3. Miðbær vestri – Palazzo Farnese

Borgarrölt

Palazzo Farnese, Roma

Palazzo Farnese

Við göngum meðfram Palazzo Farnese og beygjum til hægri á horninu til að komast út á torgið framan við höllina. Þar á torginu eru tvö risastór steinker úr Caracalla-baðhöllinni. Þeim var rænt þaðan 1626.

Palazzo Farnese er helzta verk Antonio Sangallo yngra, hönnuð 1514. Smíðin hófst 1534 og Michelangelo lauk henni að mestu 1546 og Giacomo della Porta að fullu 1589. Hátíðleg höllin er frístæð og hornrétt og býr yfir miðhúsagarði með bogagöngum og súlnaknippum í rómönskum stíl.

Að utanverðu eru hvorki frístæðar súlur né veggsúlur, heldur láréttir fletir í endurreisnarstíl. Á annarri hæð eru gluggagaflöð til skiptis bogadregin og þríhyrnd, samkvæmt fyrirmynd úr hvolfi Pantheons. Ytra form hallarinnar hefur löngum verið talið fullkomnasta dæmi endurreisnarstíls í Róm.

Palazzo Spada, Roma

Palazzo Spada

Palazzo Spada

Frá Piazza Farnese göngum við samsíða höllinni eftir Via dei Venti að Palazzo Spada, sem reist var 1540, nokkrum árum á eftir Farnese-höll, enda er stíllinn ekki lengur hreinn endurreisnarstíll, heldur sú grein hans, sem kölluð hefur verið fægistíll eða mannerismi. Veggir eru ekki lengur sléttir og strangir, heldur hlaðnir lágmyndum og ýmsu skrauti. Við sjáum við þetta vel í veggjum efri hæða.

Palazzo Spada er safn, sem sýnir muni, sem Spada kardínáli safnaði á 17. öld, og er þeim komið fyrir á sama hátt og í upphafi.

Í sundi rétt við höllina, á Via dell’Arco del Monte 95, er veitingahúsið Il Pianeta Terra.

Næstu skref