Punktar

Svikin sambúð

Punktar

Markaðsbúskapur og hnattvæðing hafa svikið sambúðina við velferðina um sameiginlega stjórn Evrópu eftir styrjaldir tuttugustu aldar. Starfsmenn framsækinna fyrirtækja eru orðnir að vöru, sem lýtur arðgreiðslum. Enginn er forstjóri með forstjórum nema hann reki þúsund manns. Þetta lítur vel út á teikniborðinu, en er um leið ávísun á aukin átök í þjóðfélaginu. Frönsk ungmenni ætla ekki að láta bjóða sér framtíð óstöðugrar vinnu og eru komin út á götuvígin. Þau eru framsýnni en við, en sú tíð kemur, að öll Evrópa mun ögra sambandslausum stjórnvöld

Lakari velferð

Punktar

Átökin í Frakklandi sýna okkur framan í örlög, sem markaðsbúskapur og hnattvæðing búa öllum ríkjum Evrópu, ef ekki verður hindraður flótti þeirra frá félagslegum markaðsbúskap. Þrátt fyrir árvissan hagvöxt er annar tveggja hornsteina samfélagsins á undanhaldi, velferðin. Ungmennum er boðin bráðabirgðavinna með minna öryggi. Enginn getur skýrt, að hagvöxtur þurfi að leiða til lakari velferðar. Ef svo heldur fram sem horfir, verða meiri óeirðir í Evrópu gegn markaðsbúskap en Karl Marx hefði getað dreymt um. Límið í samfélagi nútímans er farið að bresta.

Illa séðir

Punktar

Kanzlari Þýzkalands styður 100 spurninga prófið, sem Hessen leggur fyrir þá, sem vilja verða ríkisborgarar. Þetta próf er almennt talið vera til þess fallið að sigta út múslima, af því að þeir falla ekki að vestrænum siðum og skoðunum, eru ekki taldir verða hæfir borgarar á Vesturlöndum. Stuðningur við prófið hefur magnazt við ömurleg viðbrögð margra múslima við teiknimyndum af Múhameð spámanni. Andstaða við múslima hefur líka aukizt í Hollandi og Danmörku, þar sem auknar hafa verið hömlur á innflutningi þeirra. Almenningur í þessum löndum vill ekki fleiri múslima.

Hafnar úrslitum

Punktar

Sendiherra Bandaríkjanna í Írak hefur flutt stærsta flokki sjíta þau skilaboð frá Bandaríkjaforseta, að hann vilji ekki, styðji ekki og samþykki ekki, að al-Jafaari verði áfram forsætisráðherra, þótt hann njóti fylgis sjíta til þess. Þetta er sama sagan og í Palestínu, það er í lagi að halda vestrænar kosningar í miðausturlöndum, en George W. Bush ákveður, hvort kjósendur hafi greitt atkvæði rétt og áskilur sér rétt til að hafna þeim, ef það hentar honum. Þetta er annað andlit Bandaríkjanna, sem þykist með hinu andlitinu vera vestrænt ríki.

Misjöfn testamenti

Punktar

Stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael stafar sumpart frá sameiginlegum arfi í gamla testamentinu, sem er í meira uppáhaldi hjá kristnum ofsatrúarflokkum í Bandaríkjunum en hjá evrópskum kirkjum, sem hafa meiri mætur á nýja testamentinu. Gamla testamentið er gyðinglegt, en nýja testamentið er grískt. Margir Bandaríkjamenn skilgreina vestræna menningu sem judeo-kristna, meðan Evrópumenn skilgreina hana sem grísk-kristna. Pólitíkin fyrir vestan haf byggist á predikurum, er veifa eldi og brennisteini gamla testamentisins, sem ætti að banna fyrir yngri en 16 ára.

Sannleikurinn

Punktar

Íslendingar eru ekki beinlínis andvígir sannleika, en gera lítið með hann. Algeng iðja manna er að velta fyrir sér, hvort segja eigi satt, hvort ekki sé heppilegra fyrir alla aðila, að hluti sannleikans liggi kyrr eða hann allur. Víða í öðrum löndum, sérstaklega þó í Bandaríkjunum, eru menn næmir fyrir sannleika og verða fokvondir, ef að þeim er logið. Hér finnst mönnum slíkt vera sjálfsagt. Þeir, sem staðnir eru að lygi, segja bara við sjálfan sig: “Gengur betur næst”. Mér telst til, að á langri ævi hafi helmingurinn af því, sem mér hefur verið sagt, ekki verið sannleikanum samkvæmt

Andleg næring

Punktar

Hvernig breytist fólk, sem hefur ekki annað að gera en að lesa tíu síður á dag af minningar- og kjallaragreinum? Verður fólk ekki brenglað í kollinum af því að nærast andlega á bulli, froðu og lygi? Er fólk orðið svo vant þessu efni, að það telur það eitt vera rétt efni? Ótal margar spurningar af þessu tagi vakna við að fletta Mogganum og virða fyrir sér þetta lítt árennilega efni, sem er á skjön við veruleikann. Það er ekki einu sinni svo, að menn láti þetta eiga sig sem hvert annað böl. Ég þekki að vísu engan, sem les kjallaragreinar, en hef heyrt dæmi um, að fólk lesi minningargreinar.

Almannatengsl

Punktar

Við virðumst halda, að Lykla-Pétur sé auðtrúa og fletti í minningargreinum Moggans, þegar hann hleypir inn fólki. Svo skekkta mynd af veruleikanum gefa þessar greinar, að þær eru nánast gagnslausar sem mannlýsingar. Hinar mörgu kjallaragreinar blaðsins eru jafn ónothæfar. Þær eru almannatengsl á lágu plani af hálfu hagsmunaaðila. Ég man eftir manni, sem var dæmdur fyrir að falsa lyfseðil og skrifaði nýlega grein um, að dómurinn væri einkamál sitt og svívirðilegt væri að geta hans í fjölmiðlum. Þannig er síða eftir síðu blaðsins með brengluðum upplýsingum minningar- og kjallaragreina.

Illskeyttur guð

Punktar

George W. Bush talar daglega við hinn illskeytta guð gamla testamentisins. Sá guð segir honum, að ragnarök séu framundan. Bush hefur líka lesið bækur Kevin Phillips og Tim LaHaye og telur að stríð sitt gegn Írak sé hluti af upphafi heimsendis, sem sé í vændum hér á jörð. Í auknum mæli setja menn jöfnunarmerki milli Bush og ofstækismanna í villtustu kirkjum landsins. Þessir aðilar hafa óbeit á vísindum, umhverfinu, fátæklingum og útlendingum og telja brýnast að vígbúast fyrir ragnarök, sem verði í Hollywood-stíl, þar sem Bush muni leiða öfl guðs til endanlegs sigurs og heimsendis.

Villta vestrið

Punktar

Sérkennilegur er félagsskapur Bandaríkjanna á alþjóðlegum vettvangi. Með Sómalíu standa þau gegn alþjóðasáttmála um barnavernd. Í mannréttindaráðinu voru þau í fyrra 61 sinni með Kúbu, Zimbabve og Súdan. Gegn breytingu ráðsins stóðu þau með Marshall og Palau eyjum og Ísrael. Bandaríkin standa gegn öllum fjölþjóðasáttmálum og samningum, sem gerðir hafa verið, jafnvel hundgömlum Genfarsáttmála um meðferð fólks í ófriði. Bandaríkin telja sig ekki vera í samfélagi þjóðanna og eru raunar ekki í samfélagi þjóðanna, heldur stórhættulegt hryðjuverkaríki í sínu eigin villta vestri.

Tveir róttæklingar

Punktar

Studdur af Tony Blair í Bretlandi hefur José Barroso verið rangur maður á röngum stað á röngum tíma sem forstjóri Evrópusambandsins. Hann flutti tillögur, er fólu í sér aukna auðhyggju og hnattvæðingu, sem Evrópumenn sætta sig ekki við. Frakkar og Hollendingar mótmæltu með því að fella nýja stjórnarskrá sambandsins. Í stað þess að leita sátta sögðu Barroso og Blair, að niðurstaðan sýndi, að efla þyrfti auðhyggju og hnattvæðingu. Þetta hægra ofstæki Barroso og Blair hefur leitt til illdeilna, sem nú standa í bandalaginu. Málið leysist ekki með Barroso og Blair við stýrið.

Vatnsokur minnkar

Punktar

Hagfræðingarnir, sem hafa stýrt ógæfu heimsins síðustu áratugi, kallaðir Chicago-skólinn eða Washington-tónninn, hafa lengi haft á heilanum, að gott sé að einkareka vatn. Róttækur Alþjóðabankinn hefur krafizt einkavæðingar vatns eins og annarra þátta hnattvæðingar. Það hefur leitt til vatnsleysis fátæklinga, barnadauða og annarra hörmunga. Nú eru ríki þriðja heimsins, einkum í Suður-Afríku að hafna kröfu Alþjóðabankans á þessu sviði eins og öðrum og ná vatni sínu til baka úr höndum auðhringa, sem hafa lengi verið gæludýr þróunaraðstoðar Vesturlanda.

Meiðyrði á vefnum

Punktar

Háskólakennari í Bretlandi hefur verið dæmdur fyrir meiðyrði, sem féllu í umræðu á veraldarvefnum. Hin hægri sinnaða Tracy Williams taldi sig vera örugga undir dulnefni, þegar hún kallaði Michael Keith-Smith nazista og fífl með skít í höfðinu, konu hans hóru og svo framvegis. Þetta var kært, hulunni var svipt af ofstækiskonunni og hún réttilega dæmd. Þessi dómur mun hafa fordæmisgildi. Menn munu byrja að kæra gróft orðbragð felufólks á veraldarvefnum, fá það dregið fram í dagsbirtuna undir fullu nafni og dæmt til refsingar fyrir sóðaskapinn.

Óreiða í Frans

Punktar

Frakkar bregðast öðru vísi við ákvörðunum stjórnvalda en Þjóðverjar, sem eiga við svipaðar ákvarðanir að stríða, núna um rýrnun velferðar. Eins og norðurlandabúar reyna Þjóðverjar að semja um málin. Frakkar vita hins vegar, að það ber engan árangur. Þeir byrja á að marséra og halda útifundi, lenda í átökum við lögreglu. Þegar allt er komið á suðupunkt, byrjar ríkisstjórnin að gefa eftir. Meðan aðrir elska festu, þá elska Frakkar óreiðu. Óþarfi er að taka fram, að óreiðan skilar mótmælendum meiri árangri en festan skilar samningamönnum.

Lítil og léleg króna

Punktar

Krónan hefur lækkað að undanförnu, af því að hún er lítill gjaldmiðill, sem auðvelt er að tala niður. Hún er dæmigert verkefni fyrir gengisbraskara. Það er þungbært að þurfa að hafa krónu, þegar miklu öruggara væri að nota evru, sem er stór og sterkur gjaldmiðill. Evran mundi líka lækka vexti hér á landi um 2-4 prósentustig. Við stöndum hins vegar gagnvart þeim vanda, að vextir munu hækka hér á landi vegna árása á krónuna og sölu pappíra, sem eru reiknaðir í krónum. Umræða í útlöndum um veikt hagkerfi hér á landi er fyllilega eðlileg. Ríkið ræður ekki við vandann.