Reiðskarð

Frá Hungurfiti til Bólstaðar undir Einhyrningi.

Þetta er leiðin um Laufaleitir Rangvellinga. Ekki er þetta land með miklu fóðurgildi, eins og örnefnin Hungurfit og Sultarfell sýna. Síðari hluti leiðarinnar frá Króki er með skemmtilegustu reiðleiðum landsins, þótt ljót ummerki séu þar um torfæruakstur jeppa. Sérstaklega kaflinn um Þverárbotna, þar sem slóðin liggur sumpart í þrengslum í ánni. Stundum böðlast jeppar þá leið, þótt þeir komist varla um vegna þrengsla. Útsýni af leiðinni er víða frábært til grænna fjalla, sem standa stök í svartri auðn.

Förum frá fjallaskálanum í Hungurfiti í 620 metra hæð og höldum austur jeppafæra leið um Reiðskarð milli Faxa að norðan og Sultarfells og Faxatagls að sunnan. Förum upp úr Sultarfit bratta brekku á Sultarfell og síðan í ýmsum krókum austur í Krók við ármót Markarfljóts og Hvítmögu. Þar er fjallaskáli. Þaðan förum við suður jeppaslóð, yfir Hvítmögu á grýttu vaði suður um Þverárbotna og síðan undir Lifrarfjöllum um Þverárdal að brú á Markarfljóti við fjallakofann í Mosum. Hjá brúnni förum við af jeppaslóðinni eftir reiðslóð upp hæðirnar og síðan til suðurs nokkuð vestan við bílveginn og austan við Kerhnjúka. Loks förum við vestur fyrir Einhyrning og síðan um bratta brekku að skálanum Bólstað.

24,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hungurfit: N63 50.530 W19 32.850.
Krókur: N63 49.940 W19 24.230.
Mosar: N63 47.040 W19 25.530.
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.

Nálægir ferlar: Laufafell, Hungurfit, Grasleysufjöll, Krókur, Mosar, Fljótshlíð.
Nálægar leiðir: Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson