þegar við vorum síðast í New York bauð Met upp á Valkyrjurnar eftir Wagner, Aida eftir Verdi, Manon Lescaut eftir Puccini og Madama Butterfly eftir sama höfund.

Næstu skref

H. Esplanades – Palais Chaillot

Borgarrölt, París (English)
Palais de Chaillot, Paris

Palais de Chaillot & Jardins du Trocadero

Esplanades

There are some esplanades or green spaces on the Left bank of central Paris in addition to Champs-Élysées and Jardin des Tuileries on the Right bank. There is the Jardin du Luxembourg, the Esplanade and Champs-de-Mars. The last two are the subject of this walk, including such landmarks as Palais Chaillot, Tour Eiffel and the Invalides.

Palais Chaillot

We start at the Trocadero metro station, in front of Palais Chaillot.

The Neoclassic palace was built in 1936-1937 in a Hitler-Stalin version of the style. As it is French it is lighter and milder than other buildings of that megalomaniac period. From the terrace between the two identical parts we see over the garden of Trocadero and the Seine to Tour Eiffel, the fields of Champs-de-Mars and École Militaire. This is the most stunning view in Paris.

From the entrance to the northern half of Chaillot we walk down to one of the largest theatres in France, Théâtre National de Chaillot. The same entrance also leads to the French monument museum and the film museum, Musée du Cinéma Henri Langlois.

From the entrance to the southern half we get to the maritime Musée de la Marine and the ethnological Musée de l’Homme. At the eastern end of the palace we enter Cinémathèque Française where old films are constantly shown to the public, as is done in Palais Beaubourg.

Jardins du Trocadero

We walk down to the Trocadero gardens.

The gardens cover 10 hectares, sloping down to the river Seine, centring on a pool with statues and fountains, which are illuminated in a spectacular way at night. An aquarium is in the left side of the garden. The gardens were laid out in 1937.

Next steps

C. Forna Róm

Borgarrölt, Róm

Fornar rústir

Augustus, Roma

Augustus

Miðborg hinnar fornu Rómar var í lægðinni vestur af hæðinni Capitolum og norður af hæðinni Palatinum. Þar var Forum Romanum, höfuðtorg Rómar á lýðveldistíma, og Fori Imperiali, röð höfuðtorga hennar á keisaratíma.

Þessi torg voru öldum saman þungamiðja Vesturlanda, allt frá því að Rómverjar tóku við af Grikkjum sem merkisberar vestursins og þangað til kaþólska kirkjan flutti þungamiðjuna hálfan annan kílómetra suðaustur til Laterano-torgs.

Lítið stendur eftir af fornri frægð þessa svæðis, brot af súlum og veggjum, sem gefa hugmynd um fornan glæsileika. Enn stendur mikið af Trajanusarmarkaði og Maxentiusarbyrðu, bútar af keisarahöllum og heiðnum hofum, nokkrir heilir sigurbogar og fundarsalur öldungaráðsins.

Næstu skref

13. Miðbær syðri – Piazza Campodoglio

Borgarrölt
Palazzo Senatorio, Roma

Palazzo Senatorio

Piazza Campodoglio

Hægt er að fara út um hliðardyr kirkjunnar, skoða steinfellumyndir yfir dyrunum, og stíga tröppur niður til Piazza Campodoglio. Að öðrum kosti förum við upp hinar tröppurnar, sem áður er getið. Það var Michelangelo, sem hannaði þær eins og torgið ofan þeirra að tilhlutan Páls páfa III 1536 og réð að mestu útliti hallanna við torgið.

Capitolum var guðahæð Rómar. Hér var reist hof Jupiters þegar á etrúskum tíma, á 6. öld f.Kr. Síðar voru þar þrjú hof, Jupiters, Junos og Minervu. Þegar Michelangelo hófst handa, var hin forna frægð lengi búin að vera týnd og geitur hafðar hér á beit.

Torgið er fagurlega steinlagt samkvæmt hönnun Michelangelos. Á mótum trappa og torgs eru gamlar styttur frá keistaratímanum af Castori og Polluxi með hrossum sínum. Þær fundust á Marzvöllum og voru fluttar hingað á 16. öld.

Á miðju torgi er eftirlíking riddarastyttu af Aureliusi keisara frá síðari hluta annarrar aldar. Frummyndin hafði verið flutt hingað frá Laterano-torgi, þar sem hún hafði fengið að vera, af því að menn héldu hana þá vera af hinum kristna Constantinusi keisara. Til skamms tíma stóð sjálf frummyndin hér á torginu.

Miðhöllin við torgið var upphaflega höll öldungaráðs borgarinnar, Palazzo Senatorio, reist 1143 á rústum hins forna Tabularium, og gnæfði yfir Forum Romanum, sem er handan hallarinnar. Michelangelo lét hallarveggina halda sér, en hannaði nýja framhlið, sem var útfærð 1582-1605 af Giacomo della Porta. Hún er nú ráðhús Rómar.

Palazzo dei Conservatori, Roma

Palazzo dei Conservatori

Vinstra megin við miðhöllina er Palazzo dei Conservatori, reist á 15. öld til að hýsa sýslumenn borgarinnar, en endurhönnuð af Michelangelo. Andspænis henni er Palazzo Nuovo í sama stíl, reist 1654. Í báðum þessum höllum eru söfn, meðal hinna beztu í borginni.

Í Palazzo dei Conservatori eru minjar og listaverk, einkum frá fornöld, þar á meðal Spinario, bronsmynd af dreng, sem dregur þyrni úr fæti sér, frá 1. öld f.Kr.; etrúsk bronsmynd af úlfynju, tákn borgarinnar, frá 5. eða 6. öld f.Kr.; og 3. aldar brjóstmynd af Juniusi Brutusi, stofnanda hins forna lýðveldis í Róm. Í safninu er einnig málverkadeild, Pinacoteca Capitolina, með verkum eftir Caravaggio, Cortona, Rubens, Titian og Van Dyck.

Palazzo Nuovo, Roma

Palazzo Nuovo

Í Palazzo Nuovo eru einnig þekktar myndastyttur frá fornöld, svo sem Venus frá Capitolum, eftirlíking af gömlu verki hins gríska Praxitelesar; og Deyjandi keltinn, eftirlíking af bronsmynd frá Pergamon. Þar eru einnig brjóstmyndir allra rómversku keisaranna.

Frá torginu er gengið niður að Forum Romanum vinstra megin við Palazzo Senatorio. Hægra megin við hana er gengið niður Via del Campidoglio, þaðan sem er gott útsýni yfir Forum Romanum. Þetta er hinn forni Clivus Capitolinus, leið skrúðgangna frá Forum upp á Capitolum.

Á þá víkur sögunni að vesturhluta miðbæjarins.

Næstu skref