Kóngsvegur

Frá Krókatjörn eftir Kóngsveginum um Mosfellsheiði og Vilborgarkeldu að Skógarhólum í Þingvallasveit.

Kóngsvegurinn var ruddur í tilefni af komu Friðriks áttunda til Íslands árið 1907. Á Mosfellsheiði fyrir vestan Heiðarbæ er Vilborgarkelda, vinsæll áningarstaður. Þaðan lágu leiðir í allar áttir. Ein í suður um Jórukleif í Grafning. Önnur lá um Kjósarskarð og niður með Laxá í Kjós, Þrengslaleið svonefnd. Enn önnur leið lá vestur um Moldbrekkur, þaðan svo hjá Leirvogsvatni um Klifið og niður hjá Bringum í Mosfellssveit.

Veturinn 1857 voru 14 vermenn þar á ferð. Sex létust úr vosbúð, en átta komust kalnir við illan leik niður að Bringum. Urðu sumir bæklaðir til æviloka. Úrslitum réði, hverjir gátu þurrkað föt sín kvöldið áður og hverjir ekki. Þeir, sem fóru í blaut föt um morguninn, fórust allir.

Byrjum við Nesjavallaveginn sunnan Krókatjarnar. Förum eftir greinlegum Kóngsvegi til austnorðausturs. Leiðin liggur nálægt brúnum dals, sem gengur austur með Grímmannsfelli í stefnu norður af austri. Síðan liggur leiðin um Háamel og áfram sömu átt um tilbreytingarlítið land og grýtta götu sunnan við Þrívörður og norðan við Klofningstjörn niður af Mosfellsheiði í Ferðamannahorn við Vilborgarkeldu sunnan Torfadalslækjar. Þaðan förum við yfir Grafningsveg norðvestan Heiðarbæjar og yfir hornið milli Grafningsvegar og Þingvallavegar. Síðan norður um heiðina austan Drykkjartjarnar og áfram norður, unz við komum á greinilega Selkotsslóð mlli Stíflisdals og Skógarhóla.

27,7 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.779 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Jórukleif, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Elliðaárdalur, Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Þrengsli, Ólafsskarð, Dyravegur, Mosfellssveit, Elliðavatn, Illaklif, Mosfellsheiði, Geldingatjörn, Selkotsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH