Punktar

Svona verða menn ríkir

Punktar

Þau hundruð milljarða, sem Íslendingar eiga í skattaskjóli á aflandseyju, eru oft orðnar svona til: Þú tekur risalán í krónum í banka og lætur hann færa lánið yfir í gjaldeyri. Þú skiptir fyrirtækinu í tvennt, annað á skuldina og hitt á peningana. Þú lætur innlenda félagið rúlla og innistæður reynast engar. Féð verður eftir erlendis í erlendum gjaldeyri og er falið í skattaskjóli á aflandseyju. Þú færð semsagt lánið frítt og í gjaldeyri, sem þjóðin tapar. Kröfuhafar á innlenda félagið tapa, einkum bankinn. Þegar hann fer á hausinn, tapa skattgreiðendur kostnaði ríkisins við að endurreisa hann. Nokkrir menn verða afar ríkir. Sé þetta löglegt, eru íslenzk lög heimsins mesti viðbjóður.

Forseta-martröðin

Punktar

Hef áður varað við, að Davíð Oddsson muni fyrr eða síðar skella sér í slaginn um forsetann. Hann getur líklega halað inn upp undir 20% atkvæða. Út á það getur hann orðið forseti, ef hálf þjóðin býður sig fram. Vonandi munu skoðanakannanir leiða í ljós, að nærri allir frambjóðendur hafa innan við 10% fylgi. Þeir geta þá dregið sig í hlé. Vikið til hliðar fyrir einum alvöruframbjóðanda eða tveim, sem gætu náð yfir 20% fylgi hvor. Óbærileg er sú tilhugsun, að helzti gerandi hrunsins verði forseti á vegum kvótagreifa. Hann mun í embætti fá næg tækifæri til að bregða fæti fyrir nýju stjórnarskrána og þjóðareign á auðlindum okkar.

Greifar og þrælar

Punktar

Helztu oddvitar bófaflokkanna, sem stjórna landinu, eiga það sameiginlegt að hafa átt leynda aðild að skattaskjólum á aflandseyjum. Vilja, að þjóðin eigi sitt í krónum, en koma sjálfir sínu fyrir í gjaldeyri. Eiga það sameiginlegt með herrum sínum kvótagreifum að lifa með alvörufé og læsa þjóðina í verðlausri krónu. Hana er hægt að sílækka í verði til að þjóna hagsmunum kvótagreifa og oddvita pólitískra bófaflokka. Líklega er þetta allt löglegt, en gefur innsýn í gjána milli greifa og þræla. Greifarnir eiga spilaféð og geta komið því yfir í gjaldeyri. Þjóðin getur hvorugt, enda kunna þrælar víst ekki með fé að fara.

Ríkið grípi í tauma

Punktar

Brotnir kjarasamningar við Þeistareyki sýna anga af áhrifum af frjálsu flæði vinnufólks. Verktakar sérhæfa sig í að flytja ódýra vinnu milli landa. Fara hvorki eftir landslögum né kjarasamningum. Ríkið hefur nánast engar varnir uppi og stéttarfélög eru aðeins virk á Húsavík og Akranesi. Að öðru leyti ríkir hér óheft græðgi. Alþýðusambandið er fasistafélag með SALEK í samræmi við möntruna: Stétt með stétt. Rio Tinto kemst upp með þriðja heims skepnuskap í Straumsvík. Ríkir hlunnfara fátæka, það er meginregla brauðmolastefnunnar. Ríkið eitt getur gripið í taumana. Og þarf að grípa til varna með því að lögfesta lágmarkslaun og gera þrælahaldara landræka.

Torsótt stjórnarskrá

Punktar

Umræður á píratavefnum um nýlega færslu mína „Stutta kjörtímabilið“ bendir til, að ströng verði leiðin að stjórnarskrá. Fyrst þarf nýtt þing að afgreiða skrána og síðan þarf kosningar og nýja afgreiðslu. Ef ferlið hefst eftir kosningarnar 2017, getur nýja stjórnarskráin tekið gildi í fyrsta lagi 2019. Eftir þann tíma er fyrst hægt að kjósa eftir nýju stjórnarskránni, kannski 2020 kannski síðar. Þetta er langt ferli og mun reyna á þolinmæði og úthald þjóðar. Íslendingar eru sízt þekktir fyrir slíkt. Allan tímann mun gráðugt auðræðið berjast um á hæl og hnakka. Mun beita milljörðum til að hindra, að auðræði verði breytt í lýðræði.

