Suður-Múlasýsla

Gunnarsskarð

Frá Ólafsvörðu í Breiðdal um Gunnarsskarð til þjóðvegar 96 í Stöðvardal.

Algeng leið milli byggða.

Byrjum við Ólafsvörðu við þjóðveg 1 í Breiðdal. Förum norðaustur að Árnastöðum og áfram norðaustur og upp með Selá í Gunnarsskarð milli Gunnarstinds að vestan og Kistufjalls að austan. Síðan norður og niður brattann og norðaustur brekkurnar niður í Stöðvardal. Þaðan með Stöðvará suðaustur að þjóðvegi 96 í Stöðvardal.

12,7 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stöðvarskarð, Fossdalsskarð, Fanndalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is

Gerpisskarð

Frá Vöðlavík um Gerpisskarð til Sandvíkur.

Skarðið liggur hærra en Tregaskarð, er um 700 metrar, en greiðfærara og fært hestum. En það er töluverður krókur.

Förum frá Vöðlum í Vöðlavík austnorðaustur um Gerpisdal í Gerpisskarð. Þaðan norður og niður að Gerpisvatni og vestnorðvestur dalinn að Sandvíkurá og beygjum þar til norðausturs með ánni. Leiðin endar á Parti í Sandvík eða við sæluhúsið í Sandvík.

8,5 km
Austfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Hjörleifur Guttormsson

Geldingafell

Frá fjallakofanum Egilsseli við Kollumúlavatn um Geldingafell og Eyjabakka að Glúmsstaðaseli í Fljótsdal.

Eyjabakkar eru stjarna þessarar leiðar, víðáttumiklir flóar með margvíslegum gróðri. Þeir eru ófærir hestum, þegar utar dregur.

Förum frá Egilssel norður Víðidal og síðan norðvestur Víðidalsdrög með Hnútu að vestanverðu. Úr dalbotninum förum við beint norður á Leiðaröxl og Marköldu. Þar sveigjum við beint vestur að fjallaskálanum í Geldingafelli. Frá skálanum förum við norðnorðvestur um Múlahraun að Eyjabökkum. Förum norður Eyjabakka og norðvestur meðfram Jökulsá í Fljótsdal um Hrakströnd og síðan út með Jökulsá að austan. Leiðinni lýkur við Glúmsstaðasel í Fljótsdal. Þaðan er stutt að þjóðvegi 934 um Fljótsdal.

36,8 km
Austfirðir

Skálar:
Hrakstrandarkofi: N64 50.851 W15 23.221.
Geldingafell: N64 41.682 W15 21.690.
Egilssel: N64 36.662 W15 08.718.

Nálægar leiðir: Aðalbólsleið, Sauðárvatn, Egilssel, Illikambur, Hofsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Geithelladalur

Frá Geithellum í Álftafirði um Geithelladal að fjallaskálanum Leirási.

Athugið, að dalurinn heitir Geithelladalur, ekki Geithellnadalur.

Hvor hluti dalsins heitir eftir höfuðbóli hvors um sig. Jeppaslóðir liggja inn dalinn beggja vegna árinnar inn að fjallaskálanum Leirási. Landslag er fjölbreytt í þessum langa dal, trjágróður þó meiri í Geithelladal. Svo segir í Árbók FÍ 2002: “Áin er báðum [dölum] sameiginleg og ýmsir drættir í landslagi í dalnum svipaðir, berglög sem mynda ása ganga víða hallandi niður að ánni beggja vegna og bera sumpart hliðstæð nöfn. Augljósast er þetta þar sem fram koma litbrigði í líparíti og flikrubergslögum. Fjallgarðarnir hvor sínum megin ganga út frá Hraunum og eru báðir gilskornir, en norðan dalsins eru fjöllin jafnhærri en að sunnanverðu.; þar rís Þrándarjökull í 1248 m hæð …”

Förum frá Geithellum vestnorðvestur inn Geithelladal norðan ár um Einidal, Land og Virkishóla og síðan um Kambsel, Lönguhlíð og Þrándarholt og loks um Þormóðshvamma og Afrétt að fjallaskálanum Leirási.

21,2 km
Austfirðir

Skálar:
Leirás: N64 39.153 W14 57.842.

Nálægar leiðir: Fossbrekkur, Egilssel, Hofsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gagnheiði eystri

Frá Háafossi á Fjarðarheiði um Gagnheiði til Háuhlíðar á Mjóafjarðarheiði.

Léttara er að fara frá Efri-Staf af þjóðvegi 93, fremur en hjá Háafossi, því að þá losnar maður við bratta brekku í Múla. Þá er leiðin 6,4 km.

Fyrr á öldum fóru Seyðfirðingar þessa leið til Reyðarfjarðar.

Byrjum við þjóðveg 93 á Fjarðarheiði við Háafoss efst í brekkunum vestan Seyðisfjarðar. Förum til suðurs fyrir vestan norðurenda Endahnjúks og áfram upp á Gagnheiði, mest í 900 metra hæð. Þaðan til suðurs fyrir vestan Innri-Þverártind og suður með Barnám að þjóðvegi 953 á Mjóafjarðarheiði við Háuhlíðar efst í brekkunum vestur af Mjóafirði.

6,4 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Drangaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Fönn

Frá Þuríðarstöðum í Eyvindardal í Fagradal um Fönn til Neskaupstaðar í Norðfirði.

Mikilúðlegt útsýni er ofan af Fönn. Fannardals er getið í Droplaugarsonasögu. Þaðan er svonefndur Fannardalskross frá miðöldum. Til skamms tíma var meiri jökull á Fönn og þá var oft erfitt að fara þar yfir með hesta. Árið 1865 lentu þrír ferðamenn í hríð og grófu sig í fönn. Á þriðja degi komust tveir þeirra til byggða, en einn varð úti. Frægt er, þegar rúmlega tvöhundruð sláturfjár var rekið yfir heiðina haustið 1932, en það gekk slysalaust.

Förum frá Þuríðarstöðum suðaustur Tungudal og upp úr Urð í dalbotni á Urðarflöt á Eskifjarðarheiði. Þar sveigjum við austur og upp á Fönn í 1000 metra hæð norðan Fannarhnúks . Þaðan förum við áfram austur með Norðfjarðará niður Fannardal að brúnni á þjóðvegi 92 yfir ána. Skammt er þaðan austur í Neskaupstað.

22,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Eskifjarðarheiði, Búðará, Viðfjörður, Drangaskarð, Helgustaðaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Fossdalsskarð

Frá Ormsstöðum í Breiðdal um Fossdalaskarð til þjóðvegar 96 í Stöðvarfirði.

Algengara var að fara um Timburgatnaskarð litlu norðvestar milli Timburgatnatinda.

Förum frá Ormsstöðum norðnorðaustur með Brunnlækjargili á fjallið vestan við Fanndalsfjall. Þegar upp er komið beygjum við til austnorðausturs í Fossdalsskarð í 660 metra hæð. Þaðan förum við norðaustur og niður í Fossdal meðfram Fossá. Í brekkunum sameinumst við leiðinni um Fanndalsskarð. Að lokum förum við austur láglendið að þjóðvegi 96 í Stöðvarfirði.

6,4 km
Austfirðir

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Gunnarsskarð, Fanndalsskarð, Stöðvarsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is

Fossbrekkur

Frá Múla í Múladal sunnan Geithellaár að leið um Geithelladal.

Hvor hluti dalsins heitir eftir höfuðbóli hvors um sig. Jeppaslóðir liggja inn dalinn beggja vegna árinnar inn að fjallaskálanum Leirási. Landslag er fjölbreytt í þessum langa dal, trjágróður þó meiri í Geithelladal.

Svo segir í Árbók FÍ 2002: “Áin er báðum [dölum] sameiginleg og ýmsir drættir í landslagi í dalnum svipaðir, berglög sem mynda ása ganga víða hallandi niður að ánni beggja vegna og bera sumpart hliðstæð nöfn. Augljósast er þetta þar sem fram koma litbrigði í líparíti og flikrubergslögum. Fjallgarðarnir hvor sínum megin ganga út frá Hraunum og eru báðir gilskornir, en norðan dalsins eru fjöllin jafnhærri en að sunnanverðu.; þar rís Þrándarjökull í 1248 m hæð …”

Förum frá Múla vestur fyrir sunnan Geithellaá, um Háahraun og Fleti og vestur með Fossbrekkum undir Rönum. Síðan vestur um Ræningjalágar og Hvannavelli og áfram undir Grenishlíð að fjallaskálanum í Leirási.

13,4 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Geithelladalur, Hofsdalur, Flugustaðadalur, Lónsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Flugustaðadalur

Frá Hofi í Álftafirði um Flugustaðadal að Markúsarseli.

Um Hofsdal og Flugustaðadal segir í Árbók FÍ 2002: “Miklir og óslitnir fjallgarðar umlykja vatnasviðið, sundurristir af ótal giljum. Þeim er aðeins hægt að kynnast á ferð um dalina, sem búa yfir fjölbreytni í landslagi og jarðmyndunum, fossum og vænum gróðri.”

Förum frá Hofi vestur með Hofsá og suður yfir ána við Stóru-Skriðu. Við stefnum vestur á Tungukoll. Förum sunnan við kollinn og inn í Flugustaðadal vestur að Markúsarseli í Flugustaðadal.

10,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hofsdalur, Lónsheiði, Fossbrekkur, Geithellnadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Flosaleið

Frá Bessastöðum í Fljótsdal um Hornbrynju að Hamri í Hamarsfirði.

Flosi Þórðarson fór þessa leið úr liðsbón um Austurland, svo sem segir í Njálu: “Flosi fór upp Fljótsdal og þaðan suður á fjall um Öxarhraun og ofan Sviðinshornadal og út með Álftafirði fyrir vestan, og lauk Flosi eigi fyrr en hann kom til Þvottár til Halls, mágs síns.” Þetta var þjóðleið milli Fljótsdals, Suðurfjarða og Austur-Skaftafellssýslu, en litlar minjar sjást um sjálfa slóðina.

Nokkur veiði er í Líkárvatni og er nafn þess talið stafa af slysförum. Sunnan vatnsins fundust mannabein, sem talin eru af strokufanganum Þorgrími Hermannssyni, er slapp úr haldi á Djúpavogi 1837.

Förum frá Bessastöðum suður að brúnni austur yfir Jökulsá. Síðan með þjóðvegi 935 suður að Sturluflöt. Þar förum við yfir drög Gilsárdals suðaustur í Hornbrynjuslakka norðan við Hornbrynju suðsuðaustur að fjallaskálanum Bjarnarhíði. Þaðan förum við stuttan kafla suðaustur með jeppaslóð, sem liggur að þjóðvegi um Öxi. En förum fljótt suður úr slóðinni að Líkárvatni austanverðu, sem er austan við Brattháls. Við förum suður um Sviðinshornahraun niður í Hamarsdal. Förum um Leiðargil niður í Hamarsdal og síðan út með dalnum norðanverðum austur að Hamri í Hamarsfirði eða eftir honum sunnanverðum að Bragðavöllum í Hamarsfirði.

44,4 km
Austfirðir

Skálar:
Bjarnarhíði: N64 50.853 W14 51.507.
Hamarsdalur: N64 41.447 W14 41.724.

Nálægar leiðir: Hornbrynja, Ódáðavötn, Hamarsdalur, Bragðavalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Njála

Fanndalsskarð

Frá Gljúfraborg í Breiðdal um Fanndalsskarð til þjóðvegar 96 í Stöðvarfirði.

