B. Menning – Lincoln Center

Borgarrölt, New York

Lincoln Center

Metropolitan Opera, New York

Metropolitan Opera

Alvörutónlistin á Manhattan er stunduð í Lincoln Center syðst í Upper West Side, þar sem nokkrar nýlegar og nýtízkulegar hallir umlykja gosbrunnatorg. Lincoln Center var reist árin 1962-1968 sem eins konar menningarlegt Akrópólis eða Kapítólum í New York til dýrðar tónlistarguðinum, hannað af ýmsum þekktustu arkitektum Bandaríkjanna í virðulegum hásúlnastíl.

Gengið er upp tröppur frá Columbus Avenue inn á torgið. Þar er á vinstri hönd New York State Theater, á hægri hönd Avery Fisher Hall og beint framundan Metropolitan Opera House. Vivian Beaumont Theater og Alice Tully Hall eru að baki Avery Fisher Hall.

Til að vita, hvað er um að vera í Lincoln Center og öðru tónlistarlífi borgarinnar, er bezt að skoða skrá
rnar í vikuritinu New York.

Metropolitan Opera

Óperuhús Metropolitan Opera Company er þungamiðja Lincoln Center og snýr tíu hæða súlum og fimm rómönskum glerbogum að torginu. Inn um gluggana má sjá tvær litskrúðugar lágmyndir eftir Marc Chagall, teppalagt anddyri og virðulegar tröppur.

Met eins og það er kallað tekur 3.788 manns í sæti. Talið er eitt helzta hástigið á ferli óperusöngvara að koma hér fram. Óperutíminn er frá miðjum september til apríl. Hinn hluta ársins hafa aðrir höllina til umráða, einkum balletflokkar á borð við American Ballet Theater og Royal Ballet.

Þegar við vorum síðast í New York bauð Met upp á Valkyrjurnar eftir Wagner, Aida eftir Verdi, Manon Lescaut eftir Puccini og Madama Butterfly eftir sama höfund.

Næstu skref