Öll upphefð að utan

Punktar

Pólitíkin á Íslandi er of veikburða og vanþroskuð. Stjórnarandstaðan kom sér ekki saman um vantraust á Sigmund Davíð um páskana. Menn óttuðust, að faldar eignir á aflandseyjum séu sprengiefni víðar en hjá forsætisráðherra. Að baki er löng saga meðvirkni og heigulsháttar í frumstæðri pólitík. Siðblindingjar komast hér upp með hegðun, sem ekki gengi upp í menntuðum löndum. Þeir, sem til þess hafa aðstöðu, þurfa að vekja athygli á Sigmundi hjá erlendum fjölmiðlum. Fari útlendir fjölmiðar að fjalla um íslenzku ormagryfjuna, mun það koma illa við suma jábræður siðblindingja. Öll upphefð á Íslandi kemur nefnilega að utan.

Stutta kjörtímabilið

Punktar

Píratar þurfa að gera sér og öðrum grein fyrir ferli næstu ríkisstjórnar og stjórnarskrár. Við þurfum að átta okkur á tímasetningum og takmörkunum í lögum. Hversu langan tíma tekur frá kosningum og fram að þarnæstu kosningum? Þá þarf að vera búið að fullgera stjórnarskrána fyrir þjóðaratkvæði.  Tekur hún gildi eftir þá atkvæðagreiðslu og verður þarnæst kosið í samræmi við ákvæði hennar? Hvernig spila kosningalögin inn í ferlið? Nást þessi tímamörk eða þarf annars að nota eldri reglur um þingkosningar? Hvað annað er hægt að gera á þessum tíma? Hvað verður að sitja á hakanum í þessu flókna ferli? Verður plan B? C?

Nöfnin langþráðu

Punktar

Ef við fáum að sjá lista Íslendinga með fé í skattaskjóli á aflandseyjum, förum við að skilja margt. Fjölþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, tóku listann saman. Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður á þátt í því. Spurðist fyrir um Wintris hjá Sigmundi Davíð. Það leiddi til frægrar játningar forsætisráðherrans goðumlíka. Þegar upp kemst um fleiri eigendur fjár í skattaskjólum, munum við sjá alkunn nöfn. Við munum þá líka skilja tregðu fjármálaráðherra við að leyfa Skattrannsóknastjóra að kaupa hliðstæða lista. Og frumvarp hans um refsileysi skattsvikara. Þar eru nöfn úr innsta kjarna bófaflokkanna, sem stjórna landinu.

Heimsmet í undanbrögðum

Punktar

„Hættu nú að tala um konuna þína“ voru viðbrögð Sigurjóns M. Egilssonar við undanbrögðum Sigmundar Davíðs á Sprengisandi. Þá sagði hann Landsbankann hafa ráðlagt sér að flytja féð yfir í gjaldeyri og fela í frægustu skattaparadís heims á aflandseyju. Meðan hann talar sjálfur upp krónuna. Næst vill hann ræða stjórnmálaástandið. Hyggst áfram tæta sundur traust fólks á stjórnmálunum. Í Danmörku og Noregi leyna ráðherrar ekki fjárhagslegum hagsmunum, þar segja þeir af sér. Hér gefur ráðherra sér syndaaflausn og telur fullkomlega ábyrgðarlaust af sér að segja satt. Heimsmeistarinn hættir aldrei að storka okkur.

SALEK er fasismi

Punktar

Samkomulag verkalýðsrekenda og atvinnurekenda um miðstýrð lífskjör launafólks er kallað SALEK. Hreinn og sannur fasismi. Stétt með stétt, eins og Mussolini sagði. Eins og Sjálfstæðisflokkurinn sagði. Samfélagið er orðið að eins konar líkama, þar sem líffærin vinna saman að framgangi brauðmolakreddu auðgreifa. Rangt er gefið í þessu spili. Sáttastefna undanfarinna ára hefur leitt til, að öll framleiðniaukning hefur runnið til auðgreifa. Diktator verkalýðsrekenda og hagfræðingar hans eru allir bókstafstrúarmenn brauðmolakreddunnar. Almenningur hefur ekkert skjól lengur, þegar fasisminn í SALEK er kominn til framkvæmda.

Brask-arkitektúrinn

Punktar

Tískan í brask-arkitektúr nútímans í Reykjavík felst í löngum láréttum línum veggja og glugga. Braskarar safna mörgum lóðum saman og byggja svona hús innan í lóðréttum hverfum. Ferlíkin valta yfir gömul lóðamörk og nýta lóðasafnið út í lóðamörk. Sérstaklega áberandi í hugmyndum um hótel við Lækjargötu sunnanverða og kontóra við Lækjargötu norðanverða. Tízkan er í eðli sínu ljót eins og öll önnur tízka og fellur illa að umhverfinu. Láréttar línur yfir stórar lóðir leysa af hólmi lóðréttar línur á litlum lóðum. Tízku-arkitektúr og Skipulagið í Reykjavík hafa engan sans fyrir fegurð og sparka í allt það góða, sem fyrir er.

Bókstafstrú er afturhald

Punktar

Rasismi minn felst í andstöðu við íslam sem bókstafstrú úr miðöldum. Vil hamla gegn tilraunum ýmissa klerka íslams við að troða miðöldum upp á veraldarhyggju okkar. Um leið er ég dálítið andvígur kristni. Stjórnarskráin segir hér ríkja trúfrelsi. Samt er hér ríkiskirkja, að vísu ekki sérlega uppáþrengjandi. Ríki og kirkja voru saman í hnút á miðöldum. Endurreisn, þekkingarbylting og franska byltingin ýttu bókstafstrú út á kant. Síðan hefur kirkjan verið afturhaldssöm og látið með tregðu teyma sig til nútíma. Sú saga er að mestu að baki, kristni er til friðs í veraldlegu samfélagi. Sama er alls ekki hægt að segja um íslam.

Vitlausraspítalinn

Punktar

Ted Cruz er trúarnöttari og frekar fávís frambjóðandi. Donald Trump er fremur skárri, hefur líklega meiri skilning á vanda almennings. Versti frambjóðandinn er stríðsæsingakonan Hillary Clinton á framfæri bankstera, vopnaframleiðenda og Ísraels. Hún er líkleg til að magna rugl Bandaríkjanna í Miðausturlöndum og ganga erinda Ísraels. Hún er beinlínis hættuleg heimsfriðnum. Bernie Sanders hefur enn möguleika. Fjölmiðlar hafa hingað til almennt verið honum andvígir, en það er smám saman að linast. Bernie er raunar eini maðurinn með viti í þeim langvinna kosningaslag, sem nú er hálfnaður. Ég spái honum góðum endaspretti.

60 milljarða auðlindarenta

Punktar

Sé ekki glóru í rekstri á þjóðarauðlind með sultarlaunum starfsliðs. Hér eykst ferðaþjónusta um 20% á ári. Samt vill hún greiða sultarlaun, helzt undir kjarasamningum og jafnvel með erlendu þrælahaldi. Tafarlaust þarf að setja þar upp auðlindarentu eins og í annarri leigu þjóðarauðlinda, fiskveiðum og orkuöflun. Einnig setja upp alvöru eftirlit með þeim, sem vilja velta sér upp úr þjóðarauðlindum. Eigum að fá alvörukaup fyrir vinnu plús 20 milljarða á ári í rentu af hverri hinna þriggja greina, fiskveiðum, orku og ferðaþjónustu. Þá er ég ekki að tala um skatt og þjónustugjöld, heldur rentu af auðlindaleigu.

Vondur einkarekstur

Punktar

Reynsla síðustu ára á norðurlöndum og Bretlandi sýnir, að rekstur grunnþjónustu er beztur og ódýrastur hjá ríkinu. Lakari er pilsfaldarekstur, þar sem ríkið borgar fyrir einkarekstur. Og lakastur er hreinn einkarekstur. Þetta sýna meðal annars úttektir sænsku ríkisendurskoðunarinnar á heilsuþjónustu. Reynslan af einkavæðingu járnbrauta í Bretlandi er hin sama. Til viðbótar hefur hér á landi komið í ljós, að fámenni leiðir til fákeppni og samráðs einkaaðila á mikilvægum sviðum. Í bönkum, tryggingum, olíudreifingu o.fl. þarf ríkið að eiga fyrirtæki til að halda uppi samanburði á opinberum og einkarekstri í þágu notenda.

Riksrevisionen