Kópsvatnseyrar 2

Frá Kópsvatni í Hrunamannahreppi yfir Hvítá að Bræðratungu í Biskupstungum.

Kópsvatnseyrar er heiti á nokkrum vöðum í Hvítá á þriggja kílómetra kafla norðan frá gljúfrum suður að nýju brúnni við Bræðratungu. Á öllu þessu svæði rennur áin á eyrum og breytir sér, svo að haga verður ferð eftir aðstæðum. Á ritunartíma Íslendingasagna og Sturlungu var áin riðin syðst, ofan Grámels á móts við Flosatraðir. Það er ekki lengur nothæft vað, né heldur efsta vaðið fyrir neðan gljúfrin. Á síðustu öldum hefur einkum verið notað efra vaðið á kortinu, en síðustu árin hefur neðra vaðið meira verið notað, merkt Kópsvatnseyrar 2.

Kópsvatnseyrar hafa allar aldir verið tíðfarið vað á Hvítá. Hér lágu leiðir til Skálholts frá Hruna, Keldum, Odda og öðrum höfuðbólum Suðurlands. Vaðið er gott, en farið það eingöngu með leiðsögn staðkunnugra. Annað vað er aðeins neðar, beint yfir ána frá Hvítárholti yfir Grashólma í Vaðeyri norðan ár og þaðan norður í Bræðratungu. Einnig var svonefnt Steypuvað ofan við Skipholtsfjall og neðan við Drumboddsstaða. Fyrr á öldum var farið áfram frá Bræðratungu vestur að Tungufljóti, þar sem það rennur í Hvítá og þar á ferju yfir Tungufljót, sem lengi hefur verið óreitt á þessu svæði. Síðan um Reykjavelli í Skálholt. Til að komast á vaði yfir Tungufljót varð annars að fara upp að Fossvaði, Réttavaði eða Valdavaði, sem eru öll, þar sem efri og eldri brúin er á Tungufljóti sunnan við Einholt. Það er töluverður krókur, sé leiðinni heitið til Skálholts.

Förum frá Kópsvatni vestur að Hvítá tæpum kílómetra norðan brúar. Förum norðnorðaustur um stóru eyrina og síðan vestur yfir síðasta álinn og loks vestur að Bræðratungu. Sjá betur á korti. Farið vaðið eingöngu með kunnugum. Nú á dögum fara menn frekar um brúna.

4,8 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson