Árnessýsla vestur

Lyngdalsheiði

Frá Skógarkoti í Þingvallasveit um Lyngdalsheiði til Þóroddsstaða í Grímsnesi.

Þetta er algeng leið í sleppitúrum frá Reykjavík til uppsveita Árnessýslu.

Þessa leið fór Jón biskup Vídalín frá Skálholti til Þingvalla og síðan áfram um Bláskógaheiði, þar sem hann varð bráðkvaddur í sæluhúsinu við Hallbjarnarvörður. Hann var á leið vestur á Staðastað til að jarðsyngja séra Þórð Jónsson. Leiðin Oddi-Skálholt-Þingvellir-Reykholt-Staðastaður var ein mest farni þjóðvegur landsins öldum saman.

Förum frá Skógarhólum stutta leið austur með Ármannsfelli að þverleið í hraungötu suður Sleðaáshraun. Um hana suðaustur í Hrauntún og þaðan suðvestur í Skógarkot. Þar byrjar þessi leið. Við förum suðaustur að Vellankötlu í Vatnskotsvík. Þaðan götuna áfram suðaustur yfir þjóðveg 361 að Gjábakka. Þaðan fylgir slóðin þjóðvegi 365 rúma þrjá kílómetra til austsuðausturs. Við Taglaflöt förum við á slóð suðaustur fyrir suðurenda Litla-Reyðarbarms og áfram suðaustur um norðausturhorn Lyngdalsheiðar. Við förum hjá Haustrúguvörðu rétt austan fjallaskálans í Kringlumýri. Áfram suðaustur um Biskupsbrekku, Biskupsvörðu, Beinvörðu og Áfangamýri. Síðan á Kirkjuvaði yfir Stangarlæk og suðaustur um Smalaskála að Apavatni milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða.

13,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar. Nálægar leiðir: Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Hrafnabjörg, Búrfellsgötur, Dráttarhlíð, Biskupavegur, Bakkagötur, Eskidalsvað, Prestastígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Leggjabrjótur

Frá Skógarhólum á Þingvöllum um Leggjabrjót til Hvalfjarðar.

Leiðin er vel vörðuð.

Forn þjóðleið og enn vel sýnileg vegna umferðar hestamanna nú á tímum. Nafnið segir okkur, að miðkafli leiðarinnar var grýttur og erfiður yfirferðar. En fleira brotnaði hér en leggir. Á miðri heiðinni er Biskupskelda, kennd við drykkfelldan Gísla Magnússon Hólabiskup, sem vildi komast í brennivínstunnu á klakki. Ekki vildi betur til en svo, að sá atburður gerðist, sem lýst er í þessari vísu: “Tunnan valt og úr henni allt / ofan í djúpa keldu. / Skulfu lönd en brustu bönd, / botngjarðirnar héldu.” Að fornu lögðu kaupmenn skipum sínum í Maríuhöfn sem er fremst í nesinu milli Laxárvogs og Hvalfjarðar. Þaðan var stutt að fara á Þingvöll og falbjóða þingheimi varning langt að kominn.

Förum frá Skógarhólum vestur og norður slóða að Svartárkoti, beygjum síðan til vesturs um Öxarárdal, fyrst eftir dráttarvélaslóð milli Botnssúlna að norðan og Búrfells að sunnan. Nokkuð austan Myrkavatns beygjum við síðan til norðurs með Súlnaá upp á Leggjabrjót, í 500 metra hæð, og förum með austurhlið Sandvatns, milli vatnsins og Biskupskeldu. Þar tekur við Botnsheiði. Við höldum okkur á Botnsheiði austan og ofan við drög Brynjudals. Förum síðan niður af heiðinni um Hrísháls ofan í botn Botnsdals og síðan norðvestur að Stóra-Botni í Hvalfirði.

21,7 km
Árnessýsla, Reykjavík-Reykjanes

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.779 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Selkotsvegur, Kóngsvegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði, Eyfirðingavegur, Gagnheiði, Reynivallaháls, Múlafjall, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Lágaskarð

Frá Kolviðarhóli við Skarðsmýrarfjall að Vindheimum í Ölfusi.

Leiðin liggur samsíða Þrengslum um þremur kílómetrum austar í landinu. Sérstakrar varúðar þarf að gæta við þjóðveg 1 vegna hraðrar bílaumferðar. Þetta er grösug leið, sem hentar hestum. Hér var þjóðleiðin yfir Hellisheiði fyrr á öldum, þangað til bílvegir tóku við, fyrst um Kamba og síðan einnig um Þrengsli.

Förum frá Kolviðarhóli suður með Litla-Reykjafelli, bögglumst yfir þjóðveg 1 um Hellisheiði. Síðan beint suður að austanverðu við Stóra-Meitil, um Lágaskarð milli Stóra- Meitils að suðvestan og Lákahnjúks að norðaustan. Síðan að vestanverðu við Stóra-Sandfell, þar sem leiðin nær 300 metra hæð. Þá vestan við Nyrðri-Eldborg og síðan að austanverðu við Syðri-Eldborg. Þar förum við suður og niður í Sanddali og milli Innbruna og Eldborgarhraun að vestanverðu og Lönguhlíðar að austanverðu, austan við Krossfjöll á Raufarhól, þar sem við komum að Þrengslavegi 39. Fylgjum þeim vegi stuttan spöl og förum síðan suður af honum niður að Vindheimum í Ölfusi. Einnig er gott að fara áfram suðaustur undir Lönguhlíð og loks um Skóghlíð niður í Ölfus.

13,8 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Langahlíð

Frá Jórukleif um Lönguhlíð að Selkotsvegi til Skógarhóla.

Förum frá toppi Jórukleifar norður eftir Lönguhlíð og áfram norður að Heiðarbæ. Þaðan stutta leið með þjóðvegi 360 norður Grafning, þar sem leiðin mætir Kóngsveginum. Þar förum við yfir hornið milli Grafningsvegar og Þingvallavegar. Síðan norður um heiðina austan Drykkjartjarnar og áfram norður, unz við komum á greinilega Selkotsslóð mlli Stíflisdals og Skógarhóla.

12,8 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Kópsvatnseyrar 2

Frá Kópsvatni í Hrunamannahreppi yfir Hvítá að Bræðratungu í Biskupstungum.

Kópsvatnseyrar er heiti á nokkrum vöðum í Hvítá á þriggja kílómetra kafla norðan frá gljúfrum suður að nýju brúnni við Bræðratungu. Á öllu þessu svæði rennur áin á eyrum og breytir sér, svo að haga verður ferð eftir aðstæðum. Á ritunartíma Íslendingasagna og Sturlungu var áin riðin syðst, ofan Grámels á móts við Flosatraðir. Það er ekki lengur nothæft vað, né heldur efsta vaðið fyrir neðan gljúfrin. Á síðustu öldum hefur einkum verið notað efra vaðið á kortinu, en síðustu árin hefur neðra vaðið meira verið notað, merkt Kópsvatnseyrar 2.

Kópsvatnseyrar hafa allar aldir verið tíðfarið vað á Hvítá. Hér lágu leiðir til Skálholts frá Hruna, Keldum, Odda og öðrum höfuðbólum Suðurlands. Vaðið er gott, en farið það eingöngu með leiðsögn staðkunnugra. Annað vað er aðeins neðar, beint yfir ána frá Hvítárholti yfir Grashólma í Vaðeyri norðan ár og þaðan norður í Bræðratungu. Einnig var svonefnt Steypuvað ofan við Skipholtsfjall og neðan við Drumboddsstaða. Fyrr á öldum var farið áfram frá Bræðratungu vestur að Tungufljóti, þar sem það rennur í Hvítá og þar á ferju yfir Tungufljót, sem lengi hefur verið óreitt á þessu svæði. Síðan um Reykjavelli í Skálholt. Til að komast á vaði yfir Tungufljót varð annars að fara upp að Fossvaði, Réttavaði eða Valdavaði, sem eru öll, þar sem efri og eldri brúin er á Tungufljóti sunnan við Einholt. Það er töluverður krókur, sé leiðinni heitið til Skálholts.

Förum frá Kópsvatni vestur að Hvítá tæpum kílómetra norðan brúar. Förum norðnorðaustur um stóru eyrina og síðan vestur yfir síðasta álinn og loks vestur að Bræðratungu. Sjá betur á korti. Farið vaðið eingöngu með kunnugum. Nú á dögum fara menn frekar um brúna.

4,8 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson

Kópsvatnseyrar 1

Frá Kópsvatni í Hrunamannahreppi yfir Hvítá að Bræðratungu í Biskupstungum.

Kópsvatnseyrar er heiti á nokkrum vöðum í Hvítá á þriggja kílómetra kafla norðan frá gljúfrum suður að nýju brúnni við Bræðratungu. Á öllu þessu svæði rennur áin á eyrum og breytir sér, svo að haga verður ferð eftir aðstæðum. Á ritunartíma Íslendingasagna og Sturlungu var áin riðin syðst, ofan Grámels á móts við Flosatraðir. Það er ekki lengur nothæft vað, né heldur efsta vaðið fyrir neðan gljúfrin. Á síðustu öldum hefur einkum verið notað efra vaðið á kortinu, en síðustu árin hefur neðra vaðið meira verið notað, merkt Kópsvatnseyrar 2.

Kópsvatnseyrar hafa allar aldir verið tíðfarið vað á Hvítá. Hér lágu leiðir til Skálholts frá Hruna, Keldum, Odda og öðrum höfuðbólum Suðurlands. Vaðið er gott, en farið það eingöngu með leiðsögn staðkunnugra. Annað vað er aðeins neðar, beint yfir ána frá Hvítárholti yfir Grashólma í Vaðeyri norðan ár og þaðan norður í Bræðratungu. Einnig var svonefnt Steypuvað ofan við Skipholtsfjall og neðan við Drumboddsstaða. Fyrr á öldum var farið áfram frá Bræðratungu vestur að Tungufljóti, þar sem það rennur í Hvítá og þar á ferju yfir Tungufljót, sem lengi hefur verið óreitt á þessu svæði. Síðan um Reykjavelli í Skálholt. Til að komast á vaði yfir Tungufljót varð annars að fara upp að Fossvaði, Réttavaði eða Valdavaði, sem eru öll, þar sem efri og eldri brúin er á Tungufljóti sunnan við Einholt. Það er töluverður krókur, sé leiðinni heitið til Skálholts.

Förum frá Kópsvatni vestnorðvestur að Hvítá og síðan norðnorðvestur um Kópsvatnseyrar á móti straumi og loks vestsuðvestur í Bræðratungu í Biskupstungum. Sjá betur á korti. Farið vaðið eingöngu með kunnugum. Nú á dögum fara menn frekar um brúna.

4,4 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Stóriskyggnir, Hvítárbakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson

Kóngsvegur

Frá Krókatjörn eftir Kóngsveginum um Mosfellsheiði og Vilborgarkeldu að Skógarhólum í Þingvallasveit.

Kóngsvegurinn var ruddur í tilefni af komu Friðriks áttunda til Íslands árið 1907. Á Mosfellsheiði fyrir vestan Heiðarbæ er Vilborgarkelda, vinsæll áningarstaður. Þaðan lágu leiðir í allar áttir. Ein í suður um Jórukleif í Grafning. Önnur lá um Kjósarskarð og niður með Laxá í Kjós, Þrengslaleið svonefnd. Enn önnur leið lá vestur um Moldbrekkur, þaðan svo hjá Leirvogsvatni um Klifið og niður hjá Bringum í Mosfellssveit.

Veturinn 1857 voru 14 vermenn þar á ferð. Sex létust úr vosbúð, en átta komust kalnir við illan leik niður að Bringum. Urðu sumir bæklaðir til æviloka. Úrslitum réði, hverjir gátu þurrkað föt sín kvöldið áður og hverjir ekki. Þeir, sem fóru í blaut föt um morguninn, fórust allir.

Byrjum við Nesjavallaveginn sunnan Krókatjarnar. Förum eftir greinlegum Kóngsvegi til austnorðausturs. Leiðin liggur nálægt brúnum dals, sem gengur austur með Grímmannsfelli í stefnu norður af austri. Síðan liggur leiðin um Háamel og áfram sömu átt um tilbreytingarlítið land og grýtta götu sunnan við Þrívörður og norðan við Klofningstjörn niður af Mosfellsheiði í Ferðamannahorn við Vilborgarkeldu sunnan Torfadalslækjar. Þaðan förum við yfir Grafningsveg norðvestan Heiðarbæjar og yfir hornið milli Grafningsvegar og Þingvallavegar. Síðan norður um heiðina austan Drykkjartjarnar og áfram norður, unz við komum á greinilega Selkotsslóð mlli Stíflisdals og Skógarhóla.

27,7 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.779 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Jórukleif, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Elliðaárdalur, Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Þrengsli, Ólafsskarð, Dyravegur, Mosfellssveit, Elliðavatn, Illaklif, Mosfellsheiði, Geldingatjörn, Selkotsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Klukkuskarð

Frá Kerlingu sunnan Skjaldbreiðar um Klukkuskarð að Hjálmsstöðum í Laugardal.

Kölluð Skarðaleið og Laugardalsskörð í Sturlungu. 1242 reið Þórður kakali “suður um heiði Skarðaleið til Laugardals þar til hann kom í Tungu til bús Gissurar.”

Sturla Þórðarson og Sturla Böðvarsson fóru árið 1262 frá Hallbjarnarvörðum um Skessubásaveg til Laugardalsskarða. “Tók þar veður að þykkna og gerði á drífu og þvínæst fjúk; gerðist þá færð ill. Lögðust þá fyrir bæði menn og hestar af óveðri. Þeir lágu úti um nóttina í skörðunum en veður rauf upp í mót degi. Fóru þeir þá suður af heiðinni og voru drottinsdag í Laugardal, en riðu mánudag í Skálholt.” Sighvatur var bróðir Þorgils skarða og vildi hann hefna hans. Ferð hans að Iðu 1262 var þó fyrst og fremst farin til að reyna að ná sáttum við Þorvarð Þórarinsson.

Byrjum við Kerlingu sunnan Skjaldbreiðar í 520 metra hæð. Förum fyrst austur að Skriðu eftir slóðinni til Hlöðuvalla. Beygjum af henni til suðurs með Skriðu og inn Langadal. Þar förum við suður þröngt Klukkuskarð milli Klukkutinda að austanverðu og Skefilfjalla að vestanverðu. Þar erum við í 560 metra hæð. Þegar við komum úr skarðinu sunnanverðu beygjum við til suðausturs fyrir Hrossabrún út á Jafnafell og förum fyrir vestan fellið niður í Fagradal. Síðan beint suður að Hjálmsstöðum í Laugardal. Bezta leiðin um skóginn er eftir þröngri bílslóð, sem opnast á melnum efst í skógarjaðrinum. Skógurinn sjálfur er nánast ófær.

10,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægir ferlar: Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason

Klóarvegur

Frá Hveragerði um Klóarveg á Ölkelduhálsleið til Villingavatns.

Af Klóarvegi er skemmtilegt útsýni niður í litskrúðugan og mest grænan Grensdal, þar sem er mikið af líparíti. Einnig er útsýni þaðan yfir í Ölfus.

Byrjum í Gufudal vestan við Reykjakot, norðan við Hveragerði í Ölfusi. Förum beint norður frá bænum upp að fjallinu og aðeins austur með því og upp með Sauðá, áður en við förum upp brekkurnar austan við Sauðatinda. Förum norður eftir fjallinu um Klóarveg eftir hryggnum milli Sauðár og Grendalsár. Leiðin liggur að Kló og upp í hana að vestanverðu, upp í 400 metra hæð. Þar uppi suðaustan undir Kyllisfelli komum við á Ölkelduhálsleið, sem liggur frá Kolviðarhóli að Grafningsvegi við Villingavatn.

4,9 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Reykjadalur, Ölkelduháls, Hengladalaá, Hellisheiði, Álftavatnsvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Kirkjuferja

Frá athafnasvæði Eldhesta á Völlum austur um Ölfus að þjóðvegi 35 sunnan Ingólfsfjalls.

Hestamann, sem koma í sleppitúrum niður Kamba frá Reykjavíkursvæðinu, fara oft þessa leið austur Ölfus að Ingófsfjalli og síðan áfram yfir Sogsbrú í Grímsnes eða yfir Ölfusárbrú í Flóann. Áður var farið norðan Ingólfsfjalls og um vað á Álftavatni, svonefnd Álftavatnsleið. Hún var farin á söguöld og allar aldir síðan.

Byrjum hjá Eldhestum á Völlum í Ölfusi. Förum suður reiðslóð og beygjum síðan þvert í austur að afleggjara að Auðsholtshjáleigu. Förum suður þann afleggjara rúmlega hálfan kílólmetra og beygjum þar austur af honum að Árnhóli. Síðan suður afleggjara að Kirkjuferju og þaðan beygjum við austur leið að Árbæjarvegi. Þaðan förum við eftir þeim vegi að þjóðvegi 1 við Ölfusárbrú við Selfoss. Eða til norðurs fyrir austan Þórustaði að Ingólfsfjalli. Og loks gamla veginn undir fjallinu að þjóðvegi 35, sem liggur að Sogsbrú og Grímsnesi.

16,2 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Kálfstindar

Milli Eyfirðingarvegar sunnan við Skjaldbreið og Stóra-Dímons á Lyngdalsheiði.

Ógreinileg jeppaslóð, sem þræðir milli hrauns og hlíða. Þarna var ekki áður leið, en hún er vel fær hestum. Kálfstindar eru móbergshryggur með reisulegum tindum. Hann hefur sömu stefnu og gosvirka beltið í heild, norðaustur-suðvestur. Syðri endi tindanna er Reyðarbarmur og Barmaskarð. Þar vestur af er áberandi hóll, Stóri-Dímon. Við hann er Tintron, strýtulaga gervigígur og hellir.

Byrjum á Eyfirðingavegi við norðvesturhorn Skriðunnar andspænis Skjaldbreið, um 2 km austan við áningu undir Kerlingu, í 520 metra hæð. Förum suður með Skriðu, milli Þjófahrauns og hlíða. Förum áfram inn Langadal í áttina að Klukkuskarði og síðan norður fyrir endann á Skefilsfjöllum og suður með fjöllunum að vestanverðu. Áfram fylgjum við Skefilsfjöllum og síðan Kálfstindun. Þegar við komum að Eldborgum á Hrafnabjargahálsi, víkjum við frá tindunum til suðvesturs að Stóra-Dímon. Við förum norðan og vestan við hann og komum í 280 metra hæð að þjóðvegi 365 um Gjábakkahraun.

28,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Klukkuskarð, Biskupavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Jórukleif

Frá Reykjavík til Nesjavalla.

Vinsæl dagleið frá Reykjavík með næturgistingu á Nesjavöllum. Fara má þá leið, sem lýst er hér að neðan eða ríða gamla þjóðveginn um Litlu Kaffistofuna og fara síðan fyrir Húsmúla inn í Engidal.

Jórukleif er upp frá Hestvík við Þingvallavatn. Þjóðsagan kennir hana við Jórunni bóndadóttur í Flóa. Þegar hestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati, trylltist hún og varð að tröllkonu. Settist hún að í Jóruhelli í Hengli. Hún beið ferðamanna í Jórukleif. Rændi öllu af þeim og drap þá síðan. Gat enginn stoppað hana fyrr en góð ráð komu frá Noregskonungi. Þetta er falleg leið og gróðursæl. Mikilfenglegt er útsýnið af brún Jórukleifar yfir Þingvallavatn. Hér er lýst leið um Lyklafell, en líka er hægt að fara um Litlu Kaffistofuna. Sú leið er einnig sýnd á kortinu.

Förum frá Faxabóli meðfram reiðhöllinni á reiðslóð austan Breiðholtsbrautar og um göng undir þjóðveg 1 við Rauðavatn. Fylgjum slóðinni sunnan vatnsins og síðan skógargötu að hesthúsunum í Almannadal . Þar förum við á gamla Suðurlandsveginn norðan þess nýja, förum yfir Bugðu og áfram austur með veginum. Fyrir innan Gunnarshólma förum við veg um sumarhúsahverfi norðaustur að Elliðakoti og þaðan eftir slóð til austurs um Stangarhól og sunnan við Lyklafell. Áfram förum við austur um Vallöldu og Norðurvelli að Hengli. Þar sveigir slóðin til norðurs með fjöllunum, fyrst um Engidal og síðan um Þjófahlaup. Einnig er hægt að taka krók um Marardal nær fjallinu. Þegar við nálgumst Nesjavallaleið förum við upp brekkur, yfir veginn og áfram beint norður og niður í Folaldadal austan við Sköflung. Þar liggur slóðin fram á brún Jórukleifar. Við förum þar niður og upp á þjóðveg 360 um Grafning. Fylgjum þeim vegi til suðurs um Illagil og Botnadal niður á Nesjavelli. Þar tökum við afleggjara að gistiskála austan til á völlunum.

42,8 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Múlasel: N64 04.880 W21 22.140.

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Rauðhólahringur, Rauðavatnshringur, Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur, Þrengsli, Ólafsskarð, Mosfellsheiði, Dráttarhlíð, Marardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Iðubrú

Frá Iðubrú að Flúðum í Hrunamannahreppi.

Algeng leið hestamanna um vað á Stóru-Laxá í sleppitúrum á vorin.

Förum frá Iðubrú á Hvítá suður og austur með ánni að Stóru-Laxá. Síðan upp með Stóru-Laxá að Ósabakka. Þar förum við norður yfir ána og að Syðra-Langholti. Þaðan eftir slóð, sem liggur um Álfaskeið og Langholtsfjall endilangt og síðan niður að þjóðvegi 341 og með honum til Flúða.

6,9 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Vörðufell, Hvítárbakkar, Galtafellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hvítárvatn

Frá Fremstaveri til Árbúða á Kili.

Þetta er hluti hins forna Kjalvegar. Bílvegurinn liggur um Bláfellsháls vestan Bláfells en við förum austan fjallsins, þar sem engir jeppar geta verið á ferð. Við fylgjum bílvegi á stuttum kafla milli brúa á Hvítá og Svartá, og förum svo síðasta spölinn um gróna bakka Svartár. Voldugt Bláfell er einkennisfjallið, en á norðurleið er bezt útsýni norður á Kerlingarfjöll. Síðari hluta leiðarinnar höfum við Langjökul og jaðarfjöll hans á vestri hönd, svo og Hvítárvatn.

Í Bláfelli bjó Bergþór tröll. Er hann var á leið úr byggð í helli sinn, sótti að honum þorsti. Hann áði við Bergstaði og bað húsfreyju að gefa sér vatn. Á meðan hún sótti vatnið klappaði Bergþór ker mikið í klöpp, sem bærinn er kenndur við og lagði á að í því myndi aldrei frjósa eða þrotna sýran.

Förum frá fjallaskálanum í Fremstaveri í 280 metra hæð eftir reiðslóð austur og norður með fellinu um Miðver og Innstaver milli Bláfells og Hvítár. Síðan norður mýrarnar í Lambafellsveri, sem geta orðið anzi blautar í rigningum. Förum norður fyrir Lambafell og vestur að skálanum vestan við Hvítárbrú. Næst förum við yfir brúna, förum norður með veginum og tökum síðan vinstri slóðina um Svartártorfur að Hvítárnesi. Við förum af veginum, þegar við komum að Svartá og fylgjum árbökkunum að austanverðu upp í fjallaskálann í Árbúðum í 470 metra hæð.

28,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417.
Hvítárbrú: N64 32.343 W19 47.137. Hesthús.
Hvítárnes: N64 36.999 W19 45.377.
Árbúðir: N64 36.553 W19 42.235.

Nálægir ferlar: Fremstaver, Þjófadalir.
Nálægar leiðir: Farið, Bláfellsháls, Grjótártunga, Kjalvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson