Lágaskarð

Frá Kolviðarhóli við Skarðsmýrarfjall að Vindheimum í Ölfusi.

Leiðin liggur samsíða Þrengslum um þremur kílómetrum austar í landinu. Sérstakrar varúðar þarf að gæta við þjóðveg 1 vegna hraðrar bílaumferðar. Þetta er grösug leið, sem hentar hestum. Hér var þjóðleiðin yfir Hellisheiði fyrr á öldum, þangað til bílvegir tóku við, fyrst um Kamba og síðan einnig um Þrengsli.

Förum frá Kolviðarhóli suður með Litla-Reykjafelli, bögglumst yfir þjóðveg 1 um Hellisheiði. Síðan beint suður að austanverðu við Stóra-Meitil, um Lágaskarð milli Stóra- Meitils að suðvestan og Lákahnjúks að norðaustan. Síðan að vestanverðu við Stóra-Sandfell, þar sem leiðin nær 300 metra hæð. Þá vestan við Nyrðri-Eldborg og síðan að austanverðu við Syðri-Eldborg. Þar förum við suður og niður í Sanddali og milli Innbruna og Eldborgarhraun að vestanverðu og Lönguhlíðar að austanverðu, austan við Krossfjöll á Raufarhól, þar sem við komum að Þrengslavegi 39. Fylgjum þeim vegi stuttan spöl og förum síðan suður af honum niður að Vindheimum í Ölfusi. Einnig er gott að fara áfram suðaustur undir Lönguhlíð og loks um Skóghlíð niður í Ölfus.

13,8 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson