Eskifjarðarheiði

Frá Eskifirði um Eskifjarðarheiði að Þuríðarstöðum í Eyvindardal.

Var áður fyrr helzta samgönguleiðin milli Fljótsdalshéraðs og Reyðarfjarðarkaupstaðar hins forna við Breiðuvík og eftir 1800 áfram til kaupstaðar í Eskifirði. Í janúar 1942 lenti 70 manna fjallaherdeild brezka setuliðisins á Reyðarfirði í hrakningum við æfingar á Eskifjarðarheiði. Fengu óvænta slydduhríð í fangið og komust ekki til byggða. Fólk í Veturhúsum, innsta bæ í Eskifirði, fann flesta hermennina, en átta urðu úti. Var þetta mannskæðasta áfall setuliðsins á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni.

Förum frá Eskifirði vestur með Eskifjarðará að norðanverðu og síðan um Langahrygg norður á Eskifjarðarheiði, sem er hæst nyrst, 640 metrar á Urðarfleti. Niður um Urð í botn Tungudals. Síðan förum við áfram norðvestur Tungudal og Eyvindardal. Handan Tungufells liggur Svínadalur samsíða Fagradal til Reyðarfjarðar. Komum á Mjóafjarðarveg 953 og eftir honum að Þuríðarstöðum í Eyvindardal.

16,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Fönn, Búðará.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort