Réttarnes

Frá Þingskálum á Rangárvöllum um Réttarnes að Leirubakka í Landsveit.

Sunnan bæjar á Þingskálum eru búðatóftir þingstaðar. Búðirnar eru 37 og friðaðar. Efst í túni Hrólfsstaðahellis er Kirkjuhvoll. Um hann orti Guðmundur Guðmundsson skólaskáld, sem fæddist á bænum: “Hún amma mín það sagði mér: “Um sólarlagsbil / á sunnudögum gakk þú ei Kirkjuhvols til! / Þú mátt ei trufla aftansöng álfanna þar. / Þeir eiga kirkju í hvolnum, og barn ég var, / í hvolnum kvað við samhljómur klukknanna á kvöldin”.” Norðan bæjar er topphlaðið fjárhús myndarlegt, eingöngu hlaðið úr hraungrýti. Í Réttarnesi er grjóthlaðin rétt Landmanna, ekki lengur í notkun. Á Leirubakka í Landsveit er rekin margvísleg þjónusta fyrir hestaferðamenn.

Byrjum við þjóðveg 268 hjá Þingskálum á Rangárvöllum. Förum vestur að Þingskálavaði og norður vaðið. Síðan norður að Hrólfsstaðahelli, þar sem við komum á jeppaveg norður með Ytri-Rangá. Förum veginn um Húsagarð norðaustur í Réttarnes. Þaðan norður hraunið um Miðmelabót að þjóðvegi 26 við Tjarnalæk. Með þjóðveginum austur að Leirubakka.

15,2 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Stóruvallaheiði, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson