Klukkuskarð

Frá Kerlingu sunnan Skjaldbreiðar um Klukkuskarð að Hjálmsstöðum í Laugardal.

Kölluð Skarðaleið og Laugardalsskörð í Sturlungu. 1242 reið Þórður kakali “suður um heiði Skarðaleið til Laugardals þar til hann kom í Tungu til bús Gissurar.”

Sturla Þórðarson og Sturla Böðvarsson fóru árið 1262 frá Hallbjarnarvörðum um Skessubásaveg til Laugardalsskarða. “Tók þar veður að þykkna og gerði á drífu og þvínæst fjúk; gerðist þá færð ill. Lögðust þá fyrir bæði menn og hestar af óveðri. Þeir lágu úti um nóttina í skörðunum en veður rauf upp í mót degi. Fóru þeir þá suður af heiðinni og voru drottinsdag í Laugardal, en riðu mánudag í Skálholt.” Sighvatur var bróðir Þorgils skarða og vildi hann hefna hans. Ferð hans að Iðu 1262 var þó fyrst og fremst farin til að reyna að ná sáttum við Þorvarð Þórarinsson.

Byrjum við Kerlingu sunnan Skjaldbreiðar í 520 metra hæð. Förum fyrst austur að Skriðu eftir slóðinni til Hlöðuvalla. Beygjum af henni til suðurs með Skriðu og inn Langadal. Þar förum við suður þröngt Klukkuskarð milli Klukkutinda að austanverðu og Skefilfjalla að vestanverðu. Þar erum við í 560 metra hæð. Þegar við komum úr skarðinu sunnanverðu beygjum við til suðausturs fyrir Hrossabrún út á Jafnafell og förum fyrir vestan fellið niður í Fagradal. Síðan beint suður að Hjálmsstöðum í Laugardal. Bezta leiðin um skóginn er eftir þröngri bílslóð, sem opnast á melnum efst í skógarjaðrinum. Skógurinn sjálfur er nánast ófær.

10,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægir ferlar: Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason