Suður-Múlasýsla

Dalaskarð

Frá Skálanesi í Seyðisfirði um Dalaskarð til Dalatanga.

Símalína og raflína eru í skarðinu.

Förum frá Skálanesi suðaustur Sandárdal í Dalaskarð í 620 metra hæð. Síðan austur og niður Fossbrekku og Dalaskarðsfláa, svo og austur um Daladal niður að sjó í Mjóafirði. Með bílvegi út ströndina norðaustur að vitanum á Dalatanga.

9,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Skálanes, Brekkugjá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Bringur

Frá Skollabotni í Berufirði að Hálsi í Hamarsfirði og síðan að Teigarhorni í Berufirði.

Förum frá Skollabotni suður með Búlandsá vestanverðri og austan við Búlandstind og áfram til suðurs upp Bringur fyrir austan Flötufjöll. Síðan niður í Hamarsfjörð austan við Háls. Til baka norður fjallið og förum austar, síðan norðnorðaustur um Nautalág. Komum niður á þjóðveg 1 í Berufirði rétt vestan Teigarhorns.

6,8 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Flosaleið, Hamarsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Bragðavalladalur

Frá Bragðavöllum í Hamarsfirði um Bragðavalladal að fjallaskálanum í Hamarsdal.

Hét Sviðinshornadalur að fornu. Á Bragðavöllum fundust rómverskir peningar frá valdatíma Árelíanusar og Próbíusar frá þriðju öld. Innan til í dalnum eru Hæðagil og síðan Hæðabrekkur. Er þar komið að Leiðagili, þar sem Flosaleið liggur um Sviðinshornahraun og síðan austan við Brattháls og Hornbrynju til Fljótsdalshéraðs.

Förum frá Bragðavöllum inn Bragðavalladal sunnan Hamarsár um Bleikshjalla, Kálfaurahala og Mjósund að fjallaskálanum í Hamarsdal.

11,8 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hamarsdalur, Flosaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Berufjarðarskarð

Frá Jórvíkurstekk í Breiðdal um Berufjarðarskarð að Berufirði.

Forn leið, sem víða hefur verið löguð til með hleðslum, enda fjölfarin póstleið. Mikið og gott útsýni er úr skarðinu.

Um leiðina segir m.a. í Árbók FÍ 2002: “Upp með Vegagili að utan liggur gömul þjóðleið yfir Berufjarðarskarð … Frá Berufirði liggur slóðin eftir melrinda nánast beint upp af bæ, á Sótabotnsbrún rétt utan við Sótabotn og áfram innan við Svartagilsstafn út og upp í skarðið. Er leiðin vörðuð frá brún Svartagils langleiðina að Póstvaði á Breiðdalsá gegnt Höskuldsstöðum … Helsta hindrun á leiðinni, einkum með hesta undir burði, var Breiðdalsmegin í Kinnargili, sem gengur vestan úr Skarðsgili ofanverðu. Gefur þar enn að líta grjóthleðslu frá vegabótum … seint á 19. öld.” Bæklingur er til um leiðina með nákvæmri leiðarlýsingu.

Förum frá þjóðvegi 1 við eyðibýlið Jórvíkurstekk í Breiðdal. Förum þaðan suðvestur yfir dalinn og síðan suður á Berufjarðarskarð milli Berufjarðartinds að norðvestan og Flögutinds að suðaustan. Þar erum við í 690 metra hæð í skarðinu. Förum síðan suðvestur í Hrútabotna og þaðan suður fyrir vestan Sótabotn niður að bænum Berufirði í Berufirði.

8,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hornbrynja, Fagradalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Austdalur

Frá Austdal í Seyðisfirði um Ytri-Hesteyrardal og út að Brekku í Mjóafirði.

Förum frá eyðibýlinu Austdal á suðurströnd Seyðisfjarðar og suður Austdal fyrir vestan Austdalsá. Síðan meðfram raflínu upp í 780 metra hæð. Þaðan um skafl og stikaðan sneiðing suður úr skarðinu niður að Brekku í Mjóafirði.

10,3 km
Múlasýslur

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Skálanes, Dalaskarð

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort