Lyngdalsheiði

Frá Skógarkoti í Þingvallasveit um Lyngdalsheiði til Þóroddsstaða í Grímsnesi.

Þetta er algeng leið í sleppitúrum frá Reykjavík til uppsveita Árnessýslu.

Þessa leið fór Jón biskup Vídalín frá Skálholti til Þingvalla og síðan áfram um Bláskógaheiði, þar sem hann varð bráðkvaddur í sæluhúsinu við Hallbjarnarvörður. Hann var á leið vestur á Staðastað til að jarðsyngja séra Þórð Jónsson. Leiðin Oddi-Skálholt-Þingvellir-Reykholt-Staðastaður var ein mest farni þjóðvegur landsins öldum saman.

Förum frá Skógarhólum stutta leið austur með Ármannsfelli að þverleið í hraungötu suður Sleðaáshraun. Um hana suðaustur í Hrauntún og þaðan suðvestur í Skógarkot. Þar byrjar þessi leið. Við förum suðaustur að Vellankötlu í Vatnskotsvík. Þaðan götuna áfram suðaustur yfir þjóðveg 361 að Gjábakka. Þaðan fylgir slóðin þjóðvegi 365 rúma þrjá kílómetra til austsuðausturs. Við Taglaflöt förum við á slóð suðaustur fyrir suðurenda Litla-Reyðarbarms og áfram suðaustur um norðausturhorn Lyngdalsheiðar. Við förum hjá Haustrúguvörðu rétt austan fjallaskálans í Kringlumýri. Áfram suðaustur um Biskupsbrekku, Biskupsvörðu, Beinvörðu og Áfangamýri. Síðan á Kirkjuvaði yfir Stangarlæk og suðaustur um Smalaskála að Apavatni milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða.

13,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar. Nálægar leiðir: Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Hrafnabjörg, Búrfellsgötur, Dráttarhlíð, Biskupavegur, Bakkagötur, Eskidalsvað, Prestastígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort