Flosaleið

Frá Bessastöðum í Fljótsdal um Hornbrynju að Hamri í Hamarsfirði.

Flosi Þórðarson fór þessa leið úr liðsbón um Austurland, svo sem segir í Njálu: “Flosi fór upp Fljótsdal og þaðan suður á fjall um Öxarhraun og ofan Sviðinshornadal og út með Álftafirði fyrir vestan, og lauk Flosi eigi fyrr en hann kom til Þvottár til Halls, mágs síns.” Þetta var þjóðleið milli Fljótsdals, Suðurfjarða og Austur-Skaftafellssýslu, en litlar minjar sjást um sjálfa slóðina.

Nokkur veiði er í Líkárvatni og er nafn þess talið stafa af slysförum. Sunnan vatnsins fundust mannabein, sem talin eru af strokufanganum Þorgrími Hermannssyni, er slapp úr haldi á Djúpavogi 1837.

Förum frá Bessastöðum suður að brúnni austur yfir Jökulsá. Síðan með þjóðvegi 935 suður að Sturluflöt. Þar förum við yfir drög Gilsárdals suðaustur í Hornbrynjuslakka norðan við Hornbrynju suðsuðaustur að fjallaskálanum Bjarnarhíði. Þaðan förum við stuttan kafla suðaustur með jeppaslóð, sem liggur að þjóðvegi um Öxi. En förum fljótt suður úr slóðinni að Líkárvatni austanverðu, sem er austan við Brattháls. Við förum suður um Sviðinshornahraun niður í Hamarsdal. Förum um Leiðargil niður í Hamarsdal og síðan út með dalnum norðanverðum austur að Hamri í Hamarsfirði eða eftir honum sunnanverðum að Bragðavöllum í Hamarsfirði.

44,4 km
Austfirðir

Skálar:
Bjarnarhíði: N64 50.853 W14 51.507.
Hamarsdalur: N64 41.447 W14 41.724.

Nálægar leiðir: Hornbrynja, Ódáðavötn, Hamarsdalur, Bragðavalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Njála