E. Miðbær vestri – Tempietto

Borgarrölt, Róm
Tempietto, Bramante: Tempietto, Roma

Bramante: Tempietto

Gamli miðbærinn með flóknu neti undinna gatna, sem bílar komast tæpast um, er skemmtilegasti hluti borgarinnar. Við fórum um hluta hans í 3. göngu, þar sem fjallað var m.a. um Ghetto, Largo di Torre Argentina og Gesú.

Tempietto

Hér verður haldið áfram í gamla bænum og lýst gönguferð um meginhluta hans. Við byrjum handan árinnar, í Trastevere, og f
örum í leigubíl upp hæðina Gianicolo til kirkjunnar San Pietro in Montorio.

Í garðinum við hlið kirkjunnar er eitt þekktasta listaverk borgarinnar, Tempietto eftir Bramante, hringlaga og formfast hof í gnæfrænum stíl, með dórísku hringsúlnariði, byggt 1502. Þessi bygging markar upphaf há-endurreisnar og prýðir margar bækur um byggingarlist.

Af torginu framan við kirkjuna er gott útsýni yfir Róm. Þar standa upp úr Castel Sant’Angelo vinstra megin; minnismerki Victors Emanuels, Capitolum og Maxentiusarbyrða fyrir miðju; og San Giovanni in Laterano hægra megin.

Santa Maria in Trastevere

Héðan göngum við niður tröppur og brekkuna eftir Via Garibaldi að næstu gatnamótum og síðan eftir Via Memeli, unz við komum að tröppum, sem liggja niður að Via della Paglia í Trastevere. Þá götu göngum við til aðaltorgs hverfisins, Piazza Santa Maria in Trastevere.

Kirkjan við Trastevere-torg er frá 341. Hún var endurbyggð 1140 og þá var klukkuturninn reistur, en súlnaportið löngu seinna, 1702. Kirkjan er fræg fyrir steinfellumyndir á framhlið og að innanverðu. Myndin yfir kórbak ofanverðum af Kristi og Maríu er í býzönskum stíl eftir gríska meistara frá 12. öld, en sex myndirnar þar fyrir neðan eru eftir Pietro Cavallini, frá 13. öld.

Við torgið eru veitingahúsin Sabatini og Galeassi.

Trastevere

Upprunalega var Trastevere ekki hluti Rómar. Svæðið var byggt Etrúrum og síðan einnig Gyðingum og Sýrlendingum, en Augustus keisari innlimaði það í Róm. Borgarmúr Aureliusar keisara náði utan um hverfið. Þarna bjuggu löngum handverksmenn í nágrenni þáverandi hafnar, en á síðustu árum hefur ungt efnafólk í vaxandi mæli einkennt hverfið. Veitingahús eru á hverju strái í Trastevere og götulíf fjörlegt að kvöldlagi.

Næstu skref