Byrjum við Gljúfraborg eða Þverhamar í Breiðdal. Förum norðnorðaustur upp Fanndal beint í Fanndalsskarð í 650 metra hæð. Úr skarðinu förum við norður og niður brattann í Fossdal, þar sem við sameinumst leið um Fossdalsskarð. Þaðan förum við áfram niður fjallið. Að lokum förum við austur láglendið að þjóðvegi 96 í Stöðvarfirði.

5,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Gunnarsskarð, Fossdalsskarð, Stöðvarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is

Fagradalsskarð

Frá Fagradal í Breiðdal um Fagradalsskarð að Fossgerði í Berufirði.

Þetta er gömul þjóðleið. Hún er falleg, meðfram fossum og næsta greið, án kletta og skriða. Umhverfis eru hvöss og fjölbreytt fjöll á báða bóga.

Förum frá bænum Fagradal suðvestur Fagradal og síðan suður og upp úr dalbotninum í Fagradalsskarð í 620 metra hæð milli Hrossatinds að austan og Grjóthólatinds að vestan. Síðan suður og suðaustur um Krossdal og suður eftir dalnum að Fossgerði.

12,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Reindalsheiði, Berufjarðarskarð, Skammadalsskarð, Krossskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Eskifjarðarheiði

Frá Eskifirði um Eskifjarðarheiði að Þuríðarstöðum í Eyvindardal.

Var áður fyrr helzta samgönguleiðin milli Fljótsdalshéraðs og Reyðarfjarðarkaupstaðar hins forna við Breiðuvík og eftir 1800 áfram til kaupstaðar í Eskifirði. Í janúar 1942 lenti 70 manna fjallaherdeild brezka setuliðisins á Reyðarfirði í hrakningum við æfingar á Eskifjarðarheiði. Fengu óvænta slydduhríð í fangið og komust ekki til byggða. Fólk í Veturhúsum, innsta bæ í Eskifirði, fann flesta hermennina, en átta urðu úti. Var þetta mannskæðasta áfall setuliðsins á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni.

Förum frá Eskifirði vestur með Eskifjarðará að norðanverðu og síðan um Langahrygg norður á Eskifjarðarheiði, sem er hæst nyrst, 640 metrar á Urðarfleti. Niður um Urð í botn Tungudals. Síðan förum við áfram norðvestur Tungudal og Eyvindardal. Handan Tungufells liggur Svínadalur samsíða Fagradal til Reyðarfjarðar. Komum á Mjóafjarðarveg 953 og eftir honum að Þuríðarstöðum í Eyvindardal.

16,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Fönn, Búðará.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Drangaskarð

Frá Neskaupstað í Norðfirði um Drangaskarð til botns Mjóafjarðar.

Símalína er um skarðið.

Neðan við skarðið er Rósubotn, þar sem Rósa í Nesi breiddi lak á drang til að gera Ásláki á Krossi boð um ástarfund. Á svipuðum slóðum hrapaði hollenzk stúlka niður í Drangagil og lézt.

Förum frá Neseyri í Neskaupstað norður í Drangaskarð í 660 metra hæð við Skarðstind. Þaðan norður Ljósárdal að suðurströnd Mjóafjarðar. Með ströndinni til vesturs undir Lokatindi og Gilsártindi, Reykjasúlu og Mjóatindi, Hádegistindi og Miðdegistindi að Friðheimum í botni Mjóafjarðar.

20,3 km
Austfirðir

Ekki fyrir hesta

Nálægar leiðir: Fönn, Viðfjörður, Gagnheiði eystri, Miðstrandarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Dísastaðahjalli

Frá Dísastöðum í Suðurdal um Dísastaðahjalla til Dísastaðasels í Norðurdal í Breiðdal.

Förum frá Dísastöðum norðaustur á Dísastaðahjalla fyrir austan Ásunnarfell. Við erum þar í 320 metra hæð vestan við Bungu. Þaðan förum við norður og niður í Dísastaðasel við Norðurdalsá í Norðurdal.

3,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Jórvíkurskarð, Reindalsheiði, Stangarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is